Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Afgreiðsla fjárlaga er jafnan eitt meginviðfangsefni hvers Alþingis enda geta fjárlög skipt sköpum um árangur í efnahagsstjórnun. Fyrr á árum voru miklu fleiri viðfangsefni á valdsviði Alþingis en nú. Ég man t.d. þá tíð þegar gengi íslensku krónunnar var ekki breytt nema með lögum frá Alþingi. Núna heyrir það sögunni til að formlegar breytingar á skráningu á verðgildi íslensku krónunnar verði ekki nema með lagasetningu frá Alþingi enda hafa þau sjónarmið öðlast almenna viðurkenningu að skráning gengisins hljóti að ráðast af aðstæðum í utanríkisviðskiptum hverju sinni og stöðu þjóðarbúsins. Með því að afsala sér því valdi, ef vald skyldi kalla, að ákveða skráningu á gengi krónunnar var Alþingi í rauninni ekki að afsala sér neinu, því það er ekki og hefur aldrei verið og getur ekki verið á verksviði löggjafarvaldsins að ráða, nema þá með óbeinum hætti, gengi gjaldmiðilsins. Með sama hætti hafa menn smátt og smátt verið að öðlast meiri skilning á því á Íslandi, stjórnmálamenn jafnt sem aðrir, að ýmsum öðrum þáttum í þróun efnahagsmála verður ekki heldur ráðið með tilskipunum frá Alþingi. Og stöðugt dregur nú úr því að alþingismenn telji sig geta og eiga að stjórna rekstri þjóðfélagsins, atvinnugreina og jafnvel einstakra atvinnufyrirtækja úr ræðustóli hér á Alþingi.
    Mönnum er smátt og smátt að skiljast, þótt hægt gangi, að verkefni löggjafarvaldsins er að setja hinar almennu leikreglur og skapa aðstæður fyrir framfarir og framsókn í atvinnulífinu en alls ekki að eiga beina aðild að rekstri atvinnufyrirtækja með samþykktum og tilskipunum. Þeir sem voru þeirrar skoðunar horfast nú í augu við algjört skipbrot þess kerfis sem byggðist á slíkum tilskipunum, valdboðum og samþykktum pólitískra stjórnenda. Jafnvel þó enn vilji það brenna við, og þá ekkert síður hjá þeim stjórnmálamönnum sem kenna sig við hægri stefnu en vinstri, að þeir líti þannig á hlutverk sitt að það sé að hafa afskipti af rekstri atvinnufyrirtækja, m.a. með þeim hætti að stýra fé skattborgaranna á misvíxl, til þess að hafa með beinum hætti áhrif á afkomu tiltekinna fyrirtækja í einstaklingseigu, þá fer að minnsta kosti þeim þó fjölgandi sem í orði kveðnu játa skilning sinn á því að þetta sé ekki og eigi ekki að vera hlutverk alþingismanna.
    Á sama tíma og slíkum viðfangsefnum á Alþingi hefur fækkað, svo sem þeim að skipa með lögum hvernig skrá skuli gengið, hefur mönnum jafnframt orðið ljósara hversu miklu máli fjárlagagerðin skiptir um framvindu efnahagsmála. Með lagasetningu frá Alþingi, t.d. með því að auka frelsi með gjaldeyrisviðskipti og í viðskiptum við erlendar þjóðir, með samræmingu og einföldun á skattkerfi, með því að breyta skattkerfinu á Íslandi í átt til þess sem viðgengst í helstu viðskiptalöndum okkar, með því að breyta lögum um viðskiptabanka til að greiða fyrir því að öflugir einkabankar geti risið og samkeppni geti orðið í bankaviðskiptum o.s.frv., eru Alþingi og ríkisstjórn að breyta þeim ramma sem lögin setja atvinnulífinu,

breyta honum í þá átt að opna nýjar leiðir og nýja möguleika til hagvaxtar og framfara. Þessum breytingum í frjálsræðisátt þurfa einnig að fylgja breytingar á þeim starfsháttum sem viðgangast á Alþingi þegar fjallað er um efnahagsmál og afgreiðslur tengdar þeim. Það þjónar til dæmis engum tilgangi lengur, eftir að búið er að auka frjálsræði í fjármagnsviðskiptum, að vera hér að afgreiða lánsfjáráætlun og lánsfjárlög þar sem í orði kveðnu er verið að leggja línurnar um heimildir til lántöku, ekki aðeins fyrir ríkið og stofnanir þess heldur einnig fyrir aðra aðila. Með frjálsum gjaldeyrisviðskiptum er þetta út í hött og hrein tímaskekkja. Slík lánsfjárlagaafgreiðsla á að hverfa. Ríkið á að sjálfsögðu að halda áfram að gera áætlanir og afla heimilda Alþingis fyrir sínum eigin lántökum. Í landi frjálsræðis í gjaldeyrisviðskiptum er það hins vegar málefni fyrirtækjanna og sveitarfélaganna hvar þau afla sér lánsfjár og það ræðst auðvitað annars vegar af þörfum fyrirtækjanna og hins vegar af því hvort lánveitandinn, innlendur eða erlendur, metur stöðu fyrirtækjanna svo að það sé hagfellt að lána þeim fé.
    Með sama hætti er það út í hött að ríkissjóður ábyrgist lántökur sveitarfélaga og sjálfstæðra ríkisstofnana og enn fráleitara er að ríkissjóður sé að ábyrgjast óbeint lántökur atvinnufyrirtækja og atvinnulífsins í landinu með því að veita fjárfestingarlánasjóðum ríkisábyrgð fyrir lántökum þeirra sem þeir svo framlána atvinnufyrirtækjum í einkaeigu. Þessir starfshættir eiga að leggjast af og er það löngu orðið tímabært. Viðbáran hjá þeim sem vilja hafa þetta svona er hins vegar sú að slíkt afnám ríkisábyrgða mundi ef til vill verða til þess að lánin yrðu dýrari og þá fyrst og fremst fyrir þá sem ekki eru ríkir af lánstrausti. Svarið við þeirri viðbáru er að sjálfsögðu mjög einfalt. Það getur ekki verið og á ekki að vera hlutverk skattborgarans að greiða niður lán fyrir einstaklinga og samtök þeirra. Ef menn eru á annað borð fylgjandi auknu frjálsræði og auknum markaðsbúskap, og þá í samskiptum lántakenda og lánveitenda eins og annarra, þá hljóta menn auðvitað að gera sér grein fyrir því að lánveitendur verða að hafa frelsi til þess að meta áhættu í lánveitingum sínum og þá um leið standa lántakendur misjafnt að vígi eftir því hvernig högum þeirra er háttað. Og hvað er eðlilegra en að málum sé þannig skipað?
    Það er sem sé tvímælalaust mín skoðun að eftir þær breytingar, m.a. þær miklu breytingar sem núverandi ríkisstjórn hefur gert til að auka samkeppni á innlendum lánsfjármarkaði og frelsi Íslendinga til þess að leita fyrir sér á erlendum lánsfjármarkaði, þá eigi að afnema þá lánsfjáráætlunargerð og lánsfjárlagaafgreiðslu sem tíðkast hér á Alþingi og aflétta ábyrgð ríkissjóðs á öllum lánum sem tekin eru til þarfa annarra en ríkisins sjálfs.
    Þetta voru örfá orð um þann ramma sem Alþingi leggur og á að leggja og skiptir máli fyrir efnahagsframþróun í landinu með óbeinum hætti. Stjórnvöld geta hins vegar haft bein áhrif á framvindu efnahagsmála. Mikilvægasta tækið sem þau hafa alfarið í sínum höndum og hefur bein áhrif á framvindu efnahagsmála í landinu er fjárlagagerðin. Það er því ekki undarlegt að sagt sé að gerð fjárlaga sé meginviðfangsefni hvers þingis og hverrar ríkisstjórnar. Það er einnig rétt sem bent hefur verið á að því aðeins fær stefna ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum staðist að með afgreiðslu fjárlaga séu ríkisstjórnir hverju sinni að vinna með þeirri stefnu sem þær marka en ekki á móti henni. Þar er hins vegar auðveldara um að tala en í að komast, m.a. af þeirri ástæðu að ekki hafa verið gerðar þær breytingar á afgreiðsluháttum sem ég vék að hér áðan og enn fremur vegna þess að ríkisfjármálin eru mjög þung í vöfum, svo þung að á fjögurra ára kjörtímabili verður ekki komið í verk nema takmörkuðum breytingum.
    Á þeim fjórum árum sem nú eru senn liðin hafa þrjár ríkisstjórnir setið að völdum á Íslandi. Á þessum tíma hefur megináhersla verið lögð á uppstokkun á tekjuhlið fjárlaga. Þar hefur mjög mikið verk verið unnið. Allir stærstu tekjustofnar ríkisins hafa verið stokkaðir upp. Tolla - og aðflutningsgjaldakerfinu hefur verið gjörbreytt, staðgreiðsla tekjuskatta hefur verið tekin upp og tekjuskattskerfinu og kerfi eignarskatta einnig gjörbreytt. Og nú síðast leysti virðisaukaskattur söluskatt af hólmi. Ef menn líta á það sem gerst hefur í þessu efni og án þess að láta villa sér sýn þær stöðugu deilur um tittlingaskít sem Íslendingar eru alltaf uppteknir af þá verður því ekki á móti mælt að í endurskoðuninni á tekjuöflunarkerfi ríkisins hefur verið unnið stórvirki. Við höfum á þessum fjórum árum aðlagað tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs að tekjuöflunarkerfi grannlandanna. Og þó auðvitað megi alltaf eitthvað að öllu finna og Íslendingar séu yfirleitt fundvísari á aðfinnsluatriði en hina jákvæðu þætti, einkum þó og sér í lagi ef aðfinnslurnar eru um aukaatriðin, þá er það mín skoðun að bæði tekjuskattskerfið og virðisaukaskattskerfið sem við höfum sé á margan hátt einfaldara og betra en nágrannaþjóðirnar geta státað af. Er ástæða til að vara við því að menn séu í fljótræði að gera breytingar á þessum nýju skattkerfum og þá síst ef ástæða breytingarinnar er sú ein að menn séu að kvarta yfir að hlutirnir séu ekki eins og þeir voru áður en skattkerfisbreytingarnar voru samþykktar. Tilhneiging hefur t.d. verið til þess hér á Alþingi að skjóta göt á virðisaukaskattskerfið með þeim einu rökum að virðisaukaskattur hafi lagst á vöru eða þjónustu sem söluskattur var ekki lagður á áður. Er það nú orðið undarlegt ef menn telja rétt og nauðsynlegt að gera breytingar en svo ómögulegt annað en að breyta til baka öllu því sem slíkar breytingar koma fram á. Ef menn halda áfram á þessari braut enda þeir með að standa uppi með gamla söluskattskerfið á ný, sundurskotið af undanþágum og undanskotsmöguleikum frá skattheimtunni. Og til hvers var þá af stað farið?
    Virðulegi forseti. Hlutlaus aðili sem ætti að dæma hér um og ekki léti drekkja sér í eilífu karpi Íslendinga um aukaatriði mundi án efa fella þann dóm að á sl. fjórum árum hafi mikið verið gert í endurskoðun og uppstokkun á tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Sá sami

