Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Frsm. 1. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég flytja samstarfsmönnum mínum í fjvn. þakkir fyrir ágæta samvinnu á þeim tíma sem liðinn er frá því nefndin hóf starf sitt í haust. Gildir það bæði fyrir stjórnarliða og stjórnarandstæðinga í þessari nefnd. Ég vil þó sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. 5. þm. Vestf., sem hér var að ljúka máli sínu, fyrir forustu sem hann hefur haft í nefndinni og gott samstarf við okkur í minni hl. nefndarinnar. Jafnframt tek ég undir þakkir hv. formanns til starfsmanns nefndarinnar, til ýmissa embættismanna ríkisins sem starfað hafa fyrir fjvn. og nefndin hefur haft mikil samskipti við. Enn fremur til starfsfólks Alþingis sem nefndin hefur títt þurft að reyna á þolrifin hjá við þá vinnu sem hún þarf að leysa af hendi.
    Engin ástæða er til annars en leggja mikla áherslu á það að sú vinna sem fram fer í fjvn. krefst þess að leitað sé mjög til ýmissa starfsmanna ríkisins. Það er svo að þessir starfsmenn bregðast jafnan vel við og leysa úr málum,
svara fyrirspurnum eftir því sem mögulegt er og jafnhratt og mögulegt er. Fyrir þetta vil ég láta koma fram þakkir vegna þess að það eru ekki síður við fulltrúar minni hl. sem reynum á þolrifin hjá hinum ýmsu starfsmönnum ríkisins því við leggjum fram mjög margar fyrirspurnir og viljum fá svör við þeim mjög skjótt og greinilega sem gjarnan er við orðið.
    Um þessar mundir er nokkuð á annan hátt um að litast í þjóðfélaginu en verið hefur um hríð. Fjárlagafrv. sem hér er til umræðu er lagt fram við aðrar aðstæður en verið hefur síðustu árin. Þrátt fyrir að geigvænlegar horfur séu í fjármálum ríkisins og alvarleg staða sé í málefnum ýmissa atvinnugreina og landsbyggðarinnar er nú meiri kyrrð yfir verðlagsmálum og launamálum en verið hefur um margra ára skeið. Fyrir ári síðan birti núv. hæstv. ríkisstjórn stefnu sína í efnahagsmálum fyrir þetta ár, bæði með fjárlagafrv. og eins með þjóðhagsáætlun. Meginatriðin í þeirri stefnu, eða afleiðingum af þeirri stefnu, voru eftirfarandi:
    1. Verðlag á milli ára átti að hækka um 16 -- 17%.
    2. Erlendur gjaldeyrir átti að hækka um 13 -- 14%.
    3. Laun áttu að hækka um 11%.
    4. Afleiðing þess sem hér að framan er talið þýddi að kaupmáttur launa átti að dragast saman um 5,5%.
    Þau meginatriði í þessu stefnumiði ríkisstjórnarinnar sem sneru að almenningi í landinu voru því þau að launafólki var enn boðið upp á kjaraskerðingu um 5,5% ofan á þá miklu skerðingu kaupmáttar sem orðið hafði síðustu tvö árin á undan og nemur samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar 22 prósentustigum.
    Öllum er kunnugt um að þessari stefnu vildu aðilar vinnumarkaðarins ekki una. Þeir sættu sig ekki við það að ríkisstjórnin boðaði þeim enn nýja kjaraskerðingu, að ríkisstjórnin boðaði enn að verðbólgan héldi áfram að vaxa og að erlendur gjaldeyrir ætti að hækka og að áfram héldi efnahagsleg upplausn í þjóðfélaginu. Aðilar vinnumarkaðarins tóku því höndum saman við gerð kjarasamninga í febrúar sl. og mótuðu nýjan efnahagsgrundvöll, efnahagsgrundvöll sem nefndur hefur verið þjóðarsátt. Þennan efnahagsgrundvöll færðu þeir núv. hæstv. ríkisstjórn og raunar þjóðinni í heild á silfurdiski.
    Í hinum nýja efnahagsgrundvelli sem aðilar vinnumarkaðarins mótuðu með þessum hætti voru aðalatriðin þessi:
    1. Verðlag á árinu 1990 skyldi eigi hækka yfir 6 -- 7%.
    2. Verð á erlendum gjaldeyri skyldi standa óbreytt.
    3. Kaupmáttur launafólks yrði sem næst óbreyttur.
    Segja má að þessi meginatriði hafi gengið eftir. Þjóðarsáttinni fylgdu heldur engir afarkostir fyrir hæstv. ríkisstjórn. Einungis voru sett þau skilyrði að launaákvæði samninganna skyldu ganga jafnt yfir alla og að dregið yrði úr útgjöldum ríkissjóðs sem svaraði um 1 milljarði kr. Því síðast talda var að nafninu til framfylgt með afgreiðslu fjáraukalaga í maímánuði sl. Sú afgreiðsla var þó að meginhluta sýndarmennska eins og glöggt var sýnt fram á í nál. minni hl. fjvn. við fjáraukalögin nú í haust, sem afgreidd voru um síðustu mánaðamót. Þótt útgjöld ríkissjóðs væru lækkuð lítils háttar á pappírnum í maí hafa þau þegar verið hækkuð aftur í fjáraukalögum um 4.200 millj. kr. Á þó ríkisstjórnin sitthvað eftir í pokahorninu sem kemur til gjalda hjá ríkissjóði á þessu ári.
