Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Svar mitt við 1. tölul. þessarar fsp. er eftirfarandi: Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins hefur stofnunin unnið eftir starfsreglum um meðferð uppboðsmála sem samdar voru 1987 -- 1988 í samráði við Ríkisendurskoðun. Ríkisendurskoðun staðfesti reglur þessar með bréfi í september 1988 og hefur aldrei komið fram athugasemd frá henni um kaup Húsnæðisstofnunar á uppboðsíbúðum.
    Helstu atriði starfsreglna Húsnæðisstofnunar eru þau að þegar íbúð er keypt á uppboði og síðan seld aftur er við það miðað að söluandvirði eignarinnar dugi fyrir útlögðu kaupverði eignarinnar á uppboði að viðbættum lánum Byggingarsjóðs ríkisins sem ekki hafa rúmast innan kaupverðs og kostnaði sem hlýst af kaupum og sölu eignarinnar.
    Samkvæmt starfsreglum Húsnæðisstofnunar er við uppgjör hafður sá háttur að neikvæður munur er færður á reikningsliðinn Glötuð veð en jákvæður munur rennur í Byggingarsjóð ríkisins. Hvorki uppboðsþola né lánardrottnum er greiddur mismunurinn. Og er Húsnæðisstofnun þeirrar skoðunar a.m.k. enn sem komið er að jákvæður munur, ef einhver er, eigi ekki að renna til uppboðsþola heldur Húsnæðisstofnunar. Er ég þar á annarri skoðun.
    Þegar talað er um jákvæðan mismun í þessu sambandi sem kann að myndast hefur þó hvorki verið tekið tillit til kostnaðar starfsmanna lögfræðideildar Húsnæðisstofnunar né heldur verið framreiknaður útlagður kostnaður með tilliti til vísitölu og vaxta. Í raun verður því varla unnt að tala um jákvæðan mismun nema í örfáum undantekningartilvikum. Þetta kemur m.a. fram í svari Húsnæðisstofnunar ríkisins til ráðuneytisins nú 4. des. sl. Fram kemur einnig að dæmi séu um að íbúðir hafi verið keyptar á hærra verði en fengist hafi fyrir þær í endursölu.
    Sem svar við öðrum lið, þar sem spurt er um það hvort mörg dæmi séu um það að Húsnæðisstofnun ríkisins hafi hagnast á því að kaupa eignir á nauðungaruppboði, er því til að svara að samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins sem ráðuneytið óskaði eftir í þessu sambandi kemur fram að ekki er fyrir hendi úttekt á heildarniðurstöðum á kaupum eigna á uppboðum og endursölu þeirra. Sl. ár hefur Byggingarsjóður ríkisins árlega keypt að meðaltali um 60 íbúðir á nauðungaruppboðum en byggingarsjóðurinn á núna 73 íbúðir sem keyptar hafa verið á uppboðum. Þar af eru aðeins fimm íbúðir á Stór - Reykjavíkursvæðinu, aðrar á landsbyggðinni. Jafnan er reynt að koma íbúðunum í verð sem fyrst svo að byggingarsjóðurinn tapi ekki lánum sínum og þarf oft í því sambandi að lána stóran hluta kaupverðs til 15 -- 25 ára til að ná því markmiði. Sé um
jákvæðan mismun að ræða fær byggingarsjóðurinn hann þannig greiddan á löngum tíma. Þrátt fyrir þessa viðleitni verður oft neikvæður mismunur hjá Byggingarsjóði ríkisins vegna uppboðs íbúða. Aðalástæðan er sú að brunabótamat fasteigna er lagt til grundvallar útlánum en á ýmsum stöðum á landsbyggðinni

er söluverð eigna miklum mun lægra. Einnig þarf að hafa í huga að margar af þeim íbúðum sem Byggingarsjóður ríkisins á víðs vegar um landið eru mjög lélegar og þar að auki á þeim svæðum sem vonlítið er að selja fasteignir. Eignaumsýsla er því mjög kostnaðarsöm vegna rafmagns, hita, trygginga og fasteignagjalda og eins vegna nauðsynlegs viðhalds og eftirlits. Að mati Húsnæðisstofnunar er því ekki um jákvæðan mismun að ræða nema í undantekningartilvikum. Einnig er rétt að benda á að fyrri íbúðareiganda er gefinn kostur á að kaupa íbúð sína aftur, óski hann eftir endurkaupum, svo fremi að nægileg greiðslugeta sé fyrir hendi.