aðili kæmist ugglaust einnig að þeirri niðurstöðu að það sé næstum með ólíkindum hversu vel hinar tiltölulega fáliðuðu stofnanir skattkerfisins hafa staðið sig í því að framfylgja svo miklum og flóknum breytingum á skattakerfinu á svo stuttum tíma. Það hefur verið vel gert og ástæðulaust annað en að viðurkenna það og virða.
    Ekki síður mikilvægt viðfangsefni bíður næstu fjögurra ára, en það viðfangsefni er að stokka upp með sama hætti gjaldahlið fjárlaga. Sú uppstokkun þarf að verða því hún er forsenda þess að ríkisstjórn geti náð þeim árangri að beita fjárlagagerðinni í þágu þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin, hver svo sem hún er, markar í efnahagsmálum í stað þess að geta í besta falli gert sér von til þess að fjárlagagerðin standi ekki í veginum. Menn tala gjarnan mikið um nauðsyn þess að skera niður og spara í ríkisrekstrinum og sjá miklum ofsjónum yfir stöðugri þenslu ríkisbáknsins, stöðugri fjölgun ríkisstarfsmanna og stöðugum vexti ríkisútgjalda. En þetta er engin tilviljun. Alþingi sjálft afgreiðir á hverju ári fjöldann allan af lögum sem kalla á viðbótargreiðslur úr ríkissjóði, oft með sjálfvirkum hætti sem enginn getur ráðið við á síðari stigum, jafnvel þó hann gjarnan vildi. Menn hafa sjóði eins og Framkvæmdasjóð aldraðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra til að byggja stofnanir, vistheimili og dvalarheimili, kaupa eða byggja sambýli o.s.frv. Og þrátt fyrir að þessir sjóðir séu talsvert öflugir tekst þeim aldrei að uppfylla nema brot af þeirri þörf sem þingmenn sjálfir kunngjöra hér á Alþingi, en engin bygging verður byggð, engin stofnun stofnuð og ekkert heimili reist á vegum hins opinbera öðruvísi en það kalli á fleira starfsfólk og meiri rekstur. Reksturskostnaðurinn og launakostnaðurinn eru oft margfaldir á við þann kostnað að reisa þá byggingu sem reksturinn hýsir.
    Með sama hætti afgreiðir Alþingi lög þar sem boðið er upp á nýja þjónustu eða aukna þjónustu. Full kennsla sex ára barna var tekin upp í haust samkvæmt ákvörðun Alþingis. Samið hefur verið um lengingu fæðingarorlofs, ákveðið hefur verið að auka hjartaaðgerðir og rætt er um að taka upp glasafrjógvun. Í farvatninu eru lög um listaháskóla og mikill þrýstingur er á stjórnvöld um rekstur og kaup á björgunarþyrlu. Halda menn að þetta kosti engan neitt? Vandkvæðin eru hins vegar þau að þeir sem biðja um þessa auknu þjónustu og kalla eftir þessum auknu framkvæmdum eru ekki reiðubúnir að borga neitt fyrir það.
     Mér er það minnisstætt þegar olíuverð hækkaði á alþjóðamarkaði vegna atburðanna við Persaflóa. Þá komu fram á ritvöllinn ýmsir menn, m.a. frammámenn í íslensku félagslífi, sem sögðu að auðvitað ætti almenningur á Íslandi ekki að líða fyrir það þó olía hækkaði í verði á heimsmarkaði, ríkissjóður ætti að sjá til þess. Í augum allt of margra er ríkissjóður einhver útlendingur sem ekkert kemur þeim við. Hans hlutverk er hvort eð er ekki annað en að greiða fyrir þær þarfir sem fólkið hefur og sjá til þess að ef olía hækkar á heimsmarkaði þá sé það mál óviðkomandi fólkinu í landinu. Það er mikil þjóðarsátt hjá Íslendingum um þessa afstöðu.
    Það er oft sagt þegar slík ný og brýn verkefni eru til umræðu og spurt er hvernig greiða skuli kostnaðinn við þau að það hljóti að vera hægt að finna fé til þess, annaðhvort með því að færa það til frá öðrum viðfangsefnum eða með því að spara. Sparnaðarviðleitnin er svo sem góð og gild en sú þróun hefur orðið í ríkisfjármálunum á umliðnum árum að bundin útgjöld, og þá á ég við óhjákvæmilegar greiðslur svo sem vegna launakostnaðar, vegna óhjákvæmilegra rekstrarútgjalda ríkisins og vegna tilfærslna og vaxtagreiðslna, hafa sífellt verið að vaxa sem hundraðshluti af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Eins og nú standa sakir eru rekstrarútgjöld um 40% af heildarríkisútgjöldunum. Þar af er rekstrarkostnaður vegna menntakerfis, heilsugæslu og sjúkrahúsa hvorki meira né minna en 3 / 4 hlutar. Umtalsverður sparnaður í rekstri skóla, heilsugæslu og sjúkrahúsa verður ekki nema með því að dregið sé úr þeirri þjónustu. Svo einfalt er það. Ef menn eru ekki reiðubúnir til þess annaðhvort að draga úr þjónustu í skólakerfi, heilsugæslu eða á sjúkrahúsunum ellegar þá að láta þá sem þjónustunnar njóta borga eitthvað fyrir hana þá ná menn engum umtalsverðum árangri í sparnaði í rekstri sem er 40% ríkisútgjaldanna.
    Svokallaðar tilfærslur eru önnur 40% ríkisútgjalda. Meginútgjaldaliðir svokallaðra tilfærslna eru bætur almannatrygginga, niðurgreiðslur á landbúnaðarvöruverði og útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörur. Ef menn ætla að spara einhverjar umtalsverðar fjárhæðir í tilfærsluliðum þá verða menn annaðhvort að breyta tryggingakerfinu í þá átt að það greiði ekki fjárhæðir til þeirra sem ekki þurfa á slíkum greiðslum að halda, og virðist ekki auðhlaupið að því að gera slíkar breytingar, eða þá að menn verða að draga úr niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum og greiðslu útflutningsuppbóta. Sé dregið úr niðurgreiðslum hækka landbúnaðarvörur að sjálfsögðu í verði. Eina ráðið til að komast hjá þeirri verðhækkun er að heimila innflutning á samkeppnisvörum sem mundu þá halda verðinu niðri, en í nýlegri skoðanakönnun kemur fram að svo virðist sem 2 / 3 hlutar þjóðarinnar séu á móti því. Ef menn vilja ekki gera breytingar á tryggingabótagreiðslum og ekki draga úr niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum þá spara menn ekki á tilfærsluliðunum sem eru 40% af ríkisútgjöldunum og eru menn þá búnir að afskrifa umtalsverða sparnaðarmöguleika í 80% heildarríkisútgjaldanna.
    Vaxtagreiðslur nema 9% heildarútgjalda ríkisins. Það er undarlegt að mönnum, sem tala um nauðsyn þess að vöxtum sé stjórnað með handafli héðan af Alþingi Íslendinga, skuli aldrei hafa dottið í hug að þjóðin setji bara einfaldlega lög á erlendar lánastofnanir sem lánað hafa ríkinu og stofnunum þess. Nú hafa menn forðast að gera það og þá er ekki um annað að ræða en að greiða vexti af þegar teknum lánum. Ekki geta menn við það ráðið. Þá eru þau 9% ríkisútgjaldanna afskrifuð.
    Þá er viðhald á fasteignum í eigu ríkisins en það

er um 2% af ríkisútgjöldum. Ekki er það há hundraðstala. Hvernig er ástandið þar? Við skulum aðeins líta á örfáar byggingar í kringum okkur. Menn þekkja ástand Þjóðminjasafnsins, Þjóðleikhúsið er gjarnan í umræðum hér á Alþingi, Bessastaðir, Landspítali. Stjórn endurbótasjóðs menningarstofnana áætlar að viðhaldskostnaður fjögurra menningarbygginga á Íslandi sé milli þrír og fjórir milljarðar í heild. Úttekt sú sem gerð var á mannvirkjum heilsugæslu og sjúkrahúsa á Austurlandi í sumar á vegum heilbrrn. leiddi í ljós viðhaldsþörf samtals upp á 147 millj. kr. Ætli það séu ekki samtals um það bil 14 millj. kr. til þess að sinna því viðhaldi á þeim liðum. Landspítalinn er stærsta sjúkrahús landsmanna. Að mati stjórnenda spítalans er þörf fjárveitinga einungis til viðhalds á þeim lækningatækjum sem spítalinn þegar á 247 millj. kr. á næsta ári. Í fjárlagafrv. eru nokkrar millj. kr. ætlaðar til þess verks.
    Okkur Íslendingum hefur látið betur að byggja ný mannvirki en að halda þeim við sem við höfum reist. Ástandið á opinberum byggingum er víða orðið þannig að til hreinnar vansæmdar horfir. Þessi útgjaldaliður, Viðhald, hefur verið skorinn niður á undanförnum árum uns svo er komið sem ég nú hef lýst. Og þá standa aðeins eftir 9% af heildarútgjöldum ríkissjóðs, þ.e. fjárfestingarliðirnir. Framkvæmdir í höfnum, vegum, sjúkrahúsum, skólum og á öllum öðrum sviðum sem ríkisvaldið sinnir. Þetta viðfangsefni hefur stöðugt farið lækkandi sem hundraðshluti af ríkisútgjöldum. Ástæðan er einfaldlega sú að af því menn hafa kinokað sér við að takast á við hin dýru viðfangsefni í rekstri annars vegar og tilfærslum hins vegar hefur öll viðleitni til sparnaðar og niðurskurðar í ríkisrekstrinum komið fram á þeim einu liðum sem hægt er með sæmilegu móti að hafa áhrif á frá ári til árs, en það eru viðhald og fjárfesting.
    Ég skal aðeins nefna nokkur dæmi um þá þróun sem orðið hefur í þessum efnum. Ef við tökum opinbera fjárfestingu, þ.e. fjárfestingu ríkisstofnana og sveitarfélaga, var hún á yfirstandandi ári 33% hærri en 1986. Á sama tíma hafði opinber fjárfesting hjá ríkinu einu aðeins aukist um 2,7%.
Heildarfjárfesting hins opinbera er metin 22,3 milljarðar á yfirstandandi ári. Þar af er fjárfesting ríkisins komin niður í 9,7 milljarða og er þá allt saman talið. Vegna þess að menn hafa ekki farið í þá uppstokkun í útgjaldahlið ríkissjóðs sem nauðsynleg er, ef menn ætla að ná árangri í aðhaldi með ríkisútgjöldum, hefur neyðarkosturinn verið sá, ekki bara hjá núv. ríkisstjórn heldur einnig hjá fyrrv. ríkisstjórnum, að reyna að skerða fjárfestingu og viðhald. Er nú svo komið að ekki verður mikið meira þar gert.
    Af þessu má sjá að tímabært er að taka gjaldahlið frv. til jafn gaumgæfilegrar endurskoðunar og uppstokkunar eins og tekjuhliðin hefur verið tekin á liðnum fjórum árum og er það verkefni næstu ríkisstjórnar, hver svo sem hún verður. Og ég ítreka það að menn verða að gera sér það ljóst að árangur verður enginn í slíkri uppstokkun nema menn takist á við þau dýru viðfangsefni sem ég hef nefnt hér áðan, þ.e.

