Lögfræðilegt álit á bráðabirgðalögunum
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Þessi fyrirspurn er mjög þörf. Það er að vísu mjög ósmekklegt af hæstv. forsrh. að vitna í einkasamtal hv. þm. við hæstv. sjútvrh., ekki síst þar sem sjútvrh. er fjarverandi og getur ekki staðfest hvort rétt sé með farið.
    Það er vitnisburður um þessi bráðabirgðalög að æ fleiri stjórnmálamenn lýsa því yfir af tilefni þeirra að rétt sé að vald til útgáfu bráðabirgðalaga verði fellt niður. M.a. hefur formaður Alþfl. lýst því yfir að það sé nauðsynlegt. Það er mikill vitnisburður um þann mann sem nú fer með æðstu stjórn landsins, hæstv. forsrh.
    Þessi fyrirspurn er líka gagnleg að því marki að hæstv. forsrh. lýsti því yfir að skriflegar álitsgerðir hefðu legið fyrir frá ýmsum lögfræðingum áður en bráðabirgðalögin voru sett. Það er nú svo að þegar talað er um álit lögfræðinga er að sjálfsögðu átt við skriflega álitsgerð og hæstv. forsrh. talaði svo sem slík álitsgerð væri fyrir hendi, lægi fyrir í ráðuneytinu. Ég mun að sjálfsögðu leita eftir því í fjh. - og viðskn. Ed. að forsrn. láti þessi gögn af hendi þannig að nefndin geti metið þau gögn sem lágu til grundvallar við setningu bráðabirgðalaganna.
    Ég veit að hæstv. forsrh. segir satt þegar hann talar um það að ótal álitsgerðir margra lögfræðinga liggi fyrir og hafi legið fyrir. Hann vilji ekki opinbera þessar álitsgerðir nú af því að málið sé fyrir dómstóli. Hitt er rangt að sá lögfræðingur sem fer með mál og er verjandi ríkisstjórnarinnar í þessu máli gefi út álitsgerð. Hann býr einungis til plagg sem er varnarplagg fyrir ríkisstjórnina og hefur ekkert með það að gera að vera álitsgerð í þessu máli.