    En þessi nýja þjóðarsátt bauð vitaskuld upp á það að hæstv. ríkisstjórn tæki til við það að búa í haginn fyrir framtíðina í þessu þjóðfélagi. Það var þeim mun meiri ástæða til þess að ætlast til að það yrði gert vegna þess að þjóðarsáttin færði ríkisstjórninni það að útgjöld ríkissjóðs urðu hennar vegna yfir 2.000 millj. kr. lægri en orðið hefði ef stefna ríkisstjórnarinnar hefði gilt áfram. Jafnframt liggur það fyrir að á flestum afurðum okkar á erlendum markaði hefur orðið stórhækkun á þessu ári. Það voru því ákjósanleg skilyrði fyrir hæstv. ríkisstjórn að takast á við það að móta nýja stefnu í fjármálum ríkisins til þess að leggja grunn að því að raunverulegri verðbólgu væri eytt í landinu og að tryggja að hér yrði komið á jafnvægi til frambúðar, jafnframt því sem treyst væri staða atvinnulífsins og unnið að því að byggja upp nýjar atvinnugreinar.
    Ég tel að fullyrða megi að í þessum efnum hafi hæstv. ríkisstjórn gjörsamlega brugðist. Ríkisstjórnin heldur áfram óstjórn í fjármálum ríkisins og dregur þar á eftir sér hrikalegan slóða óleystra vandamála. Hæstv. ríkisstjórn hefur ekki unnið gegn þenslu í efnahagskerfinu heldur gerir hún hvort tveggja, hún lokar inni hækkanir og geymir þær, sem er auðvitað dulin verðbólga, geymir þær þangað til eftir kosningar. Eða eins og hæstv. ríkisstjórn orðar það sjálf, eftir þjóðarsátt. Hæstv. ríkisstjórn vinnur að því að sprengja upp lánsfjármarkaðinn í landinu og raunvexti með meiri opinberum lántökum en nokkru sinni hafa áður þekkst á innlendum lánsfjármarkaði. Hæstv. ríkisstjórn hefur einnig látið undir höfuð leggjast að nota svigrúm þjóðarsáttar og hækkandi verðlags á útflutningsafurðum okkar til þess að leggja grunn að betri lífskjörum, auknum hagvexti, ef frá eru talin þau

handarbaksvinnubrögð sem beitt hefur verið við undirbúning nýs álvers. Þrátt fyrir þjóðarsátt, þrátt fyrir hinn nýja efnahagsgrunn, sem aðilar vinnumarkaðarins færðu hæstv. ríkisstjórn, og þrátt fyrir hækkandi verð á sjávarafurðum okkar erlendis blasir eftirfarandi við samkvæmt opinberum gögnum:
    1. Erlendar skuldir þjóðarbúsins hafa aldrei verið hærri en á þessu ári, eða 51,6% af landsframleiðslu. Erlendar skuldir voru 40,3% af landsframleiðslu 1987.
    2. Greiðslubyrði af erlendum lánum verður á næsta ári samkvæmt spá Seðlabankans 21,7% af útflutningstekjum. Voru 16% 1987.
    3. Viðskipti þjóðarbúsins við útlönd eru með stöðugum halla. Er því spáð að hann verði 5,7 milljarðar á næsta ári. Hallinn á því eina ári mun því nema um 114 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu.
    4. Kaupmáttur ráðstöfunartekna launafólks er talinn hafa lækkað um 22 prósentustig frá 1987 til 1990. Ef stefna hæstv. ríkisstjórnar í launa-, verðlags- og gengismálum, sem hún boðaði fyrir ári síðan, hefði staðið hefði kaupmátturinn enn lækkað um 5,5% til viðbótar.
    5. Atvinnuleysi hefur u.þ.b. þrefaldast frá 1988. Gert er ráð fyrir að 2500 manns gangi atvinnulausir að meðaltali allt þetta ár. Þjóðhagsstofnun spáir því að atvinnuleysi aukist enn á næsta ári.
    6. Gjaldþrotum einstaklinga og fyrirtækja fer sífellt fjölgandi og engar horfur eru á að því dapurlega ástandi linni.
    7. Þótt sumar greinar atvinnulífsins standi betur en áður vegna hækkandi verðs á afurðum okkar erlendis eru fjölmörg fyrirtæki sem eiga ekkert eigið fé. Sem betur fer eru einnig önnur sem búa við góða afkomu. Gjaldþrotaskriðan sannar þó hve ástandið er alvarlegt. Til viðbótar hafa nýlegar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi, valdið ótta hjá fólki á landsbyggðinni um að það þurfi að hrekjast frá staðfestu sinni þannig að eftir standi sviðin jörð.