rekstur skóla, heilsugæslu og sjúkrahúsa annars vegar og greiðslu tryggingabóta, niðurgreiðslna og útflutningsuppbóta hins vegar. Þarna eru stóru fjárhæðirnar og ef menn eru ekki reiðubúnir til að takast á við breytingar á þessum vettvangi þá verða ríkisútgjöldin áfram illviðráðanleg, a.m.k. á meðan hvorki stjórnmálamenn né landsmenn virðast vera tilbúnir til þess að leggja í þær skatthækkanir sem menn verða þá að snúa sér að ef þeir ná engum árangri í uppstokkun útgjalda. Sú skattheimta sem menn eru að tala um til viðbótar, ef enginn umtalsverður niðurskurður næst í gjaldahliðinni, jafngildir um það bil þriðjungs hækkun á tekjuskatti einstaklinga og félaga eða hækkun á virðisaukaskatti úr 24,5% í 28,5 -- 29%. Þetta er stærðargráðan á því dæmi sem menn eru að fást við og þurfa að takast á við teknamegin í fjárlögum ef menn heykjast á því að takast á við þau með uppstokkun útgjalda. Það skiptir þá engu máli hvað sú ríkisstjórn heitir sem við völdin situr, þetta er einfaldlega viðfangsefni næstu ára.
    Þau orð sem ég hef hér sagt eiga ekki fremur við þá fjárlagagerð sem hér á sér stað en fjárlög almennt. Ég hef aðeins í þessum inngangsorðum viljað vekja athygli á nokkrum atriðum sem ástæða er til að víkja að og varðar ríkisfjármál en ekki fjárlagagerð ársins 1991 sérstaklega.
    Fjvn. Alþingis hefur unnið með hefðbundnum hætti að tillögugerð sinni fyrir 2. umr. að þessu sinni. Vinna nefndarinnar hófst í sumar þegar nefndin átti fundi, m.a. til þess að kynna sér skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga yfirstandandi árs og til að eiga viðræður við fjmrn. og aðra um ýmis viðfangsefni. Þau störf sem nefndin er kölluð til að vinna utan þingtímans færast stöðugt í vöxt. Bæði er að nefndin er kölluð saman með þeim hætti sem ég lýsti hér áðan til þess að fylgjast með framkvæmd fjárlaga og sinna einstökum viðfangsefnum og til viðræðna við fjmrn. og fjmrh. þegar draga tekur að því að fjárlög eru lögð fram á Alþingi. Eins er nefndin oft til kölluð vegna afgreiðslna sem þurfa að fara fram en eru háðar samþykki nefndarinnar. Má þar t.d. benda á viðfangsefni sem Alþingi afgreiðir á heimildagrein fjárlaga og setur skilyrði um samþykki fjvn. fyrir áður en afgreiðsla getur farið fram. Ljóðurinn við þessa starfsemi er hins vegar sá, að umboð fjvn. fellur niður við þinglausnir að vori og hefur nefndin því ekkert formlegt umboð til starfa fyrr en Alþingi hefur kosið nýja nefnd að hausti. Að vísu hefur svokölluð undirnefnd fjvn., sem skipuð er einum fulltrúa frá hverjum flokki sem sæti eiga í fjvn., umboð til að starfa milli þinga samkvæmt þingskapalögum. En sú undirnefnd hefur ekki umboð til að starfa sem fjárveitinganefnd væri og getur ekki tekið ákvarðanir í hennar nafni. Það hefur verið látið viðgangast að nefndarmenn í fjvn. sem missa umboð sitt við þinglausnir að vori starfi áfram sem fjárveitinganefnd væri og tækju ákvarðanir sem slíkir milli þinga um ýmis mál varðandi skilmála sem settir eru í 6. gr. sem Alþingi hefur vísað til umfjöllunar fjvn. Eftir því sem þessi starfsemi eykst verður hins vegar stöðugt fráleitara að gera ekki þá breytingu sem gera þarf til þess að fjvn. geti með eðlilegum hætti sinnt þeim störfum sem m.a. Alþingi felur henni við fjárlagaafgreiðslu. En til þess að svo megi vera þarf að breyta lögum um þingsköp þannig að fjvn. verði gerð að heilsársnefnd og hafi umboð til að starfa milli þinga með sama hætti og utanrmn. Fjárveitinganefndarmenn eru sammála um að þessa breytingu þurfi að gera. Og sama sinnis munu allflestir vera sem einhverju sinni hafa starfað í þessari nefnd. Ástæða er til að beina þeim óskum til forseta þingsins ellegar formanna þingflokka að þeir íhugi þetta samfara öðrum breytingum á þingsköpum sem ef til vill eru á döfinni. Kannski væri ástæða til að fjárveitinganefndarmenn flyttu slíkt frv. sjálfir. En þá er þess að geta að ekki þykir okkur hafa orðið góð reynsla af þeim málum sem fjárveitinganefndarmenn hafa reynt að flytja hér á Alþingi og ekki varða fjárlögin ein.
    Þá er einnig ástæða til að benda á að mikið af hefðbundnum starfstíma nefndarinnar fer í viðræður við ýmsa aðila sem óska eftir að ná fundi hennar út af ýmsum málum, bæði smáum og stórum. Þessi fundahöld hóf nefndin nú eins og jafnan áður nokkrum dögum áður en Alþingi kom saman og átti viðræður við sveitarstjórnir á tímabilinu 1. -- 6. okt. Á þeim dögum komu fulltrúar flestra sveitarstjórna á Íslandi til viðræðna við fjvn. Nefndin auglýsti svo eins og hún er vön að gera viðtalstíma þar sem þeim aðilum sem sjálfir óskuðu að bera upp erindi sín við hana var gefinn kostur á að ganga á fund hennar. Hvorki meira né minna en 179 slíkar óskir bárust og átti nefndin viðræður við 179 aðila sem óskuðu sjálfir eftir viðræðum við hana. Nefndin skipti sér í þrjá hópa í þessum viðræðum sem ella mundu hafa staðið á þriðja mánuð ef nefndarmenn hefðu ekki skipt liði.
    Þar fyrir utan koma svo þeir fundir sem nefndin hefur átt frumkvæði um að halda til að afla sér upplýsinga þar sem rætt hefur verið við hin einstöku ráðuneyti, ríkisstofnanir og aðra þá sem nefndin hefur þurft að leita til til að afla upplýsinga um viðfangsefni sín. Af þessu má sjá hvílíkur feikilegur tími fer orðið í það að sinna erindum og viðtalsbeiðnum til nefndarinnar. Munu þess sjálfsagt fá dæmi í veröldinni að allur almenningur eigi jafngreiðan aðgang að stjórnvöldum og þingnefndum eins og hér á Íslandi, því þau erindi sem nefndinni voru kynnt voru vissulega misstór og misþýðingarmikil þó öll séu þau að sjálfsögðu mikilsverð frá sjónarmiði þeirra sem til nefndarinnar leita. Svo mikill tími er hins vegar farinn að fara í þessar viðræður að það kemur óhjákvæmilega niður á öðrum starfstíma nefndarinnar sem hún þarf á að halda til að undirbúa afgreiðslur og sinna þeim, þannig að vinnudagurinn verður oft ansi langur. Ef fram heldur sem horfir er það raunar tímaspursmál hvenær fjvn. neyðist til þess að takmarka þessi viðtöl og er það miður, ekki endlega frá sjónarmiði hennar eða nefndarmanna, heldur fremur frá sjónarmiði þeirra aðila sem átt hafa og eiga enn greiðan aðgang að fjvn. Alþingis með erindi sín. Þessu væri að sjálfsögðu einnig hægt að svara með annaðhvort því að sú tillaga fjmrh. næði fram að ganga að Alþingi kæmi fyrr saman á hausti hverju en nú ellegar þá með því að fjvn. yrði sýndur sá trúnaður að fylgjast með á lokaundirbúningsstigi við afgreiðslu fjárlaga hjá ríkisstjórn þannig að upplýsingaöflun af nefndarinnar hálfu væri um garð gengin þegar frv. er lagt fram á Alþingi og undirbúningur sjálfra afgreiðslnanna gæti þá þegar hafist.
    Þá hefur fjvn. einnig í auknum mæli beitt sér fyrir því að eiga sjálf frumkvæði að því að einstök viðfangsefni séu skoðuð. Nefndin hefur átt ágæta samvinnu við Ríkisendurskoðun í því sambandi. Hér er um að ræða bæði einstakar framkvæmdir og stærri og minni mál. Hefur fjvn. leitað til ýmissa aðila í þjóðfélaginu með slíkar athuganir og hefur jafnan átt greiðan aðgang að opinberum stofnunum, sérstaklega þó fjmrn. og stofnunum þess. Hefur hún einnig mjög stuðst við Ríkisendurskoðun í þessu starfi eins og ég sagði áðan. Nefndin hefur m.a. látið skoða sérstaklega fyrir sig nú við þessa fjárlagagerð breytingar á skattbyrði milli ára. Hún bað um skoðun á málefni Þjóðleikhússins, þ.e. framkvæmdum við Þjóðleikhússbygginguna. Hún hefur leitað umsagna til ráðuneytanna um fjölmörg erindi. Meðal forvitnilegra mála sem nefndin hefur beðið um úttekt á er að hún hefur óskað eftir því að fá frá landbrn. og sauðfjárveikivörnum mat á áhrifum af riðuniðurskurði en heildarútgjöld niðurskurðar vegna riðuveiki nema nú 1697 millj. kr. Síðasti samningur var gerður haustið 1990 þar sem samið var um niðurskurð fjár á Austurlandi, en þeir samningar eru taldir hafa kostað 224,7 millj. kr. Hér er vissulega um mikið fé að ræða sem reitt hefur verið af höndum úr ríkissjóði til þess að vinna bug á stórfelldum vanda í landbúnaði þar sem riðuveikin er. Nefndin hefur beðið um álitsgerð landbrn. og sauðfjárveikivarna um hvernig til hafi tekist. Ég vil fyrir hönd nefndarinnar við þetta tækifæri þakka starfsmönnum ráðuneytanna og Ríkisendurskoðunar sem ljúflega hafa tekið við öllum erindum og fyrirspurnum fjvn. og afgreitt svör bæði fljótt og vel.
    Í þeim athugunum, sem nefndin hefur gert, kom m.a. í ljós að raunaukning launagjalda frá fjárlögum yfirstandandi árs til frv. 1991 nemur 1.252,5 millj. kr. Jafngildir það um 4% hækkun milli ára. Miðað við að meðalkostnaður við hvert starf nemi 1,3 millj. kr. jafngildir þessi hækkun því að 963 ný störf verði stofnuð hjá ríkinu á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. Svo er þó ekki heldur er skráð fjölgun starfsmanna á vegum ríkisins 565 stöðugildi og munurinn, um 400 stöðugildi, er vegna aldurshækkana, launaflokkatilfærslna og annarra breytinga sem mælast í auknum launakostnaði. Af þessum 565 störfum sem skráð hafa verið hjá ríkinu samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir árið 1991 til viðbótar þeim sem skráð voru í fjárlögum yfirstandandi árs eru 70 ný störf. Hitt eru störf sem skráð hafa verið m.a. fyrir áhrif breyttrar verkaskiptingar milli ríkis og sveitarfélaga, en komið hefur í ljós að í fjárlagagerð fyrir yfirstandandi ár var sá kostnaður verulega vanáætlaður og eins það mannahald sem ríkið varð á sig að taka vegna verkaskiptingarinnar.

