Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 205 legg ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um kaup Húsnæðisstofnunar ríkisins á íbúðum á nauðungaruppboði. Áður en ég settist inn á Alþingi fyrir þremur og hálfu ári síðan starfaði ég sem lögmaður talsvert mikið við innheimtu krafna. Því miður enduðu sum þeirra mála þannig að til nauðungaruppboðs þurfti að grípa til lúkningar viðkomandi kröfu. Án undantekninga var þá þannig komið fyrir skuldaranum að aðrar leiðir voru ekki færar og honum sem og öðrum fyrir bestu að þessi nauðungaraðgerð færi fram. Var iðulega ekki aðeins í málum sem ég tengdist heldur almennt að samkomulag var um að annaðhvort aðrir kröfuhafar eða skuldarinn sjálfur nyti hagnaðarins ef mismunur yrði á kaup - og söluverði viðkomandi fasteignar. Mér brá því töluvert þegar ég heyrði sögu manns sem hafði misst hús sitt á nauðungaruppboði. Í sjálfu sér væri það ekki í frásögur færandi ef ekki hefði komið til að Húsnæðisstofnun ríkisins keypti þá eign á uppboðinu og seldi síðan með töluverðum hagnaði stuttu síðar. Mismuninum hélt stofnunin hjá sér og eftir því sem mér er tjáð fært sem debet inn á reikning vegna tapa á sölu annarra eigna. Lagalega er ekkert út á þetta að setja en gagnvart þeirri fjölskyldu sem í hlut á siðferðislega rangt. Sérstaklega þegar litið er til þess að um er að ræða stofnun sem sett var á fót til að aðstoða fólk til að eignast þak yfir höfuðið og er ætlað að starfa á félagslegum grunni en ekki með hagnaðarsjónarmið í huga. A.m.k. í þessu tilviki hefði mér fundist það rétt að Húsnæðisstofnun hefði látið sér nægja að fá sína kröfu greidda og í stað þess að hirða mismuninn að létta undir með þessari fjölskyldu með því annaðhvort að greiða aðrar skuldir hennar eða einfaldlega greiða henni mismuninn út svo þau ættu möguleika að leigja sér annað húsnæði.
    Fyrirspurn mín til félmrh. er í þrennu lagi og hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:
 ,,1. Hvaða sjónarmið eru látin ráða við uppgjör á kaup - og söluverði þegar Húsnæðisstofnun ríkisins kaupir eignir á nauðungaruppboði? Heldur stofnunin mismuninum hjá sér, greiðir hún uppboðsþolanum mismuninn eða lætur hún aðra lánardrottna uppboðsþolans njóta þess að mismunur verður?
    2. Eru mörg dæmi þess að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi hagnast á því að kaupa eignir á nauðungaruppboði?
    3. Fer skoðun félmrh. saman við skoðun stjórnar Húsnæðisstofnunar ríkisins í málum af þessu tagi?``