    8. Lántökur opinberra aðila á innlendum lánsfjármarkaði eru á næsta ári áætlaðar 32,4 milljarðar kr., að frádregnum afborgunum 20,2 milljarðar. Peningamagn í umferð hefur á þessu ári vaxið um 20%. Allt stuðlar þetta að hækkun raunvaxta og þenslu í efnahagskerfinu sem hætt er við að komi í ljós þegar kemur fram á næsta ár.
    9. Skattheimta ríkisins fer enn vaxandi. Frá og með 1988 til 1991, miðað við fjárlagafrv. og verðlag þessa árs, hafa skattar til ríkissjóðs verið hækkaðir um 15,5 milljarða. Það er álíka fjárhæð og öll útgjöld á vegum menntmrn. á næsta ári samkvæmt fjárlagafrv. og er það annað útgjaldafrekasta ráðuneyti ríkiskerfisins.
  10. Þrátt fyrir þessa gífurlegu skattheimtu stefnir í það að samansafnaður halli ríkissjóðs árin 1988 -- 1991 verði yfir 30 milljarðar kr. á verðlagi fjárlagafrv.
    Hér að framan hafa verið dregin fram tíu atriði sem lýsa glöggt því ástandi sem við er að fást þegar hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur setið að völdum í rúmlega tvö ár. Þrátt fyrir þetta nýtur ríkisstjórnin þó þeirrar giftu að aðilar úti í þjóðfélaginu skyldu taka af henni völdin fyrir tæpu ári og móta fyrir hana nýjan efnahagsgrundvöll sem er hin margnefnda þjóðarsátt. Eigi að síður má í þessu yfirliti sjá hluta af þeim afrakstri sem orðið hefur af störfum þeirrar ríkisstjórnar sem kenndi sig við jafnrétti og félagshyggju. Þetta er sú hæstv. ríkisstjórn sem ætlaði að leysa bráðan efnahagsvanda þjóðarinnar, treysta stöðu landsbyggðarinnar og varðveita velferðarkerfið. Þetta er líka sú sama ríkisstjórn sem í sífellu hefur sagst vera að leggja nýja og nýja hornsteina jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkisins.
    Skömmu áður en núv. hæstv. ríkisstjórn settist á valdastóla undir lok septembermánaðar 1988 hafði fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh., lýst því yfir að halli á ríkissjóði á því ári, 1988, yrði 693 millj. kr. Hér verður eigi dæmt um það hvort þetta hefði orðið niðurstaðan ef sá sami hæstv. fjmrh. hefði setið til loka ársins. Um það skal ekki dæmt. Ég sé að hæstv. núv. fjmrh. hlær við. En ég hef ekki getað fullyrt um það hvort hæstv. þáv. fjmrh., hæstv. núv. utanrrh., sagði þetta gegn betri vitund eða af því að hann vissi ekki betur eða hvort þetta hefði orðið staðreynd í hans höndum. Um það ætla ég ekkert að dæma.
    Það tók hins vegar núv. hæstv. fjmrh. sem nýjan húsbónda í fjmrn. ekki nema fáar vikur að breyta þessum áætlunum og síðan lokaútkomu ársins 1988 yfir í halla sem nam á verðlagi þess árs 7,2 milljörðum kr. eða 10,5 milljörðum kr. miðað við verðlag fjárlagafrv. fyrir næsta ár.
    Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur síðan lagt fram þrjú fjárlagafrv. Hið fyrsta þeirra var með rekstrarjöfnuði. Því var þá lýst af hæstv. fjmrh. sem tímamótaplaggi. Lokið væri tímaskeiði hallareksturs og eyðslu hjá ríkissjóði, við tæki jafnvægi og ráðdeild. Síðari fjárlagafrv. hæstv. ríkisstjórnar hafa einnig verið talin tímamótaverk af hálfu fjmrh. Hann hefur einnig lýst þeim sem nýjum og nýjum hornsteinum jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkisins og lagt áherslu á hvílíku lykilhlutverki þessir traustu hornsteinar sem hann væri að leggja gegndu í almennri hagstjórn á Íslandi.
    Til þess að sýna fram á hvernig þessi fallegu orð hafa reynst í raun er hér lítil tafla sem merkt er tafla I í nál. 1. minni hl., sem ég mæli hér fyrir. Þar er sýnt fram á það hvernig þessi orð hæstv. ráðherra hafa staðist í raun. Þar sést að allt hefur þetta snúist í hans höndum upp í andhverfu við það sem orð hans segja til um. Það er hægt að rifja það upp í örfáum orðum að fjárlagafrv. fyrir árið 1989 var lagt fram með tæplega 1200 millj. kr. tekjuafgangi. Fjárlög voru afgreidd með yfir 600 millj. jöfnuði, þ.e. tekjuafgangi. Útkoman varð á verðlagi þess árs halli upp á 6,6 milljarða kr. eða á verðlagi fjárlagafrv. fyrir næsta ár um 7,4 milljarðar. Þetta voru tímamót sem hæstv. fjmrh. kynnti með sínu fyrsta fjárlagafrv. Þau voru ekki önnur en þau að þrátt fyrir það að hann fengi í hendur fjárlög afgreidd á Alþingi með rekstrarjöfnuði og nokkrum tekjuafgangi þá snerust þau eigi að síður í höndum hans upp í 7,4 milljarða kr. halla miðað við verðlag í fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Þannig fór um sjóferð þá.