Kemur þetta sérstaklega fram í heilsugæsluþjónustu en þar var talsvert um að störf sem ekki lágu fyrir upplýsingar um að mundu flytjast yfir til ríkisins skiluðu sér þangað. Ýmsir kostnaðarliðir, svo sem vegna sjúkraflutninga, komu og á óvart miðað við þær áætlanir sem áður höfðu verið gerðar. Kostnaðarauki ríkissjóðs af verkaskiptingunni umfram það sem áætlað var skiptir orðið hundruðum milljóna og væri full ástæða til að láta meta hver sá umframkostnaður, sem menn ekki reiknuðu með vegna verkaskiptingarinnar, er orðinn. Á móti telja sveitarfélögin sig einnig hafa orðið fyrir kostnaði umfram það sem þau áætluðu vegna verkaskiptingarinnar og er þá komin upp sú einkennilega staða að þessir tveir aðilar sem áttu þarna viðskipti saman telja sig báðir hafa tapað á viðskiptunum og var þó um verkaskipti eða næstum vöruskipti að ræða. Er það eina dæmið sem ég kann um að báðir aðilar geti tapað í hnífakaupum og væri lærdómsríkt ef menn skoðuðu þá niðurstöðu eitthvað betur.
    Ég vík þá að brtt. þeim sem fjvn. kynnir við 2. umr. Skal fyrst fram tekið að þótt nefndin flytji öll þessar tillögur þá áskilur minni hl. hennar sér að sjálfsögðu rétt til þess að hafa fyrirvara um einstakar afgreiðslur og hefur auk þess fyrirvara um brtt. sem fluttar kunna að verða. Fyrir hönd okkar í meiri hl. fjvn. vil ég færa minnihlutamönnum kærar þakkir fyrir samstarfið í vetur. Á því er enginn vafi að fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn. hverju sinni geta ráðið mjög miklu, jafnvel haft úrslitaáhrif á gang fjárlagaafgreiðslunnar. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa sýnt mikla lipurð, skilning og þolinmæði og lagt sig fram um að greiða fyrir afgreiðslu mála. Þeir hafa unnið með okkur meirihlutamönnum að undirbúningi allra afgreiðslna. Þeir hafa fengið sömu upplýsingar og við og í mörgum atriðum er um afgreiðslur að ræða sem báðir aðilar eru sáttir við. Þegar að stóru málunum kemur eru skoðanir hins vegar að sjálfsögðu skiptar, en þrátt fyrir þann ágreining hefur aldrei komið til þess að fulltrúar minni hlutans reyndu með einum eða öðrum hætti að torvelda eða tefja störf fjvn. heldur þvert á móti. Vil ég ítreka þakklæti mitt til þeirra fyrir ágætt samstarf, og mæli þar fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar, en sem formaður í þessari nefnd vil ég þakka mjög gott samstarf við alla nefndarmenn í fjvn. þau fjögur ár sem ég hef gegnt því starfi. Á þeim langa vinnudegi, sem er í nefndinni, kynnast menn gjarnan vel og sú viðkynning við fjárveitinganefndarmenn hefur verið mér afskaplega ánægjuleg og samstarfið hefur í alla staði verið gott. Ég vil einnig fyrir hönd nefndarinnar þakka starfsmanni okkar, Sigurði Rúnari Sigurjónssyni, fyrir frábært starf og einnig aðstoðarfólki hans úr Ríkisendurskoðun. Ég vil einnig fyrir hönd nefndarinnar þakka Sigurði Þórðarsyni vararíkisendurskoðanda, Magnúsi Péturssyni ráðuneytisstjóra og Halldóri Árnasyni og Þórhalli Arasyni þökkum við einnig mjög gott samstarf og öðrum starfsmönnum fjmrn. Einnig viljum við færa kærar þakkir starfsfólki Alþingis bæði hér í Alþingishúsinu en þó ekki síður fólkinu í Austurstræti 14 sem lagt hefur sig

fram um að greiða okkar götu í öllu.
    Ástæðulaust er að rekja hverja brtt. fyrir sig því að þær skýra sig flestar sjálfar í athugasemdum og skýringum sem fylgja nál. meiri hl. En þörf er á að staldra við nokkur atriði.
    Er þá fyrst rétt að staldra aðeins við tillögur er varða æðstu stjórn ríkisins, Alþingi. Mikil breyting til bóta hefur verið gerð á fjárlagatillögum og afgreiðslum varðandi rekstur Alþingis og viðfangsefna þess. Áður var svo að mikill munur var á fjárlagaáætlun og niðurstöðum en nú er það óðum að færast í rétt horf. Fjvn. fékk upplýsingar frá fjármálastjóra og forsetum Alþingis um stöðu mála við afgreiðslu fjáraukalaga. Jafnsnemma fékk nefndin athugasemdir Alþingis við áætlun fjárlagafrv. Er full ástæða til að beina því til fjmrn. og hæstv. fjmrh. að taka upp viðræður við forseta Alþingis og fjármálastjóra um eðlilegan grunnkostnað við rekstur þingsins svo sem launagjöld og rekstrarkostnað við hefðbundna starfsemi þannig að ekki þurfi að skeika í þeim efnum á áætlunum fjmrn. í fjárlagafrv. og rauntölum úr bókhaldi Alþingis. Viðfangsefni fjárlagagerðarinnar yrði þá að taka afstöðu til óska forseta Alþingis um breytingar á grunnrekstri og sérstök viðbótarverkefni, tímabundin eða langvarandi. Fjvn. hafði þá afstöðu nú að samþykkja tillögur forseta með sem minnstum breytingum. Meðal nýmæla má þar nefna að lögð er til eilítil hækkun vegna útgáfu afmælisrits um kristnitöku, en það verkefni var falið forsetum Alþingis til umsjár með samþykkt sérstakrar þáltill. á síðasta ári. Vissulega skal viðurkennt, að sú fjárhæð sem lögð er til til að sinna því verkefni á árinu 1991 er í allra tæpasta lagi en ástæðan fyrir því að fjvn. treysti sér ekki til að gera tillögu um hærri fjárveitingu er einfaldlega sú að alls staðar voru fjárveitingar af þessu tagi skornar eins naumt og vera mátti.
     Þá er ástæða til að staldra við viðfangsefnið Alþjóðastarf þingmanna. Þar er um nokkra hækkun að ræða sem má m.a. rekja til ráðstefnu sem haldin verður hér í Reykjavík á vori komanda. Kostnaðaráætlun hennar vegna eru 2,4 millj. kr. Að öðru leyti eru tillögur nefndarinnar um viðbótarútgjöld vegna alþjóðastarfs þingmanna byggðar á tillögum þingforseta sem endurskoðað hafa beiðnir þeirra nefnda þingsins sem þátt taka í alþjóðlegu samstarfi. Fjvn. leggur til að samþykkt verði tillaga forseta óbreytt en leggur jafnframt áherslu á að forsetar, sem eru ábyrgir fyrir fjármálastjórn Alþingis, gangi ríkt eftir því að nefndir þær, sem taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi á vegum Alþingis, haldi sér við þær áætlanir sem hér eru gerðar. Þá fellst fjvn. á að gera að sinni tillögu tillögu forseta um átak til viðgerða á Jónshúsi með breytingum á veitingasal.
    Þá er komið að Ríkisendurskoðun. Tillögur nefndarinnar er hana varða eru skýrðar. Er þar aðeins ástæða til að minna á að í tillögum fjvn. er gert ráð fyrir að til sérstakra verkefna hjá Ríkisendurskoðun verði varið 3 millj. kr. Þessi fjárveiting er ætluð til að greiða kostnaðinn af viðfangsefnum umfram hefðbundna starfsemi sem Ríkisendurskoðun tekur að sér

