Endurvinnslustöðin í Dounreay
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þetta mál er af þeirri stærð og það alvarlegt að við megum ekkert við okkur spara að koma í veg fyrir þá þróun sem þarna er í gangi.
    Bresk stjórnvöld hafa ætlað að hætta opinberum stuðningi við endurvinnslustöðina í Dounreay frá 1997 að telja. Stöðin er nú að koma upp markaðssamböndum sem víðast til þess að halda uppi aukinni starfsemi og talað er um að skapa allt að 1000 störf þarna á komandi áratug. Það er því sannarlega ekki minnkun á umsvifum sem þarna er um að ræða heldur veruleg aukning fram undan.
    Það er við þessum aðstæðum sem okkur Íslendingum ber að bregðast. Við getum ekki sætt okkur við að þarna verði rekin endurvinnslustöð fyrir úrgang frá kjarnorkuverum né heldur að þarna verði sett upp geymsla fyrir slíkan úrgang. Hvort tveggja er ósamrýmanlegt íslenskum hagsmunum og hagsmunum fiskveiðiþjóða við norðanvert Atlantshaf. Næstu nágrannar Skota, fólkið á Shetlandseyjum, hafa verið í fararbroddi við að berjast gegn þessari óhæfu sem þarna er rétt við bæjardyrnar hjá þeim. En við Íslendingar eigum að taka á í þessu máli og mér fannst ekki vera nógu mikill baráttuhugur í hæstv. ráðherrum og það var þess vegna sem orð mín féllu á þá leið sem þau voru hér áðan. Ég bið þá um að taka betur á í þessu máli en gert hefur verið til þessa því að á því er rík þörf.