Landbrot við Jökulsá á Breiðamerkursandi
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svör hans og undirtektir og fagna því að þessi mál eru í athugun á vegum samgrn. og að ég skildi einnig á vegum orkuyfirvalda og ráðgert er að halda fund aðila um málið til þess að átta sig á hvernig best verði að bregðast sameiginlega við þessum aðstæðum.
    Þær upplýsingar sem hæstv. ráðherra var hér með falla saman við það sem ég nefndi, þó að tölur séu ekki nákvæmlega hinar sömu kannski, en það skeikar ekki miklu. Ég tel að það sé mjög gott að það skuli nú upplýst að menn eru að fylgjast með þessum breytilegu aðstæðum til þess að tryggja þarna vegasamband og flutning raforku þrátt fyrir þær breytingar sem náttúran stendur fyrir á þessu svæði.
    Vegna eins atriðis sem hæstv. ráðherra nefndi, þ.e. um sjávarkambinn austan Jökulsár á Breiðamerkursandi, þá hef ég upplýsingar um það frá heimamönnum að þessi sjávarkambur hafi hlaðist aðallega upp að sumarlagi undanfarin ár, en á liðnu sumri hafi það ekki orðið með sama hætti og áður. Og á ákveðnu bili, í hinum gamla farvegi Jökulsár sem dreifði sér þarna um nokkurt svæði austar, þar við ströndina sé nú ekki sá kambur til varnar sem hefur verið á haustin að undanförnu. Ég held að það sé óvarlegt að ætla að aðstæður breytist ekki svo næstu 2 -- 3 áratugina að brúnni á Jökulsá á Breiðamerkursandi sé ekki hætta búin. Auðvitað getur enginn fullyrt um það, en ég teldi óvarlegt að ganga út frá slíku. Við höfum orðið vitni að náttúruhamförum við suðurströndina samhliða stormi og hárri sjávarstöðu. Ég minni á flóðin við Eyrarbakka og á þeim slóðum hér suðvestanlands á síðasta vetri sem leiddu til hamfara sem menn höfðu ekki þekkt, ekki orðið vitni að um langan tíma. Og það er við slíkum aðstæðum sem menn þurfa að geta brugðist með skynsamlegum hætti og yfirveguðu ráði.
    Ég vil vænta þess að bið verði á að það jafnvægi skapist sem hæstv. ráðherra vísaði til að kynni að myndast og leysa málið, því það væri þá afleiðing, ef ég hef lesið rétt í orð hans, framgangs jökla í kjölfar mjög kólnandi veðráttu í landinu. Ég vona að þær aðstæður skapist ekki í bráð á Íslandi þó að við þurfum einnig að vera við slíku búin til lengri tíma litið.
    Annars þakka ég hæstv. ráðherra fyrir greinargott svar.