Snjómokstur
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn á þskj. 236 til hæstv. samgrh. um snjómokstur sem hljóðar svo:
 ,,1. Verða snjómokstursreglur endurskoðaðar á þessum vetri?
    2. Ef svo er, hvað verður þá haft að leiðarljósi við þá endurskoðun?``
    Það sem vakir fyrir mér, hæstv. forseti, í þessu sambandi er það gífurlega misrétti sem ríkir á milli sveitarfélaga varðandi snjómoksturinn. Það eru til sveitarfélög sem eru með þjóðvegi upp á 60 km innan sveitarfélagsins en ríkið greiðir aldrei að fullu nema 5 km. Það má líka nefna sveitarfélög þar sem heildarkostnaður við snjómokstur var á fimm fyrstu mánuðum þessa árs um 20 þús. kr. á íbúa þrátt fyrir það að svo til ekkert hafi verið hægt að sinna snjómokstri á heimreiðum eða sýsluvegum. Það gefur auga leið að í litlum sveitarfélögum getur þessi kostnaður verið mjög erfiður og nær óyfirstíganlegur.
    Við getum á hinn bóginn hugsað okkur sveitarfélög þar sem þjóðvegur nr. 1 liggur í gegnum sveitarfélagið og ríkið sér alfarið um moksturinn. Þess vegna hef ég leyft mér að bera fram þessa fyrirspurn til hæstv. samgrh.