vegna tilmæla forseta Alþingis eða annarra, en það hefur færst mjög í vöxt að Ríkisendurskoðun hafi verið beðin um sérstakar úttektir af Alþingi, fjvn. og öðrum aðilum. Þau viðfangsefni koma sem viðbótarviðfangsefni hjá Ríkisendurskoðun og sum þeirra eru mjög kostnaðarsöm. Eðlilegt er því að við fjárlagagerð sé gert ráð fyrir því að sérstök fjárveiting gangi til Ríkisendurskoðunar til að kosta slík viðfangsefni.
    Komum við þá að menntmrn. Er þar ástæða til að fara nokkrum orðum um tillögur þær sem gerðar eru varðandi málefni Háskóla Íslands. Samkomulag hefur verið gert við stjórnendur Háskólans um að Háskólinn öðlist meira sjálfræði en verið hefur um fjármál sín, m.a. hvernig hann notar þá fjármuni sem Alþingi veitir til skólans á fjárlögum. Verður það þá viðfangsefni háskólaráðs að deila fjárveitingum niður, hvort heldur um er að ræða viðbótarstöðuheimildir eða aukin rekstrarútgjöld. Er þá aflagður sá siður að Alþingi sé í fjárlögum að ákveða í hvaða stöður á vegum Háskólans sé verið að ráða við nýjar mannaráðningar. Alþingi tekur aðeins ákvörðun um hversu margar nýjar stöður verði heimilaðar og um útgjöld þeirra vegna en Háskólinn sjálfur ræður hvernig stöðunum er skipt. Í tillögum fjvn. er þannig gert ráð fyrir því að stofnaðar verði sex nýjar lektorsstöður,
án þess að nefndin leggi til að Alþingi ákveði hverjar þær stöður skuli vera. Þá hefur einnig orðið mikil fjölgun á nemendum í Háskólanum umfram það sem gert var ráð fyrir þegar tillögur í frv. til fjárlaga voru lagðar fram. Nemendur sem innrituðu sig í Háskólann í haust voru talsvert á fimmta hundrað fleiri en fjárlagaáætlun hafði gert ráð fyrir. Kallar það að sjálfsögðu á aukin rekstrarútgjöld og kennslukostnað því þessi fjöldi er álíka og nemendafjöldi í meðalstórum framhaldsskóla. Fjvn. leggur til að hækkun til stundakennslu verði afgreidd, að fjárhæð 10 millj. kr., en er það engu að síður ljóst að sú hækkun er í allra tæpasta lagi þó ekki sé miðað við annað en þann viðbótarfjölda nemenda sem bæst hefur á skrá hjá Háskóla Íslands. Hjá Raunvísindastofnun Háskólans er lagt til að stofnuð verði ein ný staða. Er það vegna sérfræðilegrar athugunar á hættu vegna eldvirkni. Er það nýtt viðfangsefni sem rík ástæða er til að sinnt verði í landi jarðeldastöðva.
    Um tillögur nefndarinnar hvað varðar almenna framhaldsskóla er það að segja að lagt er til að framlög hækki um 41 millj. kr. Enn er hér mjög smátt skammtað þannig að erfitt mun reynast að fá það fé til að duga sem veitt er til einstakra viðfangsefna í sambandi við framkvæmdir við framhaldsskóla. Í sumum tilvikum verður til að mynda ekki hægt að gera upp skuldir við sveitarfélög sem lagt hafa fram fé til framkvæmda við skólana og í öðrum tilvikum verður tæplega hægt að standa við þegar gerða verksamninga. Þá er ekki lagt í neinar nýjar framkvæmdir og sums staðar er fjárveiting það lág að hætta er á að ekki sé hægt að ráðast í þau viðfangsefni sem fjárveitingin er þó ætluð í.
    Fjvn. er ljóst að þetta er tæplega viðunandi afgreiðsla en staðreyndin er einfaldlega sú að í fjárlagafrv. sem lagt var fyrir Alþingi hrökkva tekjur ekki fyrir útgjöldum og því er nefndin í raun að ráðstafa fé sem ekki er til og afla verður með láni. Er eðlilegt að menn sýni ýtrustu aðgæslu við þær aðstæður. Sést það meðal annars glöggt á því að ef litið er yfir tillögulista fjvn. eru flestar fjárhæðir sem þar eru tilgreindar lægri en 3 millj. kr. Eru það aðeins örfáir liðir þar sem um umtalsverðar hækkanir er að ræða og þá er það vegna þess að slíkt varð ekki umflúið að áliti nefndarinnar.
    Þá komum við að tillögum er varða framhaldsskóla almennt. Þau vandkvæði hafa komið upp við rekstur héraðsskóla, sem a.m.k. sumum stjórnendum héraðsskóla og aðstandendum þeirra var ekki ljóst fyrir fram, að við breytingu á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga fellur niður greiðsluhlutdeild ríkissjóðs við rekstur mötuneyta og gæslu heimavista í þessum skólum. Sveitarfélögin hafa yfirtekið þennan kostnað í stað ríkisins. Þannig háttar hins vegar til um héraðsskólana að þeir eru staðsettir í dreifbýlinu og mjög fámenn byggðarlög sem að þeim standa. Nemendur héraðsskólanna eru ekki nema að litlu leyti frá þeim byggðarlögum sem aðild eiga að skólarekstrinum. Flestir nemendur héraðsskólanna koma annars staðar frá. Þau byggðarlög sem standa að héraðsskólunum eru svo fámenn og lítils megandi að þau geta ekki greitt kostnaðinn, hvorki mötuneytiskostnað, þ.e. laun starfsfólks í mötuneytum sem áður voru greidd af ríkinu, né heldur kostnað við gæslu í heimavist. Í sumum tilvikum hefur verið brugðið á það ráð að krefja nemendur skólanna um þessar greiðslur og láta þá svo innheimta greiðslurnar hjá sveitarfélögunum þar sem þeir eru búsettir. Í öðrum tilvikum hafa fólkinu sem sér um gæslu heimavista og rekstur mötuneyta einfaldlega ekki verið greidd laun. Hvorug þessi afgreiðsla er til frambúðar. Nemendur á þessum aldri hafa ekki þau fjárráð að þeir geti reitt fram þann kostnað sem hér um ræðir úr eigin vasa og auk þess er ekki víst hvaða móttökur þeir fá í sveitarfélögum sínum er þeir framvísa reikningum. Að sjálfsögðu er ekki viðunandi að starfsfólk við skólana fái ekki laun sín eins og aðrir starfsmenn.
    Menntmrn. hefur haft þetta mál til umfjöllunar. Niðurstaða þess er sú að það hefur lagt til við fjvn. að hún leggi fyrir Alþingi að ríkisvaldið taki að sér að greiða kostnað vegna heimavistargæslu í héraðsskólum að fjárhæð 7,5 millj. kr. Er sú tillaga flutt hér. Menntmrn. á nú í viðræðum við stjórn Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um að sjóðurinn taki að sér, a.m.k. til bráðabirgða, að greiða laun starfsfólks í mötuneytum héraðsskólanna og innheimti síðan ef vill þann kostnað hjá þeim sveitarfélögum sem eiga nemendur í þessum skólum.
    Örfá orð um tillögur er varða Námsgagnastofnun. Nú í haust hófst samkvæmt ákvörðun Alþingis fullt skyldunám sex ára nemenda. Námsgagnastofnun hafði að vísu undirbúið þá breytingu með nokkurri útgáfu á námsefni en ljóst er að námsefnið fyrir sex ára nemendur var hvergi nærri nægjanlegt miðað við þá breytingu sem gerð var í haust. Af þessum og öðrum

orsökum sótti Námsgagnastofnun um hækkun á framlögum til námsefnisgerðar um 25 millj. kr. Fjvn. leggur til að framlagið verði hækkað um 3 millj. kr. og er sú tillaga hér flutt.
    Þá er rétt að geta aðeins með nokkrum orðum tillögu er varðar Stýrimannaskólann í Reykjavík. Þar er gerð tillaga um að kennslukostnaður verði hækkaður um 1 millj. kr. og eins og segir í skýringum er hækkunin kostnaður vegna nýrrar skipunar í námi. Kennsla í skipstjórnar - og vélstjórnarfræðum hefur tekið miklum framförum og breytingum, m.a. með tilkomu nýrra tækja. Keyptur var á yfirstandandi ári siglingahermir sem settur var upp í skólahúsinu og erindi liggur fyrir fjvn. um kaup fiskveiðihermis á árinu 1991. Er það erindi stutt af samtökum sjómanna og útvegsmanna. Öllum þessum nýju tækjum fylgir nýskipan á námi og hefur Stýrimannaskólinn í Reykjavík óskað eftir því að fá að framfylgja tillögum um nýskipan í námi sem sérstök nefnd hefur lagt til. Gert er ráð fyrir því í þessari tillögu fjvn. að hafist verði handa við þá endurskipulagningu á hausti komanda og gerð er tillaga um 1 millj. kr. fjárveitingu sérstaklega til þeirra hluta.
    Ástæða er til að fara nokkrum orðum um vandamál Iðnskólans í Reykjavík en það er stærsti tækniskóli á Íslandi og raunar eini iðnfræðsluskólinn á landinu sem stendur undir nafni. Skólinn býr hins vegar við mjög erfiðan húsakost og er í brýnni þörf bæði fyrir aukið húsrými og ekki síður fyrir endurnýjun á tækjum, en tæki Iðnskólans í Reykjavík eru mörg orðin mjög gömul og úr sér gengin og ekki í neinu samræmi við þá tækni sem nú er unnið eftir úti í atvinnulífinu. Nauðsynlegt er að sinna málefnum skólans betur en gert hefur verið, m.a. með framtíðarhúsnæðisöflun fyrir augum og ákvörðun verður að fara að taka um framtíðarstefnumótun í málefnum skólans. Fjvn. gerir ekki tillögu um slíkt að svo stöddu en leggur hér til að fjárveiting vegna tækja - og búnaðarkaupa verði veitt að upphæð 10 millj. kr.
    Næst er ástæða til að víkja örfáum orðum aftur að héraðsskólunum. Aðsókn er nokkuð misjöfn að þessum skólum, sums staðar góð en annars staðar lakari. Mikið hefur verið rætt um stöðu héraðsskóla í íslenska skólakerfinu en endanleg afstaða hefur ekki verið tekin til þeirra. Allir skólarnir eru í mikilli þörf fyrir endurbætur á húsakosti, endurnýjun og viðgerðir. Er ástandið sums staðar orðið mjög slæmt. Fjvn. treystir sér engu að síður ekki til þess að gera tillögu um hækkun á framkvæmdaframlagi til héraðsskólanna en lætur við það sitja að gera tillögur um skiptingu á fjárlagaliðnum eins og hann var lagður fram í fjárlagafrv.
    Um Skálholtsskóla er það að segja að hér er um að ræða eina lýðháskólann á Íslandi. Slík starfsemi hefur ekki farið fram í skólanum vegna þess að lýðháskólanám, a.m.k. hér á landi, virðist ekki höfða til Íslendinga. Þess í stað hefur skólinn verið starfræktur til námskeiðahalda á vegum kirkjunnar og hafa nokkur umsvif verið í þeim rekstri. Gert er ráð fyrir nokkurri fjárveitingu, m.a. til að mæta halla sem stafað hefur af þeim rekstri.

    Næst er ástæða til að benda aðeins á tillögu er varðar Landsbókasafn Íslands. Þar er lögð til hækkun um 1,5 millj. kr. vegna nýrrar tímabundinnar stöðu. Þegar Halldór Laxness rithöfundur færði þjóðinni að gjöf drög og handrit að ritverkum sínum var ákveðið að ráða tímabundið starfsmann til þess að skrá og yfirfara þessa miklu gjöf skáldsins. Tillagan er um að það verk hefjist á árinu 1991.
    Fjvn. gerir ekki tillögu um að ráðist verði í hið umfangsmikla endurbyggingarstarf og viðgerðir á Þjóðminjasafni Íslands við Suðurgötu sem kynnt hefur verið fyrir þingmönnum. Þarna er um gríðarlegt viðfangsefni að ræða sem kosta mun mikið fé, enda er húseignin við Suðurgötu mjög illa farin. Nefndin gerir hins vegar tillögu um að viðhaldskostnaður verði 10 millj. kr. vegna húseignarinnar. Er það sama fjárhæð og veitt var á fjárlögum yfirstandandi árs. Fyrir þá peninga er ekki hægt að hefja neinar meiri háttar framkvæmdir við Þjóðminjasafnið enda eru þeir ekki ætlaðir til þess heldur fyrst og fremst til þess að sinna minni háttar viðhaldi og reyna að bjarga því sem bjargað verður.
    Þá hefur nefndin ekki séð sér fært að gera að svo stöddu tillögu um hækkun á framlagi til Kvikmyndasjóðs, jafnvel þó í erindi þar um sem nefndin fékk hafi verið bent á þá staðreynd að ef fengist allveruleg fjárveiting frá íslenska ríkinu væri von til þess að jafnhátt mótframlag fengist af norrænu fé. Nefndin lætur við það sitja að gera tillögu um eilitla hækkun á fjárveitingu til Kvikmyndasafns Íslands. Er þar um að ræða framlag til kópíeringar á gömlum myndum teknum á Íslandi sem safnið á, en filmurnar sem þær myndir voru teknar á eru úr forgengilegu efni og er mikil hætta á að þær eyðist.
    Engin ástæða er til að gera sérstakar athugasemdir við næstu tillögur. Þær eru að fullu skýrðar í skýringum með brtt. sem fylgir nál. meiri hl. Aðeins er ástæða til að benda á að undir liðnum Ýmis íþróttamál er gert ráð fyrir 2 millj. kr. hækkun á viðfangsefni 1.16 Íþróttafélög. Hér er um að ræða það fé sem ríkið ver til þess að styðja frjáls félagasamtök á sviði íþróttamála til framkvæmda, en íþróttaframkvæmdir eru að öðru leyti komnar yfir á verksvið sveitarfélaga.
    Þá er ástæða til að benda á að fjvn. taldi óhjákvæmilegt að styðja Skáksamband Íslands í húsnæðiskaupum þess, en Skáksambandið hefur eins og kunnugt er flust í nýtt og myndarlegt húsnæði þar sem mikið starf fer fram, ekki síst meðal ungs fólks. Rík ástæða er til þess að styðja við bakið á aðilum eins og íþróttafélögunum og Skáksambandi Íslands, Bandalagi íslenskra skáta og öðrum slíkum sem stuðla að hollu og heilbrigðu félagsstarfi meðal æskufólks.
    Næst er ástæða til að staldra við viðfangsefni er fellur undir utanrrn. og varðar lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli. Vegna sparnaðaraðgerða hjá lögreglustjóraembættinu á Keflavíkurflugvelli hafði verið tekin sú ákvörðun að draga mjög úr kostnaði hjá embættinu við að opna Fríhöfnina í flugstöðvarbyggingunni, þannig að verslun Fríhafnarinnar yrði ekki

