Opinberar fjársafnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
     Virðulegi forseti. Á þskj. 224 ber ég fram fsp. til hæstv. dómsmrh. um opinberar fjársafnanir. Á síðustu árum hefur það færst í vöxt að stofnanir, félög eða samtök manna hafa efnt til opinberrar fjársöfnunar til styrktar þeim málefnum sem þau standa fyrir. Þar má nefna sem dæmi söfnun til styrktar baráttunni við áfengissýkina, söfnun til Krýsuvíkursamtakanna svonefndu og safnanir til að byggja hús undir ýmiss konar starfsemi. Margar þessara opinberu fjársafnana ganga undir nafninu átak, átak til þess eða hins, átak gegn þessu eða hinu. Hér á landi býr fólk sem gjarnan vill og hefur látið fé af hendi rakna til þess að styrkja góð málefni og því verður ekki neitað að í flestum tilvikum hafa opinberar fjársafnanir verið settar af stað til að styðja góðan málstað. Það virðist einnig vera svo að ríkisstofnanir og jafnvel ráðuneyti standi fyrir opinberum fjársöfnunum. Þar á ég við eitt nýjasta átakið, landgræðsluskóga. Þar fór fram mikil fjársöfnun og háar upphæðir skiluðu sér inn frá þjóðinni, tugir milljóna. Eftir því sem ég best veit eiga landbrn., ríkisstofnunin Landgræðslan og Skógrækt ríkisins beina aðild að þessu átaki. Til eru lög um opinberar fjársafnanir, lög nr. 5/1977, þar sem kveðið er skýrt á um hvernig staðið skuli að opinberum fjársöfnunum og hvernig reikningsskilum skuli háttað. Eins og ég nefndi áðan safnast oft verulegar fjárhæðir og eðlilegt að þeir sem standa fyrir slíkum söfnunum standi skil á gerðum sínum. Því spyr ég hæstv. dómsrmh.:
 ,,1. Hvernig er eftirliti háttað með opinberum fjársöfnunum stofnana og félaga?
    2. Er gengið eftir því að 7. gr. laga nr. 5/1977, um opinberar fjársafnanir, þar sem kveðið er á um opinbera birtingu á reikningsyfirlitum sé framfylgt? Ef svo er með hvaða hætti er það gert og hvar hafa slík yfirlit verið birt?
    3. Með hvaða hætti er fylgst með því að söfnunarfé sé notað í þeim tilgangi sem upphaflega var ætlað, sbr. 5. gr. laga nr. 5/1977?
    4. Eru ríkisstofnanir eða ráðuneyti þátttakendur eða aðilar að slíkum fjársöfnunum? Ef svo er hvaða reglur gilda um þátttöku þeirra og um meðferð þeirra og notkun á söfnunarfé?``