Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Kristín Einarsdóttir :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir að kveðja sér hljóðs utan dagskrár um þetta mál. Allt frá því að fréttir bárust af því sumarið 1986 að bresk stjórnvöld hygðu á stórfellda stækkun kjarnorkuendurvinnslustöðvarinnar í Dounreay í Skotlandi og reisa þar stærstu plútoníumendurvinnslustöð í heimi hafa mótmæli verið kröftug. Það er engin tilviljun að fólk mótmæli því sem þarna er að gerast því að aðeins smávægilegt slys getur haft hrikalegar afleiðingar, ekki síst vegna endurvinnslu á plútoníum, en það er eitt allra hættulegasta geislavirka efnið. Alþingi samþykkti einnig ályktun þar sem mótmælt var stækkun stöðvarinnar.
    En það er víðar en hér sem menn hafa áhyggjur vegna endurvinnslu á kjarnorkuúrgangi. Þing Evrópubandalagsins hefur nýlega samþykkt ályktun um flutning á kjarnorkuúrgangi milli landa. Þar er bent á þá miklu hættu sem því er samfara að flytja geislavirkan úrgang á sjó, ekki síst vegna þess hve lélegir bátar eru notaðir til flutninganna. Þingið skoraði á framkvæmdastjórnina að stöðva alla flutninga milli landa. Það er ekki eingöngu verið að ræða um hversu hættuleg sjálf endurvinnslustöðin er, heldur miklu fremur hversu hættulegt er að flytja kjarnorkuúrganginn milli landa.
    Ég vek athygli á þessu hér til þess að undirstrika hve alvarlegar fréttirnar eru sem nú berast um að Svíar hyggist gera samning við Dounreay - stöðina um viðskipti sem að sögn forráðamanna stöðvarinnar er þeim mjög mikilvægur vegna þess að með honum öðlast Dounreay - stöðin fótfestu á nýjum markaði. Í ljósi þess hversu alvarlegar þessar fréttir eru fyrir okkur Íslendinga undraðist ég að ríkisstjórn landsins skyldi ekki hafa þegar í stað sent frá sér harðorð mótmæli til Svíþjóðar og ítrekað mótmælin til ríkisstjórnar Bretlands vegna Dounreay - stöðvarinnar.
    Ég skora því á hæstv. umhvrh. og utanrrh. og reyndar ríkisstjórnina alla að beita sér gegn þessum áformum með þeim hætti að eftir verði tekið. Við verðum að gera Svíum ljósa grein fyrir því að við sættum okkur ekki við að þeir taki þátt í því að styðja Dounreay - stöðina sem er svo mikil ógn fyrir okkur Íslendinga.