opnuð fyrr en 45 mínútum fyrir brottför flugvéla að morgni. En til þess að heimilt sé að opna Fríhöfnina verða að vera til staðar tollverðir á vakt og vopnaeftirlit. Forstjóri Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli sendi erindi til fjvn. vegna þessa og benti réttilega á að Fríhöfnin mundi missa af verulegum viðskiptum ef verslunin yrði ekki opnuð fyrr en 45 mínútum fyrir brottför flugvéla því á svo skömmum tíma hefðu farþegar lítinn sem engan tíma til þess að versla í brottfararverslun Fríhafnarinnar. Nú þegar er ástandið orðið þannig að við síðasta útkall þurfa fjölmargir farþegar að hlaupa frá innkaupakörfum sínum án þess að geta gengið frá viðskiptum. Fríhafnarstjórinn sagði fjvn. í erindi þessu að hann treysti sér til að hafa í hagnað tífaldan þann kostnað sem væri af því að opna Fríhöfnina fyrr og þá á þeim tímum sem hann óskaði eftir því að slík opnun yrði. Tillaga þessi er varðar lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli lýtur að því að fjárveiting til embættisins verði samtals hækkuð um 1,5 millj. kr. Er sú hækkun til greiðslu kostnaðar við embættið og tengd því að verslun Fríhafnarinnar verði opnuð þegar forstjórinn óskar eftir því. Með sama hætti verði samkvæmt ábendingu forstjórans og tillögu hans sjálfs gert ráð fyrir auknum tekjum af vörusölu Fríhafnarinnar sem nemur tífaldri þeirri fjárhæð.
    Næst er ástæða til að staldra við málefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Ég held að það sé flestra manna mál að Íslendingar geti ekki verið stoltir af framlagi sínu til þróunarlandanna. Íslendingar eru meðal ríkustu þjóða heims. Einkaneysla er hvergi hærri en hér á landi. Bifreiðaeign í hámarki, hvergi fleiri símar eða sjónvörp. Landsmenn eyða miklu fé í ferðalög. Hvergi eru meiri kröfur um íbúðarhúsnæði en á Íslandi bæði hvað varðar stærð og vöndun o.s.frv. Þannig koma landsmenn út úr samanburði við aðrar þjóðir þótt svo að það sé jafnframt árátta á okkur Íslendingum að enginn sé búmaður nema hann kunni að barma sér. Og mitt í þessari velsæld eru menn stöðugt að barma sér fyrir fátæktar sakir.
    Þrátt fyrir allt hafa Íslendingar þó undirgengist ýmsar skuldbindingar á alþjóðavettvangi. Er ég þá ekki að tala um skuldbindingu landsins um að stefna að því að framlög til þróunarlanda og aðstoð við þau verði 1% af þjóðarframleiðslu heldur aðeins um þær skuldbindingar sem Íslendingar hafa formlega undirritað og undirgengist um aðstoð við aðrar þjóðir. Fram hefur komið í máli Þróunarstofnunar Íslands að í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 sé ekki nægilegt fjármagn til þess að standa við þær skuldbindingar sem stofnunin hafi þegar tekið á sig. Sett var upp sérstök nefnd skipuð fulltrúum þriggja ráðuneyta og fjvn. til að yfirfara þessi mál. Komst sú nefnd að þeirri einróma niðurstöðu að með óbreyttu fjárframlagi yrðu Íslendingar að rifta samningum og skuldbindingum sem þeir hafa undirgengist um verk sem eru í vinnslu og hækka þyrfti framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands um 16 millj. 430 þús. kr. til þess eins að hægt væri að standa við þessar lágmarksskuldbindingar. Er sú tillaga flutt hér.
    Þá flytur fjvn. einnig tillögu um að nokkur hækkun verði til Alþjóðaflóttamannastofnunarinnar og mun síðar flytja tillögu um að hækkað verði framlag til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna um 5 millj. kr. Ástæðan fyrir því að sú tillaga er ekki með nú við 2. umr. er sú að óskað hafði verið að fundinn yrði réttur staður fyrir hana á viðfangsefnum í fjárlögum en niðurstaða var ekki fengin þegar til afgreiðslu við 2. umr. þurfti að ganga. En sú tillaga hefur sem sé verið samþykkt í fjvn. og verður gerð við 3. umr.
    Næst er ástæða til að staldra við tillögur þær sem nefndin gerir er varða Rannsóknastofnun landbúnaðarins. Er rétt að staðnæmast fyrst við tillögu um 500 þús. kr. framlag vegna sérstakra verkefna á Vestfjörðum. Er hér átt við stuðning við tilraunir í æðarrækt sem fram fara í Ísafjarðardjúpi. Var þetta í framhaldi af ákvörðunum sem teknar voru þegar lagðar voru niður annars vegar tilraunastöðin á Reykhólum og hins vegar tilraunastöðin á Skriðuklaustri. Var þá ákveðið að veita fé á ári hverju til sérstakra viðfangsefna í þessum tveimur fjórðungum. Hér er tillaga nefndarinnar um litla fjárhæð vegna tiltekins viðfangsefnis á Vestfjörðum kynnt en síðar kemur tillaga um nokkuð hærri fjárhæð sem veita skuli til sauðfjárveikivarna vegna flutnings á því ullarhvíta fé sem var til tilraunaræktunar á Skriðuklaustri en það fé verður að varðveita í einangrun um alllangan tíma.
    Þá er ástæða til að minnast sérstaklega á framlag að fjárhæð 8 millj. kr. sem nefndin leggur til að veitt verði til byggingar bútæknihúss á Hvanneyri. Gert er ráð fyrir því að þetta hús verði einnig fjármagnað af samtökum og fyrirtækjum í landbúnaði svo og Byggingarsjóði rannsóknarstofnana. Er í framhaldi af þessari fjárveitingu, ef samþykkt verður, nauðsynlegt að undirbúa samning um framhaldið milli landbrn. fyrir hönd Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og þessara aðila, þ.e. Byggingarsjóðs rannsóknarstofnana og samtaka og fyrirtækja í landbúnaði sem lýst hafa vilja sínum að taka þátt í byggingu slíks húss.
    Þá er ástæða til að segja örfá orð um tillögur er varða Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins, tilraunir til ræktunar iðnviðar. Þar er gert ráð fyrir að fjárveiting verði hækkuð um 1 millj. kr. Hér er um að ræða sérstakt verkefni sem verið er að vinna á Suðurlandi í samvinnu við bændur þar. Fjvn. leggur áherslu á að greiðsludeild fjmrn. líti til þess að ekki verði greitt út af þessum lið fyrr en fyrir liggi samningar við bændur sem þátt taka í umræddu viðfangsefni þar sem fram komi hvernig og hvenær eigi að reiða af höndum það fé úr ríkissjóði sem þarna er um að ræða.
    Örfá orð um tillögur er varða Veiðimálastofnun. Í skýringum segir að hér sé um að ræða 2 millj. kr. hækkun á framlagi til ráðgjafar á Vesturlandi og er þar átt við framlag til ráðgjafar í bleikjueldi.
    Þá er erindi er tengist yfirdýralækni um hækkun um 1,3 millj. kr. vegna einnar stöðu dýralæknis. Þetta er dýralæknir í svínarækt og mun tengjast kynbótum í svínarækt sem stunda skal að sögn á grundvelli þjóðarsáttar.
    Næsti liður er Endurgreiðsla gjalda í landbúnaði. Fjvn. lauk ekki umfjöllun sinni um þessa tillögu og er

hún því dregin til baka til 3. umr. til betri skoðunar. En hér er um að ræða erindi frá hæstv. ríkisstjórn.
    Um liðinn Uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir sem er næsta tillaga er það að segja að fjmrn. lét skoða að fyrirlagi Framleiðnisjóðs landbúnaðarins ábendingar sjóðstjórnarinnar um það að verulega skorti á greiðslu á lögbundnu framlagi úr ríkissjóði á árabilinu 1986 -- 1988. Niðurstaða fjmrn. var sú að þarna skorti á lögbundnar greiðslur að fjárhæð 25,4 millj. kr. Er gert ráð fyrir því hér að sú niðurstaða fjmrn. verði samþykkt á Alþingi.
    Þá er ástæða til að staldra við lið er varðar Hafrannsóknastofnun. Þar er lagt til að liðurinn Hvalarannsóknir hækki um 10 millj. kr. þannig að unnt sé að halda áfram rannsóknum á hvölum í svipuðum mæli og verið hefur undanfarin ár enda ástæðulaust að fella niður rannsóknir á hvalastofninum, því sjávarútvegsþjóð eins og Íslendingar hlýtur að reikna með því að nýta allar auðlindir sjávarins og rannsóknir eru grundvöllur þeirrar nýtingar.
    Svo er kominn kvóti á smábátana eins og landslýður veit og þá þarf nú heldur betur að líta eftir þeim bátum eða öllu heldur þeim kvóta. Gerir fjvn. tillögu um að viðbótarfjárveiting að fjárhæð 2 millj. kr. verði veitt veiðieftirlitinu til þeirra löggæslustarfa.
    Örfáar athugasemdir er varða viðfangsefni á vegum dóms - og kirkjumrn. Þá er fyrst til að taka Hæstarétt. Hús Hæstaréttar þarfnast orðið mikils viðhalds og tillögur fjvn. um viðbætur miða við að hægt verði að taka fyrir og ljúka utanhússviðgerðum á Hæstaréttarhúsinu samkvæmt tillögum dómsforseta þar að lútandi.
    Þá er ástæða til að benda á lið er varðar sýslumanninn í Stykkishólmi. Þar gerir fjvn. tillögu um að stofnað verði embætti löglærðs fulltrúa er hafi aðsetur í Ólafsvík. Auk þess gerir nefndin tillögu um að stofnsett verði
hálf staða umboðsmanns sýslumanns á Reykhólum en sýslumaður þeirra Reykhólahreppinga situr á Patreksfirði. Eru þar langar vegalengdir á milli og oft erfitt og stundum ógerningur að komast landleiðis en íbúar í hinum nýja Reykhólahreppi þurfa að sækja til sýslumannsins á Patreksfirði um alla þjónustu. Hreppsnefndin hefur boðist til þess að leggja til húsnæði undir starfsemi umboðsmanns sýslumanns. Er hér lagt til að stofnuð verði hálf staða slíks umboðsmanns á Reykhólum.
    Þá hefur orðið villa í skýringum á tillögu nefndarinnar er varðar sýslumann á Blönduósi. Þar er lagt til að löggæslukostnaður hækki um 700 þús. kr. og segir í skýringum að það sé vegna hálfrar stöðu löggæslumanns. Það er ekki alls kostar rétt. Þessi tillaga er um greiðslu launa vegna afleysingamanns yfir sumarið að löggæslumálum.
    Þá er komið að félmrn. Fyrsta tillaga er málefni þess varðar er um málefni fatlaðra. Er tillagan um að kostnaður við vistun hækki um 3 millj. kr. Ætti það að nægja til þess að skammtímavistanir hjá stuðningsfjölskyldum mætti á árinu auka úr þremur sólarhringum í fjóra.

