Landbrot við Jökulsá á Breiðamerkursandi
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Á þskj. 243 hef ég leyft mér að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um landbrot við Jökulsá á Breiðamerkursandi. Hún er svohljóðandi:
    ,,Hvaða athuganir liggja fyrir á landbroti við Jökulsá á Breiðamerkursandi sem rofið gæti hringveginn og myndað fjörð þar sem nú er Jökulsárlón?``
    Aðstæður á þessum stað á landinu hafa verið að breytast allverulega undanfarna áratugi, eins og raunar gildir víðar við suðurströndina. Að baki liggur sú staðreynd að dregið hefur úr framburði jökuláa samfara lónamyndun. Á þetta ekki síst við um jökulvötnin í Austur - Skaftafellssýslu. Þar með er minna efni til þess að fylla upp í ströndina sem sjórinn hefur höggvið í á undanförnum áratugum. Við Jökulsá á Breiðamerkursandi hefur vegalengdin styst um helming á tæpri hálfri öld, 45 árum, sem menn hafa til samanburðar samkvæmt loftmyndum af þessu svæði. Þar sem áður var um einn km frá lóni til sjávar eru nú aðeins rúmir 500 metrar og þar sem styst er frá sjó að vegi nr. 1, hringveginum svonefnda, skammt austan við brúna yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi er fjarlægðin komin niður í 60 metra og hefur verið að styttast ár frá ári. Það gerðist á liðnu hausti að við ekkert sérstaklega óvenjulegar aðstæður veðurfarslega og hvað sjávarstöðu snerti náði sjórinn alveg upp í vegfyllingu á einum stað. Það er því alveg ljóst að þarna getur verið vá fyrir dyrum hvenær sem er og ekki aðeins það að skörð rofni í hringveginn, sem bæta mætti, heldur gæti hitt gerst á einhverju tímabili, sem ekki er hægt að fullyrða hversu langt yrði, að sjórinn flæddi beinlínis inn í Jökulsárlón. Þar gætir sjávarfalla nú þegar en þar gæti orðið bein tenging á milli lóns og sjávar þannig að Jökulsárlónið yrði nánast fjörður og þar færðist óhemjumikið vatnsmagn til og frá tvívegis á sólarhring með flóði og fjöru.
    Tilefni fyrirspurnarinnar eru þessar aðstæður sem hafa verið að verða mönnum ljósari nú upp á síðkastið. Þarna hafa farið fram mælingar unnar af heimamönnum. Það er Fjölnir Torfason, bóndi á Hala í Suðursveit, sem rekur ferðaþjónustu við Jökulsárlón, sem hefur fylgst með þessum málum og að eigin frumkvæði mælt fjarlægðir þarna milli sjávar og lóns undanfarin 12 ár. Það er alveg ljóst að rofið vex frá ári til árs þannig að það gæti verið skemmra í að þarna gerðust meiri háttar tíðindi en menn hyggja. Af þeim sökum spyr ég hæstv. ráðherra um hvaða athuganir liggi fyrir á þessu landbroti með tilliti til hringvegarins. Vissulega eru þarna fleiri mannvirki í hættu, þ.e. raflínur, bæði sveitalína yfir í Öræfasveit en einnig hringtengingin, vegasamband orkunnar um landið, þar sem er suðurlínan sem liggur milli lóns og sjávar á þessum stað og þar sem einnig þyrfti að gera athuganir og tryggja samband orkuflutningsins.