    Fjárlagafrv. fyrir árið 1990 var hins vegar lagt fram með tæplega 2,9 milljarða kr. halla. Fjárlögin voru síðan afgreidd með 3,7 milljarða kr. halla. Útkoma ársins, eins og hún liggur fyrir nú eftir að afgreidd hafa verið tvívegis fjáraukalög til breytinga á þessum fjárlögum, er að hallinn er kominn í 5,2 milljarða sem þýðir 5,5 milljarða á verðlagi fjárlagafrv. fyrir næsta ár. Þessa tölu verður auðvitað að taka með þeim fyrirvara að árinu er ekki lokið og sýnilega var haldið utan við afgreiðslu fjáraukalaga þungum útgjaldaliðum sem koma til gjalda á þessu ári, meira að segja einum útgjaldalið sem yfirtekinn var af ríkissjóði þann 1. júní sl., þ.e. lausaskuldum Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins svo sem kunnugt er.
    Ég ætla ekki að spá um hver verður endanleg útkoma ársins 1990. Ég hafði spáð því við afgreiðslu fjárlaga fyrir ári að halli yrði eigi minni en 6 -- 7 milljarðar og það stendur, og getur þó orðið meiri. Fjárlagafrv. fyrir þetta ár var síðan lagt fram með 3,7 milljarða halla og sjá nú allir að þeir hornsteinar sem hæstv. fjmrh. hefur verið með þessu að leggja í fjármálum ríkisins eru býsna valtir. Allt þetta tal um tímamót, jafnvægi og stöðugleika og hornsteina hefur auðvitað reynst orðin tóm. Það er í raun ekkert annað en gaspur. Það á þó eftir að koma betur í ljós þegar fyrir liggur niðurstaða útgjalda ársins 1990 og þegar fyrir liggur afgreiðsla á fjárlögum fyrir næsta ár að hægt verður að ráða í að hve miklu leyti þessi áætlun er raunhæf og að hve miklu leyti útgjaldaliðir eru skildir eftir og faldir einhvers staðar í skúffum fjmrn.
    Ég tel að hæstv. fjmrh. þyrfti að velja sér ný einkunnarorð og hætta að vera sífellt að tönnlast á þessum sömu, að það séu tímamót, það séu nýir og nýir hornsteinar jafnvægis og stöðugleika í fjármálum ríkisins og í efnahagskerfinu í heild. Hann gæti valið sér einkunnarorð sem væru eitthvað á þá leið að það væri hallarekstur, eyðslustefna og skattránsstefna. Það væri nær sanni og við hæfi að hæstv. fjmrh. tæki sér í munn einkunnarorð sem lýsa í raun þeirri stefnu sem fylgt hefur verið í fjármálum ríkisins í tíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Fjárlagafrv. fyrir árið 1991 sýnir enn betur en fyrr hve hæstv. ríkisstjórn hefur gersamlega mistekist í fjármálum ríkisins. Engar yfirlýsingar hæstv. fjmrh. breyta þessari niðurstöðu. Megineinkenni frv. eru þessi:
    1. Frv. er lagt fram með 3,7 milljarða halla. Það er meiri halli en áður hefur gerst. Stærri vanda er þó leynt með margbrotnum feluleik í frv. Heitstrengingar hæstv. fjmrh. um jafnvægi í rekstri ríkissjóðs hafa snúist upp í andhverfu sína.
    2. Gífurlegur hallarekstur ríkissjóðs á síðustu árum veldur því að nálega tíunda hver króna af útgjöldum ríkissjóðs fer til að greiða vexti.
    3. Frv. gerir ráð fyrir nýjum sköttum á þjóðina sem nema 2,2 milljörðum kr.
    4. Hluti af skatttekjum ríkissjóðs kemur ekki fram í tekjuyfirliti frv. heldur hverfa þær inn í rekstur tiltekinna stofnana sem sértekjur. Svo er um hinn nýja hafnarskatt, ICAO-tekjur og flugvallargjald, samtals

1300 millj. kr.
    5. Útgjöld ríkissjóðs hafa vaxið meira en tekjurnar í tíð núv. ríkisstjórnar. Frv. boðar þar enga stefnubreytingu.
    6. Umsvif ríkissjóðs halda áfram að vaxa. Rekstrarútgjöld vaxa um 2% að raungildi á milli ára. Launagjöld frv. tákna ígildi 468 nýrra starfa hjá A - hluta ríkissjóðs á næsta ári umfram þau 495 störf sem færast til ríkisins vegna nýrra verkaskiptalaga. Þessar tölur eru samkvæmt upplýsingum frá fjmrn. sem hér birtast með nál. sem fskj.
