Snjómokstur
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir jákvæð svör. Hann kom aðeins inn á akstur skólabarna og það er einmitt atriði sem ég vildi koma inn á líka. Nú settum við lög hér á síðasta þingi um skólaskyldu sex ára barna. Það gerir það að verkum að skólaaksturinn eykst því ég veit ekki til að það tíðkist nokkurs staðar svo að sex ára börn séu látin vera í heimavist. Og bara þetta gerir þetta mál enn brýnna og mikilvægara en áður hefur verið. Og það segir okkur að það er ekki bara umferðarþunginn sem verður að taka tillit til heldur ýmis önnur atriði, svo sem þetta. En að öðru leyti vil ég þakka ráðherra fyrir svörin.