Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherrum fyrir þátttöku í umræðunni. Því miður get ég ekki lýst yfir sérstakri ánægju með þau viðbrögð og þær undirtektir sem þetta mál fékk af þeirra hálfu, þ.e. mér finnst að menn geri sér ekki nægjanlega ljósa alvöru málsins. Þessa fannst mér alveg sérstaklega gæta í máli hæstv. umhvrh. sem fór að nefna byggðamál í þessu sambandi, sem er röksemd breskra stjórnvalda fyrir þessu, og að við hefðum einkum áhyggjur af hellinum sem hugmyndir og áform eru um að koma fyrir við ströndina hjá Dounreay til geymslu á geislavirkum úrgangi. Í rauninni er hann með þessu að gera lítið úr hinni hættunni, þ.e. vegna endurvinnslunnar og þess samnings sem þarna er í undirbúningi. Yfirvöld Dounreay - stöðvarinnar hafa í hyggju að reyna að ná samningum við 50 aðila á næstunni um slíka endurvinnslu á geislavirkum úrgangi. Og flutningurinn á þessum úrgangi til og frá Dounreay - stöðinni er, eins og fram kom í máli hv. 6. þm. Reykv., m.a. það sem hættu veldur í þessu sambandi. Hversu mikilli? Við skulum hafa í huga að bandarísk stjórnvöld tóku fyrir flutninga á slíkum úrgangi til Dounreay - stöðvarinnar 1988 af öryggisástæðum, vegna öryggiskrafna. En nú á að halda þessu áfram með því að flytja efnið til Dounreay frá Evrópulöndum í vaxandi mæli og reyndar víðar að.
    Ég tel að íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin, eigi nú að grípa til harðari aðgerða vegna þessa máls en gert hefur verið fram að þessu. Ég met það sem gert hefur verið en það er ekki nóg. Og þegar þetta er komið inn á norrænan vettvang, eins og hér gerist, og það er ekkert betra fyrir það, hvorki vegna kjarnorkumálastefnu Svía eða vegna þess að þeir þurfi að skapa atvinnu í Dounreay í Skotlandi. Það eru alvörumál þegar Norðurlönd eru orðin þátttakendur í slíkri ósvinnu, að koma fyrir og flytja til endurvinnslu og geymslu í Skotlandi úrgang frá sínum tilraunastöðvum.
    Ég geri kröfu til þess að hinn íslenski samstarfsráðherra Norðurlanda hér, sem er umhvrh., láti einnig að sér kveða sem slíkur, sem samstarfsráðherra Norðurlanda, og segi að slíkur fleinn inn í norræna samvinnu verði ekki þolaður. Við þolum það ekki að þannig sé ógnað grundvallarhagsmunum okkar með því að stofna til hættu af geislamengun vegna þessarar endurvinnslu hér suður af, þ.e. í Skotlandi.