    7. Frv. er í sumum greinum nýstárlega sett upp þannig að fjárlagaliðum sem áður voru aðskildir er steypt saman í einn svo það verður erfiðara um allan samanburð við fyrri ár. Sums staðar krefst hin nýja uppsetning lagabreytinga. Þó fylgja engin lagafrv. Samanburðartöflur eru sumar villandi. Sérmerktum tekjustofnum sem ríkissjóður innheimtir er ekki skilað til samræmis við það sem lög kveða á um.
    8. Frv. boðar gífurlegan vanda í fjármálum ríkisins á komandi árum vegna hallarekstrar síðustu ára, vegna skuldbindinga af hálfu ríkisstjórnarinnar sem þá falla í gjalddaga og vegna samfélagslegra sjóða sem sækja styrk sinn til ríkissjóðs, en hæstv. ríkisstjórn hefur vanrækt að leggja fram fé til svo þeir eru að éta upp sitt eigið fé og eru komnir að fótum fram. Hæstv. fjmrh. viðurkennir að vandi sjóðanna einna sé svo mikill að það taki 2 -- 3 kjörtímabil að ráða fram úr honum.
    9. Frv. er skýr yfirlýsing um uppgjöf og ráðleysi ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins. Hvergi er vegið að rótum vandans sem er útþensla í umsvifum kerfisins og sóun, einkum hjá ráðherrunum sjálfum, sem jafnvel eyða meiru en mánaðarlaunum verkamanns í gistingu yfir nóttina á ferðum sínum erlendis.
 10. Viðskilnaður ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki er ekki gleðigjafi fyrir þjóðina. Vandinn verður ekki auðleystur en fram hjá því verður ekki gengið að þjóðin verður að taka á sig byrðarnar.
    Í þessum tíu atriðum minnist ég á það að sumar þær breytingar í uppsetningu á fjárlagafrv. sem hér liggur fyrir, krefðust lagabreytinga. Ég sé að eitt lagafrv. er komið fram, en það er lagafrv. sem lýtur að því að sameina Fjárlaga - og hagsýslustofnun og fjmrn. Ætla má því að sú breyting verði lögfest hér á hinu háa Alþingi.
    Aðrar lagabreytingar sem þarf að koma í gegn, eigi þetta fjárlagafrv. að verða lögfest með þeim breytingum sem í því felast, eru varðandi tekjuliðina, lög um tryggingariðgjald þar sem gert er ráð fyrir að hækka skatta á atvinnulífið um 1600 millj. kr. Þar á að steypa saman í eitt gjald fjórum svokölluðum launatengdum gjöldum. Í leiðinni á vitaskuld að hækka eins og hér sagði álögur um 1600 millj. kr. eða um 34 -- 35% sem þessi gjöld samtals hækka frá fjárlögum þessa árs.
    Þá þarf að leggja fram lagafrv. um hafnarskatt, það þarf að leggja fram frv. til laga um breytingar á almannatryggingalögum miðað við það sem fjárlagafrv. boðar, að beita tekjutengingu á greiðslu lífeyrisbóta

þannig að lífeyrisbætur þeirra sem komast yfir tiltekið tekjumark verði skertar.
    Þá þarf að breyta lögum um Framkvæmdasjóð aldraðra og Framkvæmdasjóð fatlaðra ef á að ná þeim markmiðum sem fjárlagafrv. boðar, þ.e. að útvíkka verksvið þessara sjóða þannig að þeir standi ekki einvörðungu undir fjárfestingu heldur einnig rekstri á þeim mannvirkjum sem þeir byggja upp. Það er vitaskuld athyglisvert að gert er ráð fyrir að þetta komi fram um leið og lögboðnir tekjustofnar þessara sjóða eru skertir svo sem raun ber vitni um.
    Það liggur í hlutarins eðli að miðað við að frv. til þessara lagabreytinga hafa ekki sést enn hér á hv. Alþingi er það í mikilli óvissu hvort þær lagabreytingar nást fram. Þá er það í mikilli óvissu hvort þau ákvæði í fjárlagafrv. sem þarna er fjallað um fái staðist. Þar á meðal verður tekjuhlið frv. völt og falla niður nokkrar af þeim skattahækkunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur ætlað sér að koma fram, ef þessi frv. fást ekki lögfest.
