Greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þessarar fsp. vil ég í fyrsta lagi geta þess að hugtökin ,,óunnin`` eða ,,ómæld`` yfirvinna eru ærið oft í daglegu tali notuð með óljósum hætti. Yfirleitt vísa þau til þess að um er að ræða greiðslu yfirvinnuþóknunar án þess að fyrir liggi útskrift stimpilklukku eða önnur viðurkennd tímamæling. Í raun og veru væri réttara í þessu sambandi að nota hugtakið ,,metin`` yfirvinna. Það ræðst af því að þessar greiðslur tíðkast í tilvikum þar sem yfirvinnan er fyrir fram ákveðin eða metin en ekki mæld, annaðhvort samkvæmt ákvæðum kjarasamnings eða vegna sérstakra aðstæðna á vinnustað viðkomanda þegar mjög erfitt er að koma við áreiðanlegri mælingu á magn yfirvinnunnar. Í þeim tilvikum sem slíkt fyrirkomulag hefur verið samþykkt fá þær launagreiðslur sérstaka tegundarmerkingu í launakerfi ríkisins þannig að þær eru skýrt aðskildar frá öðrum.
    Þeir einstaklingar eða hópar sem fá greidda metna yfirvinnu samkvæmt þessari tegundarmerkingu eru í fyrsta lagi skólastjórar, en í kjarasamningum við þá er ákvæði þar sem sagt er að í stað mældrar yfirvinnu skuli þeir fá greiddan tiltekinn fjölda yfirvinnustunda á mánuði. Á árinu 1989 fengu alls 376 skólastjórnendur yfirvinnu greidda samkvæmt slíkum ákvæðum. Fjöldi stunda var 62.849 og launin voru rúmar 62 millj. kr. sem, að viðbættum 3,7 millj. vegna launatengdra gjalda, gera alls 66.344.483 kr.
    Í öðru lagi eru yfirmenn stofnana sem stöðu sinnar vegna og sakir ábyrgðar og áritunarskyldu á yfirvinnuskýrslur starfsmanna sinna hafa fallið frá samningsbundnum rétti um tímamælingar en þegið í staðinn íhaldssamt --- og ég legg áherslu á það, íhaldssamt mat á vinnutíma er fellur undir dagvinnumörk.
    Í þriðja lagi eru fjölmargir starfsmenn ríkisins sem vinna við slíkar aðstæður að þeir eru einir til frásagnar um vinnutímaframlag sitt utan dagvinnumarka. Við þá hefur oftar en ekki tekist samkomulag um að meta yfirvinnuna í stað þess að mæla hana.
    Greiðslur fyrir þessa tvo hópa sem ég hef nefnt til viðbótar við skólastjórana voru samtals á árinu 1989 298 millj. kr. og fjöldi einstaklinga 998. Heildargreiðslur vegna metinnar yfirvinnu á árinu 1989, þ.e. laun og launatengd gjöld, voru 328.863.768 kr. Á því sama ári voru heildarlaunagreiðslur frá Launaskrifstofu ríkisins 25.796.634.714 kr. Sú upphæð sem er greidd vegna metinnar yfirvinnu er því aðeins rúmlega 1% af heildarlaunagreiðslum ríkisins. Ekki er hægt að gefa viðhlítandi svar við spurningunni um hvaða launaflokkar fái greidda metna yfirvinnu því að þeir eru fjölmargir eins og framangreint yfirlit ber með sér.
    Að lokum var spurt hverjar séu heildarlaunagreiðslur ríkisins fram yfir launagreiðslur samkvæmt kjarasamningum. Hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða hjá hv. fyrirspyrjanda vegna þess að allar launagreiðslur ríkisins eru samkvæmt ákvæðum kjarasamninga.