Opinberar fjársafnanir
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Dómsmálaráðherra (Óli Þ. Guðbjartsson) :
    Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Suðurl. beinir til mín fsp. á þskj. 224 í fjórum liðum og er fyrsti liður svohljóðandi:
    ,,Hvernig er eftirliti háttað með opinberum fjársöfnunum stofnana og félaga?``
    Samkvæmt lögum um opinberar fjársafnanir, nr. 5 24. mars 1977, er stofnunum, félögum og samtökum manna heimilt að gangast fyrir opinberum fjársöfnunum í sérhverjum löglegum tilgangi. Opinberum fjársöfnunum má skipta í tvo flokka. Annars vegar eru opinberar fjársafnanir á götum eða í húsum og eru þær háðar sérstöku leyfi dómsrmn., sbr. 4. gr. laganna. Hins vegar eru opinberar fjársafnanir almennt. Þær eru ekki háðar leyfi en skv. 3. gr. laganna skal tilkynna viðkomandi lögreglustjóra um slíka fjársöfnun áður en hún hefst.
    Ekki eru í ráðuneytinu gögn um það hvernig tilkynningarskyldu til lögreglustjóra er háttað í reynd. Hlutaðeigandi lögreglustjóri fær tilkynningu um þau leyfi sem ráðuneytið veitir. Eftir því sem næst verður komist mun ekki fylgst sérstaklega með því að tilkynningar berist um opinbera fjársöfnun sem til er stofnað.
    Annar liður fsp. hv. þingmanns: ,,Er gengið eftir því að 7. gr. laga nr. 5/1977, um opinberar fjársafnanir, þar sem kveðið er á um opinbera birtingu á reikningsyfirlitum sé framfylgt? Ef svo er með hvaða hætti er það gert og hvar hafa slík yfirlit verið birt?``
    Skv. 7. gr. laganna skal birta reikningsyfirlit söfnunar áður en sex mánuðir eru liðnir frá því henni lauk, a.m.k. einu sinni í dagblaði, vikublaði eða á annan hátt. Sömuleiðis skal senda viðkomandi lögreglustjóra reikningsyfirlit söfnunar ásamt tilkynningu um hvar og hvenær birting fer fram.
    Svo sem rakið er að framan skal viðkomandi lögreglustjóra tilkynnt um hvar og hvenær birting fer fram, jafnframt því að honum skal senda reikningsyfirlitið. Ekki liggur fyrir hjá ráðuneytinu yfirlit um slíkar birtingar né heldur upplýsingar um hvernig slíkar tilkynningar hafa borist lögreglustjórum. Eftir því sem næst verður komist mun þessari tilkynningarskyldu lítt framfylgt.
    Þriðji liður fsp. er svohljóðandi: ,,Með hvaða hætti er fylgst með því að söfnunarfé sé notað í þeim tilgangi sem upphaflega var ætlað, sbr. 5. gr. laga nr. 5/1977?``
    Með hliðsjón af niðurlagi 7. gr. er ætlast til þess að fram komi í reikningsyfirliti söfnunar hvernig söfnunarfé hefur verið notað, því þar segir að ef ekki liggja fyrir gögn um notkun söfnunarfjár þegar reikningi söfnunarinnar er lokað þá skuli endurskoðandi síðar gefa skýrslu þar um. Um framkvæmd þessa vísast til þess sem sagt var undir síðasta lið. Tekið skal fram að ekki hefur komið til þess að leitað hafi verið eftir heimild til að nota fé í öðrum tilgangi en upphaflega var ætlað. Rétt er að taka fram að ekki er kunnugt um að fram hafi komið kvartanir um misferli í sambandi við opinberar fjársafnanir.

    Fjórði liður fsp.: ,,Eru ríkisstofnanir eða ráðuneyti þátttakendur eða aðilar að slíkum fjársöfnunum? Ef svo er hvaða reglur gilda um þátttöku þeirra og um meðferð þeirra og notkun á söfnunarfé?``
    Engar sérreglur gilda samkvæmt lögum um ríkisstofnanir eða ráðuneyti en stofnanirnar almennt falla undir lögin, skv. ákvæði 1. gr. Fjárreiður ríkisstofnana lúta almennu eftirliti hlutaðeigandi ráðuneytis auk eftirlits Ríkisendurskoðunar. Af yfirliti yfir fjársöfnunarleyfi sem ráðuneytið hefur gefið út skv. 4. gr., fjársafnanir á götum eða í húsum, þ.e. merkjasölur og þess háttar, síðustu fjögur ár, verður ekki séð að ráðuneyti eða stofnanir ríkisins hafi verið aðilar að slíkum fjársöfnunum utan einu sinni. Með bréfi dags. 2. apríl 1990 var framkvæmdanefnd landgræðsluskógaátaks 1990 veitt heimild til að hafa fjársöfnun með merkjasölu á götum og í húsum um land allt dagana 26. til og með 29. apríl 1990. Í umsókn framkvæmdanefndarinnar kom fram að efna átti til sérstaks átaks í skógrækt og landgræðslu með stuðningi Skógræktar ríkisins, Landgræðslu ríkisins og landbrn. Af umsókninni mátti því ráða að opinberir aðilar styddu þá framkvæmd sem fé var safnað til. Rétt er að taka fram að ýmsar opinberar fjársafnanir hafa haft að markmiði að styðja við bakið á opinberri starfsemi þótt stofnanirnar standi ekki beinlínis að söfnuninni.
    Af því sem hér hefur komið fram má ráða að ekki er nægilega fylgst með því að lögreglustjórum sé tilkynnt um opinberar fjársafnanir og að reikningsskil séu gerð, svo sem lögboðið er. Rétt er að undirstrika að eingöngu er um tilkynningarskyldu að ræða til lögreglustjóra. Til opinberrar fjársöfnunar þarf almennt ekki leyfi. Einungis þarf leyfi til slíkrar fjársöfnunar sem fram fer á götum eða í húsum. Dómsmrn. veitir um eða yfir 20 slík leyfi á ári auk þess sem
allnokkrir aðilar hafa fasta fjáröflunardaga á ári hverju. Þegar þau leyfi eru gefin út er athygli jafnan vakin á lögum um opinberar fjársafnanir.
    Af þessu tilefni mun dómsmrn. rita öllum lögreglustjórum bréf og vekja sérstaka athygli þeirra á lögum um opinberar fjársafnanir. Verður þar hvatt til þess að fylgst verði með því að opinberar fjársafnanir fari ekki fram án þess að tilkynningarskyldu sé fullnægt og að reikningsskil verði gerð og þau birt opinberlega.
    Ráðuneytið mun jafnframt sérstaklega vekja athygli þeirra sem síðasta árið hafa fengið heimild þess til fjársöfnunar á götum og í húsum á skyldu þeirra til að gera reikningsskil vegna fjársöfnunarinnar.