    Þær skerðingar sem ég vék hér að í þessari upptalningu á lögbundnum framlögum til ýmissa sjóða og viðfangsefna sem eru sérmerkt í lögum eru samtals nálega 1400 millj. kr. sem hæstv. ríkisstjórn skilar ekki til þeirra verkefna sem samkvæmt lögum eiga að fá þetta fé. Þar á meðal eru sjóðirnir sem ég nefndi hér áðan, Framkvæmdasjóður aldraðra, sem er skertur um 130 millj. kr., og Framkvæmdasjóður fatlaðra um 35 millj. kr. Mest er skerðing á Lífeyrissjóði ríkisstarfsmanna og hjúkrunarkvenna, um 530 millj. kr. og víðast hvar er um stórkostlega skerðingu að ræða á þessum sérmerktu tekjustofnum. Það hefur vakið hvað mesta athygli að hæstv. ríkisstjórn skuli leyfa sér að ráðast á nýsett lög um sóknar - og kirkjugarðsgjöld og skerða sérmerkta tekjustofna kirkjunnar um 90 millj. kr, þrátt fyrir að þessu lög væru sett vitandi vits og með fullu samkomulagi hér á hinu háa Alþingi, samkomulagi sem m.a. átti sér rætur í samstarfi um undirbúning laganna á milli fulltrúa Alþingis og fulltrúa kirkjunnar.
    Það hefur verið yfirlýst stefna hæstv. ríkisstjórnar að hækka skatta til þess að ná endum saman í ríkisbúskapnum. Ekkert hefur að sönnu skort á að hæstv. ríkisstjórn hafi haft hugarflug til þess að finna upp nýja og nýja skatta til að koma fyrri hlutanum af þessari stefnu fram. Skattar hafa hækkað gífurlega í hennar tíð. Að framan hefur verið frá því greint að frá og með 1988 -- 1991 hafa skattar verið hækkaðir um 15,5 milljarða kr. miðað við fjárlagafrv. og verðlag þessa árs.
    Í nál. 1. minni hl. eru birtar ýmsar töflur, þar á meðal töflur sem sýna hve auðvelt er að reikna þetta út. Þar sést að 1987 voru heildartekjur ríkissjóðs 23,6% af vergri landsframleiðslu en 1990, þ.e. á þessu ári, er áætlað að þær verði nákvæmlega 4 prósentustigum hærri eða 27,6%. Ef reiknað er út hvað þessi 4 prósentustig eru miklir peningar miðað við landsframleiðsluna, sem einnig sést í þessari töflu, væru það 13,4 milljarðar kr. Það er mjög varlega áætlað að segja að nýir skattar eða skattahækkun á næsta ári

miðað við fjárlagafrv. sé rúmir 2 milljarðar kr. Það er að vísu ekki ef miðað er við landsframleiðslu vegna þess að landsframleiðslan er áætluð í gögnum fjmrn. og Þjóðhagsstofnunar 28 milljörðum kr. hærri á næsta ári en hún er í ár. En ef borin eru saman fjárlög þessa árs og skattar samkvæmt fjárlögum þessa árs og skattar samkvæmt fjárlagafrv. sést að munurinn á þeim tölum gefur til kynna að skattar hækki um nærri 12%. Ef það væri lagt niður í krónur væri það 4 -- 5 milljarðar kr. En vegna þeirrar óvissu sem er um tekjuhliðina hef ég kosið að áætla í þessu yfirliti mínu að skattar á næsta ári hækki ekki miðað við þau gögn sem fyrir liggja nema um rúmlega 2 milljarða kr. Það er því næsta varlega í farið og er þá augljóst hvernig þessir 15,5 milljarðar eru fundnir.
    Á hinn bóginn hefur ekki tekist að ná endum saman í ríkisbúskapnum, eins og kunnugt er, vegna þess að útgjöldin hafa hækkað meira en skattarnir. Á þessum árum, 1987 -- 1990, hækkuðu tekjur ríkissjóðs, þ.e. skattar á þjóðina, um 4% af landsframleiðslu. Á sama tíma hækka útgjöld ríkissjóðs um 4,2% af landsframleiðslu, þannig að þó að skattarnir hafi hækkað mikið hafa útgjöld ríkissjóðs vaxið enn þá meira í höndum núv. hæstv. ríkisstjórnar.
    Hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafa báðir boðað nauðsyn nýrra skattahækkana á komandi árum. Enginn efast um að fái þeir til þess völd og þessi hæstv. ríkisstjórn heldur áfram sínu starfi þá muni sú verða raunin. Hæstv. ríkisstjórn sér ekki nema eina leið út úr skuldafeni ríkissjóðs, þá að seilast æ dýpra í vasa borgaranna í landinu. En þrátt fyrir slíkar skattahækkanir sýnir reynslan að í höndum þessarar hæstv. ríkisstjórnar dugar það ekki til. Því meira fé sem hún sækir til skattborgaranna þeim mun meira aukast útgjöld ríkissjóðs. Þessi stefna mun því dæmd til þess að mistakast. Það þarf eitthvað annað að koma til.
    Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir nýjum sköttum, þ.e. hafnarskatti, 560 millj. kr., og hækkun launatengdra gjalda eins og áður sagði á atvinnulífið, um 1600 millj. kr. Er það áður skýrt hvernig þetta er til komið. Ég vek enn á því athygli að enn skortir lagafrv. til að þessir nýju skattar verði lagðir á. Þegar svo langt er liðið á þetta ár og fáir starfsdagar á Alþingi til jóla þá hlýtur það að vera mikilli óvissu háð hvort takist að koma slíkri lagasetningu fram.