    Þá er rétt að benda á tillögu er varðar Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Hér er um það að ræða að sú stefna er mörkuð að uppgjör á jöfnunarsjóðsframlagi liðins árs fari fram í fjárlagafrv. næsta árs. Er hér lagt til að til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði greiddar 44,8 millj. kr. til viðbótar við þá tölu sem í fjárlagafrv. er. Eru þessar 44,8 millj. kr. uppgjör á jöfnunarsjóðsframlaginu frá árinu 1990.
    Þá er rétt að fara nokkrum orðum um tillögur nefndarinnar er varða sjúkrahús í Reykjavík. Eins og hv. alþm. er kunnugt var þannig gengið frá frv. til fjárlaga að sjúkrahúsin í Reykjavík, þ.e. ríkisspítalar, Landakotsspítali og Borgarspítali, voru ekki í fjárlagafrv. eins og þrjár aðskildar stofnanir eins og þær hafa verið til þessa. Hins vegar var í frv. einn liður sem hét Sjúkrahús í Reykjavík. Voru þar færðar fjárhæðir sem áttu að ganga til rekstrar og stofnkostnaðar allra sjúkrahúsanna. Í athugasemdum og skýringum í frv. var svo sagt að heilbrrh. hefði í huga að flytja frv. á Alþingi um samræmingu á yfirstjórn sjúkrahúsanna og yrði það verkefni væntanlegrar samræmingarstjórnar eða yfirstjórnar þessara sjúkrahúsa að taka ákvarðanir um skiptingu á þessum fjárlagalið milli stofnana. Fjvn. óskaði eftir því að fá frá fjmrn. hugmyndir um skiptingu milli stofnana og viðfangsefni sem byggju á bak við þá fjárhæð sem sýnd var á fjárlagaliðnum Sjúkrahús í Reykjavík. Nefndin fékk sundurliðun sem reyndist vera um 100 millj. kr. hærri en fjárlagafrv. gerði ráð fyrir. Fjvn. fékk síðan til sín fulltrúa þessara þriggja sjúkrahúsa og bað þá um að skoða þau áform sem komu fram í sundurliðun fjmrn. svo betur væri unnt að átta sig á því hvaða hugmyndir lægju þar til grundvallar. Forstöðumenn sjúkrahúsanna komu síðan aftur á fund fjvn. með athugasemdir sínar. Niðurstaða þessarar yfirferðar var í grófum dráttum sem hér segir:
    Hjá Borgarspítala og Landakotsspítala virðist vera samræmi á milli annars vegar þeirra áætlana sem stjórnendur spítalanna gerðu um launakostnað og hins vegar þeirra talna sem fjmrn. sýndi í hugmyndum sínum um sundurliðun fjárlagaliðarins Sjúkrahús í Reykjavík. Er þá miðað við óbreytta starfsemi beggja sjúkrahúsa. Með óbreyttri starfsemi er átt við hvað Landakot varðar að þar er á yfirstandandi ári aðeins um að ræða um það bil 80% nýtingu á sjúkrarúmum, sem er auðvitað talsvert undir því sem sjúkrahúsið er miðað við. Biðlistar vegna aðgerða á sjúkrahúsinu, bæði beinaðgerða og þvagfæraaðgerða, eru langir. Hvað Borgarspítalann varðar virtist vera fullt samræmi í launaáætlun spítalans að gerðum tilteknum leiðréttingum vegna mistaka og þeim fjárhæðum sem fólust í áætlunum fjmrn. nema hvað Borgarspítalinn óskaði eftir nokkrum nýjum stöðugildum sem ekki voru með í áætlunum fjmrn. Einnig var fyllsta samræmi á milli rekstrargjaldaspár sjúkrahúsanna annars vegar og þeirra talna sem fjmrn. studdist við hins vegar og var áætlun annars sjúkrahússins raunar nokkru lægri hvað önnur rekstrargjöld varðar en hugmyndir fjmrn. Sjúkrahúsin bæði reyndust hins vegar áætla sér nokkuð meiri sértekjur en fjmrn. hafði gert. Er það í

fullu samræmi við þá staðreynd að sértekjuáætlanir sjúkrahúsanna í fjárlögum yfirstandandi árs voru of háar. Því voru þær lækkaðar verulega í fjárlagafrv., svo mikið að áætlun fjmrn. reyndist vera neðar í öllum tilvikum hjá sjúkrahúsunum í Reykjavík í sértekjumálum en áætlanir spítalanna sjálfra.
    Þannig virtist vera að rekstrarliðir Landakotsspítala og Borgarspítala, miðað við óbreytta starfsemi, væru í samræmi við hugmyndir fjmrn. um uppskiptingu á liðnum Sjúkrahús í Reykjavík. Sama máli gegnir hins vegar ekki um ríkisspítalana. Þar er verulegur munur annars vegar á tölum þeim sem fjmrn. studdist við, bæði um launakostnað og almenn rekstrargjöld, og hins vegar áætlunartölum stjórnenda ríkisspítalanna. Auk þess munaði talsverðum fjárhæðum, þó einkum og sér í lagi hvað varðar tækjakaup til nýrra viðfangsefna sem sett hafa verið af stað að ákvörðun heilbrrh. Er þá átt við fjölgun hjarta - og æðaaðgerða og glasafrjóvgun. Í stuttu máli er niðurstaðan sem sé sú að mikill munur er á rekstrarútgjaldaþörf ríkisspítalanna samkvæmt áætlunum stjórnenda þeirra annars vegar og á rekstrarfjárþörf og launagreiðslum ríkisspítala samkvæmt tölum fjmrn. hins vegar. Hinir spítalarnir í Reykjavík voru hins vegar í jafnvægi miðað við óbreyttan rekstur.
    Þegar kom að stofnkostnaði, endurnýjun tækja og viðhaldi munaði mjög háum fjárhæðum hjá öllum spítulunum og því sem áætlun fjmrn. byggðist á enda má segja að mikil framkvæmdaþörf sé orðin hjá öllum spítulunum. Hjá Borgarspítalanum er nauðsynlegt að byggja nýjar skurðstofur auk endurnýjunar á tækjum, hjá Landspítalanum er mikil þörf á endurnýjun á tækjakosti, mikil viðhaldsþörf á húsnæði og allir þingmenn þekkja glögglega þörfina á framhaldsframkvæmdum við svokallaða K - byggingu. Og hjá Landakoti er viðhald orðið aðkallandi, sömuleiðis endurnýjunarþörf mikil á tækjum og búnaði. Niðurstaða fjvn. að lokinni þessari athugun er eftirfarandi:
    Nefndin leggur til að sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík, Landakotsspítalinn, Borgarspítalinn og ríkisspítalarnir, verði tekin inn í fjárlögin á ný með sín gömlu fjárlaganúmer. Í sundurliðun þar verði byggt á tölum stjórnenda Borgarspítala og Landakotsspítala hvað varðar laun, almennan rekstur og sértekjur. Er þá miðað við tillögur stjórnenda þessara spítala án viðbótarstöðuheimilda sem sótt var um og miðað við óbreytt rekstrarumfang frá yfirstandandi ári. Hvað varðar viðhald, stofnkostnað, tækjakaup og annan búnað verði stuðst við þær tillögur sem fjmrn. kynnti þar um og eru þær, eins og áður sagði, talsvert lægri en beiðnir spítalanna tveggja hvað varðar fjárþörf í þessu sambandi. Hvað varðar ríkisspítalana sem sérstakan fjárlagalið verði hins vegar stuðst við tölur fjmrn. í öllum tilvikum sem eru eins og fyrr sagði verulega lægri en áætlun stjórnenda spítalans.
    Nú er það að segja að heilbrrh. hefur lýst því yfir að með samræmingu á starfsemi sjúkrahúsanna í Reykjavík sé hægt að ná umtalsverðum árangri til lækkunar á rekstrarkostnaði. Frv. á hans vegum þar að lútandi er til meðferðar á Alþingi og er þess vænst að