    Í þriðja lagi er spurt hvort skoðun mín fari saman við skoðun Húsnæðisstofnunar ríkisins í málum af þessu tagi. Sem svar við þessari spurningu vil ég fyrst segja eftirfarandi: Í nóvember 1988 skipaði ég starfshóp til að fjalla um vandamál fólks í greiðsluerfiðleikum. Eitt af verkefnum starfshópsins var að leggja fram tillögur um hvernig unnt væri að breyta lögum og reglugerðum um nauðungaruppboð íbúðarhúsnæðis með það að markmiði að gefa skuldurum meira svigrúm til samninga og tryggja betur rétt íbúðareigenda ef til nauðungarsölu kemur. Starfshópurinn lagði til að flutt yrði frv. til laga um breytingu á skipulagi nauðungarsölu til að auka möguleika íbúðareigenda í greiðsluvanda til að ná samkomulagi við kröfuhafa og tryggja betur rétt þeirra ef til nauðungarsölu kæmi. Einnig var lagt til að leitað yrði eftir samkomulagi við uppboðshaldara um að með tilkynningu um uppboðsbeiðni verði jafnan sendar upplýsingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins um möguleika uppboðsþola að leita sér ráðgjafar og aðstoðar ráðgjafarstöðvarinnar. Þessum tillögum starfshópsins var komið á framfæri við dómsmrh. í desembermánuði 1988 og væntanlega koma þær til athugunar við undirbúning frv. um uppboð.
    Félmrn. barst eitt erindi vegna sölu Húsnæðisstofnunar ríkisins á íbúð sem stofnunin keypti á nauðungaruppboði og talið var að jákvæður mismunur hefði í því sambandi runnið í Byggingarsjóð ríkisins. Er það tilfellið sem fyrirspyrjandi nefndi. Um var að ræða eign sem var slegin Byggingarsjóði ríkisins á nauðungaruppboði. Kaupverð var 3,5 millj. kr. en þegar kröfur sjóðsins og uppboðskostnaður eru tekin með í dæmið er raunverulegt kaupverð orðið 6,3 millj. kr. Kaup á nauðungaruppboði eru staðgreiðslukaup þannig að í þessu tilviki var sambærilegt kaupverð á frjálsum markaði um 7 millj. kr. Byggingarsjóður ríkisins seldi umrædda eign á markaðsverði fyrir 7,4 millj. kr. Bókfærður hagnaður sjóðsins verður nálægt 1,1 millj. en raunverulegur hagnaður um 400 þús. kr. af þessari umræddu eign sem fyrirspyrjandi hér nefndi.
    Af þessu tilefni skrifaði ég Húsnæðisstofnun ríkisins bréf dags. 11. maí 1990. Þar kom fram sú skoðun að lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins væru hluti af velferðarkerfi þjóðfélagsins og félagsleg aðstoð við einstaklinga í húsnæðismálum og því væri með öllu óeðlilegt að aðgerðir stofnunarinnar leiddu til þess að einstaklingar yrðu fyrir fjárhagslegu tjóni. Samkvæmt

upplýsingum frá Húsnæðisstofnun ríkisins eru reglur stofnunarinnar um meðferð uppboðsíbúða nú til endurskoðunar. Ég hef lagt á það áherslu við stofnunina að lögð verði áhersla á að við meðferð uppboðsmála verði haft að leiðarljósi að aðgerðir stofnunarinnar leiði ekki til þess að einstaklingar verði fyrir fjárhagslegu tjóni.
    Ég er þeirrar skoðunar að í þeim tilfellum sem jákvæður munur myndast við endursölu á uppboðsíbúðum eigi hann að renna til uppboðsþola og mun ég leggja áherslu á að það atriði verði sérstaklega skoðað við endurskoðun á reglum stofnunarinnar um uppboðsíbúðir.