Lögfræðilegt álit á bráðabirgðalögunum
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Stefán Valgeirsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka forsrh. fyrir svarið. Ég gerði fyrir fram ekki ráð fyrir því að það yrði mikið í því. Það kom fram í sjónvarpi þar sem hann ræddi við borgarstjóra að hann hefði undir höndum skriflegar álitsgerðir frá lögfræðingum. Ég tek undir það sem síðasti ræðumaður sagði í sambandi við ríkislögmann sem er verjandi í þessu máli og náttúrlega ekkert mark á því takandi því að þeir sem eru að verja mál verða að tína allt til. En ef það væri álitsgerð sem hann hefði gefið áður, á meðan var verið að setja þessi bráðbirgðalög, væri það allt annað mál. Og ég vænti þess að hæstv. forsrh. hafi það undir höndum.
    En það var ekki heldur verið að spyrja um hvort það væri eftir að málið kæmi hér inn á þing, heldur hvort það væri álitsgerð sem hann hefði í höndum. Ég gerði ráð fyrir því að það hefði verið athugað áður en bráðabirgðalögin voru sett.
    Í sambandi við þær umræður sem fóru fram á milli okkar sjútvrh. þá voru þær á þann veg að ég var með varnaðarorð við því að setja svona bráðabirgðalög. Ég vildi ekki ganga lengra eftir því sem við töluðum lengur saman en það að setja frest á þessar greiðslur þangað til dómsniðurstaða væri fallin. Í sambandi við það mál sagði ég að það mundi líklega verða að setja slík bráðabirgðalög. En ég innti hann eftir því hvort hann hefði látið forsrh. vita um mína afstöðu sem hann kvað já við. Það er það eina sem fór á milli okkar. Þetta svar er því dálítið einkennilegt. Og ég vil taka það fram að það er rétt að Jón Sveinsson, aðstoðarmaður forsrh., hringdi í mig eftir að ég var kominn á fund inn í Rúgbrauðsgerð í sambandi við langtímaáætlun í vegamálum og ég hafði enga möguleika á því að fara á fund hans, enda kemur það í ljós að þar hefði ég ekkert fengið miðað við það svar sem forsrh. kemur hér með.