    Boðskapur hæstv. ríkisstjórnar liggur hins vegar fyrir. Þessir skattar skulu lagðir á. Það er hennar boðskapur í fjárlagafrv. sem þýðir að þeir sem nota hafnir í landinu skulu borga allar framkvæmdir við hafnir og sjóvarnargarða og einnig að verulegu leyti reksturskostnað Hafnamálastofnunar og Vitastofnunar Íslands. Með hinu nýja tryggingariðgjaldi sem leggst á atvinnulífið er líka meiningin að hann leggist á þær atvinnugreinar sem ekki hafa borgað launaskatt á undangengnum árum, undirstöðuatvinnugreinar landsmanna, vissar greinar iðnaðarins, sjávarútveg og landbúnað, og þyngist þá enn fyrir fæti hjá undirstöðugreinum landsbyggðarinnar.
    Ég tel ástæðu til þess að vekja enn athygli á töflu II í nál. 1. minni hl. til þess að menn átti sig á því að

tekjur ríkissjóðs taka stórt stökk þegar núv. hæstv. ríkisstjórn kemur til valda. Það er sýnilegt að á þeirri stefnu á að vera framhald, fái hún til þess völd. Í þessari töflu kemur fram að tekjur ríkissjóðs lækka örlítið miðað við landsframleiðslu, eins og ég var að skýra áðan. Það byggist aðeins á því að landsframleiðslan er talin munu verða 28 millj. kr. meiri á næsta ári en hún var í ár.
    Alvarlegasta meinsemdin í fjármálum ríkisins er hversu umsvif ríkiskerfisins vaxa ár frá ári. Sífellt er verið að auka þessi umsvif í rekstri, það er stofnað nýtt ráðuneyti að óþörfu, settar á laggir nýjar stofnanir og tekin á herðar ríkissjóðs ný viðfangsefni með ærnum kostnaði. Útgjöldin vaxa í sífellu og gildir einu þótt skorið sé niður fé til opinberra framkvæmda, atvinnuvega og samfélagslegra sjóða. Það er óhætt að taka undir það sem hv. 5. þm. Vestf. sagði hér áðan, að auðvitað er það Alþingi sem ber ábyrgð á því að samþykkja ný lög sem auka útgjöld ríkissjóðs. Alþingi er furðu tómlátt um það þegar verið er að samþykkja ný lög sem kosta útgjöld úr ríkissjóði hvernig eigi að standa undir þeim útgjöldum þegar til kastanna kemur. Ég hef stundum flutt þau aðvörunarorð yfir hv. alþm. að það er eins og þeir gleymi því þegar verið er að samþykkja ýmis þörf og góð mál, sem vissulega er fengur að að geta fengið fram, að það kostar líka peninga að framkvæma þau og þeir peningar verða ekki sóttir annað en til skattborgaranna sjálfra ellegar með því að mynda enn aukinn halla hjá ríkissjóði eins og verið hefur að gerast í núv. ríkisstjórn.
    Þrátt fyrir þetta hefur hæstv. ríkisstjórn verið býsna afkastamikil við að þenja út ríkisbáknið. Á árunum 1980 -- 1987 voru útgjöld ríkisins 23 -- 25% af landsframleiðslu. Nú er þetta hlutfall komið yfir 29%. Útgjöldin hafa því vaxið hraðar en tekjurnar, eins og áður sagði, og þykir þó flestum nóg um skattahækkanir hæstv. ríkisstjórnar. Í frv. nú er gert ráð fyrir aukningu á rekstrargjöldum um 2% að raungildi. Ekki mun það lækka í meðförum hv. Alþingis eða í höndum hæstv. fjmrh. á fjárlagaárinu miðað við fyrri reynslu.

     Þess er áður getið að hækkun á launalið frv. er um 15,2% frá fjárlögum 1990 sem virðist jafngildi þess að 963 störf bætist við A-hluta ríkissjóðs á næsta ári. Og samkvæmt því sem er hér birt í fskj., sem er yfirlýsing fjmrn., svar við fsp. sem lögð var fram í fjvn., greinist þetta sundur á þann hátt að 495 af þessum störfum verða til hjá ríkinu vegna tilfærslna frá sveitarfélögum við nýja verkaskiptingu en að öðru leyti er um aukningu í launaútgjöldum ríkissjóðs að ræða sem þýðir það, sem hér hefur áður verið vikið að, ígildi 400 -- 500 nýrra starfa.