það verði samþykkt. Hvort sem það verður eða ekki vill fjvn. fyrir sitt leyti stuðla að því að ráðherranum gefist kostur á að láta á það reyna hvort unnt sé að ná árangri til sparnaðar með ráðstöfunum af því tagi sem hann hefur boðað. Leggur nefndin því til að auk þess sem hér er getið verði fjárlagaliðnum Sjúkrahús í Reykjavík áfram haldið á fjárlögum og inn á hann færðar eftirtaldar tölur:
    Viðfangsefni 1.01 Laun og annar rekstrarkostnaður verði 154,3 millj. kr. Viðfangsefni 6.02 Tæki og búnaður breyti um nafn og nefnist Stofnkostnaður. Á hann færist 20 millj. kr. en önnur viðfangsefni falli út. Þessi breyting þýðir með öðrum orðum það að undir liðnum Sjúkrahús í Reykjavík eru til ráðstöfunar, auk þess sem kveðið er á um í tillögum fjvn. að verði til ráðstöfunar undir fjárlagaliðunum Ríkisspítalar, Borgarspítali og Landakotsspítali, 154,3 millj. kr. í rekstur og 20 millj. kr. í stofnkostnað. Þessar fjárhæðir hefur heilbrrh. þá til ráðstöfunar til að mæta aðkallandi vanda sjúkrahúsanna þriggja í Reykjavík þannig að honum verði unnt að beita ráðuneytinu, e.t.v. í samstarfi við einhvers konar samræmingarstjórn spítalanna þriggja, til að deila þessum fjármunum niður í samræmi við breytingar á skipulagi og áhrif af auknu samstarfi. Með sama hætti fái ráðherrann og sé ábyrgur fyrir skiptingu á 20 millj. kr. til viðbótar til stofnkostnaðar vegna tækjakaupa, endurnýjunar ellegar jafnvel viðhalds hjá spítulunum. Er rétt að benda á að sá stofnkostnaðarliður gerir mun meira en að nægja til þess að hægt sé að kaupa þau tæki sem þarf til þess að hægt sé að standa við ákvarðanir ráðherrans um fjölgun hjarta- og æðaaðgerða og um að hefja glasafrjóvganir á næsta ári. Fjvn. ræddi í því sambandi þá hugmynd hvort ekki væri rétt að gera ráð fyrir því að eitthvert gjald væri greitt fyrir glasafrjóvgun, en talsvert margir Íslendingar hafa fengið þessa þjónustu á Bretlandseyjum eins og kunnugt er og greitt verulegar fjárhæðir vegna ferða- og dvalarkostnaðar. Fjvn. tók ekki afstöðu til þessa máls, enda ekki í hennar verkahring. En sá sem hér stendur telur það ekki óeðlilegt að þegar slík þjónusta er tekin inn í landið, þar sem ekki er um að ræða aðgerðir til lækningar á sjúku fólki, þá verði það skoðað hvort ekki sé rétt að taka einhverja greiðslu fyrir þá þjónustu sem þarna er veitt. Þetta var útúrdúr og kem ég þá aftur að meginefni málsins.
    Fjvn. hefur jafnframt samþykkt að hún muni fyrir sitt leyti fylgjast með því hvernig miði fram hjá hæstv. heilbrrh. að ráða við vanda sjúkrahúsanna í Reykjavík með þeirri óskiptu fjárveitingu sem hér er gerð tillaga um. Nefndin mun kanna það mál fljótlega í upphafi nýs árs. Komi í ljós að ekki sé unnt að ná nema þá ef til vill að hluta til þeim árangri til kostnaðarlækkunar sem heilbrrh. stefnir að með þessari samræmingu mun fjvn. taka málið upp til afgreiðslu við endurskoðun fjárlaga til undirbúnings gerðar fjáraukalaga á komandi vori.
    Þá er einnig rétt að geta þess að fjvn. hefur ákveðið að þegar liggja fyrir endanlegar kostnaðartölur sjúkrahúsanna eftir áramót, en þá fyrst er þess að

vænta að endanlegar kostnaðartölur fyrir árið 1990 liggi fyrir, mun hún taka til skoðunar rekstrarniðurstöður sjúkrahúsanna hvers fyrir sig og beita sér fyrir því að nauðsynlegar viðbótargreiðsluheimildir verði gefnar á fjáraukalögum fyrir árið 1990 til að hægt sé að standa undir greiðslum óhjákvæmilegs kostnaðar. Nefndin mun einnig skoða hvernig sjúkrahúsin standa rekstrarlega bæði vegna þarfar um aukna álagsprósentu og um áhrif virðisaukaskatts og hafa þá niðurstöðu til hliðsjónar þegar fjallað verður um málefni sjúkrahúsanna við gerð fjáraukalaga á komandi vori. Til upplýsinga skal aðeins tekið fram að í sambandi við viðbótarfjárveitingar til sjúkrahúsanna í Reykjavík undir liðnum Sjúkrahús í Reykjavík miðaði fjvn. við að hækkun launakostnaðar væri þar tekin inn með fjárhæð sem næmi sömu fjárhæð og ef öll launagjöld spítalanna hefðu verið hækkuð um 2%, þ.e. ef álagshlutfallið hefði verið hækkað úr 70% í 72%.
    Nokkuð meira er að segja um afgreiðslu fjvn. á spítulum í Reykjavík. Nefndin leggur auk þess sem hér hefur verið sagt til að stjórnendur ríkisspítala ráðist í það nú í ár að kaupa nýja vararafstöð fyrir Landspítalann og setja hana upp að því tilskildu að samningar takist við seljendur og aðra um að greiða megi fyrir kaupin og uppsetninguna á tveimur árum, þ.e. árin 1991 og 1992, en þetta er sambærileg lausn og gerð var um sambærilegt mál fyrir Borgarspítalann í Reykjavík fyrir tveimur eða þremur árum. Mjög brýnt er fyrir Landspítalann að endurnýja vararafstöð sína og mátti litlu muna að illa færi þegar taka þurfti vararafstöðina til notkunar nú fyrir nokkrum dögum.
    Þá er enn við að bæta að í frv. til fjárlaga er gert ráð fyrir fjárveitingu til yfirstjórnar mannvirkjagerðar á Landspítalalóð að fjárhæð 74 millj. kr. Fjvn. leggur til að sú fjárhæð verði hækkuð um 90 millj. kr. og er við það miðað í þeirri tillögu að boðið sé út og hafist handa við framkvæmdir á næsta áfanga við gerð tengibyggingar í K-byggingunni svokölluðu þannig að útboð fari fram og framkvæmdir geti hafist á næsta ári við fyrsta áfanga og áfanganum geti lokið á árinu 1992. Er hér um að ræða af hálfu nefndarinnar tillögu um að farið sé í þetta mikla viðfangsefni þannig að áfram verði haldið þeirri nauðsynlegu framkvæmd sem svo lengi hefur dregist á lóð Landspítalans.
    Um viðfangsefnið Sjúkrahús og læknisbústaðir er það að segja að þar leggur nefndin til hækkun upp á 81 millj. 850 þús. kr. Er tillaga nefndarinnar sundurliðuð á sérstöku yfirliti með brtt. um skiptingu á einstök verkefni.
    Þá gerir nefndin tillögu um nokkuð auknar fjárveitingar vegna borgarlæknisins í Reykjavík. Embætti borgarlæknis í Reykjavík, sem jafnframt er héraðslæknir í Reykjavík, hefur nú verið flutt frá borginni til ríkisins. Lagt er til að fjárveitingar til embættisins verði hækkaðar um 2,2 millj. kr. þannig að fjölgi hjá embættinu um eitt stöðugildi en ella hefði þurft að segja upp einum starfsmanni sem þar hefur starfað. Einnig leggur nefndin til að rekstrargjöld verði hækkuð um 700 þús. kr.
    Ástæðulaust er að fjölyrða um næstu tillögur. Þær

eru skýrðar með fullnægjandi hætti með skýringum við brtt. í nál. meiri hl. Rétt er þó að geta þess að tillaga fjvn. er varðar Flugmálastjórn er ekki um viðbótarfjárframlög úr ríkissjóði til rekstrar Flugmálastjórnar heldur aðeins er hér um að ræða tilfærslur án þess að framlag sé hækkað.
    Þá er komið að iðnrn. Þar er aðeins ástæða til að benda á að fjvn. gerir tillögu um hækkun á viðfangsefninu 1.01 um 2 millj. 750 þús. kr. Er þar um að ræða endurgreiðslu á kostnaði sem tvö sveitarfélög, Akureyri og Reyðarfjörður, hafa lagt í vegna undirbúnings staðarvals fyrir nýtt álver. Fyrsta greiðsla var innt af hendi með fjáraukalögum sem afgreidd voru fyrr í þessum mánuði og er hér um lokauppgjör að ræða.
    Virðulegi forseti. Þá á ég aðeins eftir að geta um eina afgreiðslu sem nefndin gerði og ekki er að finna í tillögum hennar, en hún hljóðar svo:
    Erindi barst nefndinni frá Rannsóknaráði ríkisins er varðar rekstur húseigna í Keldnaholti. Þessi hús eru í eigu margra aðila og eru nýtt af ýmsum stofnunum en ekki er gert ráð fyrir því að sérstakt rekstrarframlag komi til vegna hússins. Samkvæmt erindi Rannsóknaráðs ríkisins virðist enginn vera ábyrgur fyrir rekstri þess. Því var sótt um rekstrarframlag til hússins að fjárhæð 1,9 millj. úr ríkissjóði. Afstaða fjvn. er sem hér segir:
    Það er mjög algengt að fleiri en einn eigandi séu að tiltekinni húseign. Það er til dæmis alvanalegt þar sem um fjölbýlishús er að ræða að fleiri en einn eigandi sé skráður fyrir húseigninni. Slíkt er einnig alvanalegt um annað húsnæði, þar á meðal atvinnuhúsnæði. Hvarvetna sem það gerist mynda eigendur með sér húsfélag sem er ábyrgt fyrir rekstri húseignarinnar. Þeir sem nýta húseignina, hvort sem það eru eigendur eða leigjendur, borga síðan sameiginlegan rekstrarkostnað í hlutfalli við nýtingu. Þar sem eigendur húsanna í Keldnaholti eru allnokkrir, þ.e. þeir sem greiddu kostnaðinn við byggingu þessa húsnæðis, finnst fjvn. eðlilegt að þeir fari sömu leið og aðrir landsmenn sem þannig háttar um, þ.e. myndi með sér húsfélag sem sé ábyrgt fyrir rekstrinum og þeir sem nýta húsið, hvort sem það eru eigendur eða leigjendur, greiði síðan þau gjöld til húsfélagsins sem nægja til að standa undir rekstri húseignarinnar.
    Virðulegi forseti. Ég hef nú lokið við að gera grein fyrir tillögum fjvn. sem hún flytur við 2. umr. Allmörg mál bíða 3. umr., fleiri en vani er til. Ástæður þess eru m.a. tvíþættar. Þar er annars vegar um að ræða álitamál sem eru til meðferðar hjá fjvn. og má af stærstum málum þar nefna hafnamál. Einnig er ástæðan sú að í fjárlagafrv. boðaði ríkisstjórnin ýmsar breytingar á tekjuhlið sem tengjast einnig gjaldahliðinni. Þessar breytingar eru enn ekki fram komnar og bíður 3. umr. að skoða hvernig með skuli fara. Þá bíða einnig 3. umr. málefni byggingarsjóðanna, málefni Þjóðleikhúss, bæði rekstur og óskir um viðbótarfé til framkvæmda, málefni Þjóðarbókhlöðu og Bessastaða, þyrlukaup, jarðræktarframlög, sérstakar greiðslur til Framleiðnisjóðs vegna viðbótarkostnaðar vegna

riðuveikiniðurskurðar og nokkur fleiri mál. Auk þessara mála bíða 3. umr. hefðbundin þriðjuumræðumál svo sem tekjuhlið fjárlaganna, málefni B-hluta stofnana og málefni Tryggingastofnunar ríkisins, 6. gr. og fleiri slík mál.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka svo þær þakkir sem ég hef þegar fært fram til meðnefndarmanna minna og þeirra sem starfað hafa með og fyrir fjvn. Ég legg til að tillögur fjvn. verði samþykktar nú við 2. umr. og frv. síðan vísað að þeim tillögum samþykktum til 3. umr.