    Á undangengnum árum hefur minni hl. fjvn. gagnrýnt harðlega eyðslu ráðherranna í þeirra eigin skrifstofum. Gagnrýni okkar hefur verið að engu höfð jafnt fyrir það þó sumir hæstv. ráðherrar hafi raðað sínum pólitísku vildarmönnum á jötuna í skrifstofum sínum umfram það sem lög og reglugerð um Stjórnarráð Íslands heimilar. Nú hefur það bæst við að flestir hæstv. ráðherrar misbjóða siðgæðisvitund almennings í landinu með sóun í utanferðum sem hvort tveggja er brot á þeim reglum sem áður giltu um þessi efni og gengur svo út yfir allan þjófabálk að erfitt er að útskýra. Kostnaður við einstök ráðuneyti og aðalskrifstofur einstakra ráðherra hefur vaxið mismunandi mikið á síðustu árum og er það skýrt hér í töflum sem fylgja sem fskj. með þessu nál. Sennilega fer vel á því að hæstv. fjmrh. er þar mjög í fararbroddi, bæði að því er varðar ráðuneytið í heild og eigin skrifstofu. Í fjáraukalögum sem samþykkt voru á Alþingi um síðustu mánaðamót voru útgjöld fjmrn. hækkuð um 990 millj. kr. frá fjárlögum. Þá hafa útgjöld fjmrn., með öllum undirstofnunum, hækkað á tveimur árum, 1989 og 1990, um 112%. Hækkun kostnaðar á aðalskrifstofu ráðherrans er enn meiri eða 129%. Á sama tíma hafa útgjöld ríkissjóðs í heild þó ekki hækkað nema um 54,6% og þykir víst ýmsum nóg. Þegar svo er haldið á málum hjá hæstv. fjmrh. sjálfum og hæstv. ráðherrum í heild, eins og nóg dæmi eru um, er ekki von að vel fari eða að árangur verði af öllu því orðaflóði um jafnvægi, sparnað og hornsteina, sem vellur af vörum þessara ráðamanna þjóðarinnar. Skylt er að geta þess að mér virðist að hæstv. fjmrh. hafi ekki misfarið með sína aðstöðu í kostnaði við utanferðir og skal hann eiga lof skilið fyrir það.
    Við sem að þessu nál. stöndum teljum stefnu hæstv. ríkisstjórnar í fjármálum ríkisins ranga og útþenslu ríkiskerfisins stefna út í ófæru. Þetta höfum við gagnrýnt áður, við höfum bent á að samkvæmt yfirliti Þjóðhagsstofnunar vex þjóðarframleiðslan frá 1980 -- 1990 um 4%, þjóðartekjur um 8% en samneyslan um 37%. Við höfum bent á að slík þróun stefnir út í efnahagslegt kviksyndi. Hæstv. ríkisstjórn skellir við þessu skollaeyrum og herðir róðurinn í átt til glötunar. Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. teljum að þessum horfum verði að mæta með gerbreyttri stefnu. Við teljum að það verði að bregðast við þessu í meginatriðum á tvennan hátt. Í fyrsta lagi að tryggja atvinnulífinu þau skilyrði að hagvöxtur geti tekið við af kyrrstöðu og hnignun og að skilyrði séu til þess að ný fyrirtæki geti risið og blómgast og skotið auknum og nýjum stoðum undir efnahag landsmanna. Þetta er algert forgangsatriði. Í annan stað er nauðsynlegt og óhjákvæmilegt að taka fjármál ríkissjóðs nýjum tökum. Það verður að stöðva útþenslu ríkiskerfisins og ná raunverulegum sparnaði. Sá sparnaður hlýtur að verða að hefjast hjá hæstv. ráðherrum sjálfum. Því ráðherrar sem ganga á undan með sóun geta ekki náð árangri við að taka til hjá öðrum. Þeir sem eru með öðrum orðum ófærir um að takast á við fjármál ríkisins eins og reynslan sýnir með núv. hæstv. ríkisstjórn.
    Hæstv. ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lýsti því yfir í upphafi að hún mundi treysta stöðu landsbyggðarinnar. Því miður er staða landsbyggðarinnar veik og sums staðar veikari en nokkru sinni. Þó hefur orðið grundvallarbreyting á afkomu ýmissa sjávarútvegsfyrirtækja vegna hækkandi verðs á afurðum okkar á erlendum markaði og vegna þess að hægt hefur

á verðlagsþróun. Þrátt fyrir það er afkomu heilla byggðarlaga stefnt í hættu. Er drjúgur þáttur í þeirri hættu sá boðskapur sem gengið hefur frá hæstv. ríkisstjórn nú að undanförnu, bæði í landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum. Tilboð hæstv. ríkisstjórnar í GATT-viðræðum hefur vakið ugg á landsbyggðinni. Afgreiðsla á málum landbúnaðarins í fjvn. er sumpart um garð gengin en sumpart bíður hún 3. umr.
    Meðal þeirra mála sem afgreidd hafa verið er ástæða til að gera eitt að umtalsefni. Í því efni tóku hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. ákvörðun um að senda sameiginlega tillögu til fjvn. sem gengur í berhögg við samninga sem gerðir hafa verið. Á árinu 1988 tókst samkomulag milli ríkisvaldsins og bænda um málefni Búnaðarfélags Íslands, m.a. með tilliti til fjárveitinga. Samkvæmt tillögum ráðherranna er í engu staðið við það samkomulag. Sérstaklega er ámælisvert að af búnaðarmálasjóðsgjaldi, sem greitt er af bændum sjálfum og samið var um í fyrsta sinn að gengi að hluta til að standa undir tilteknum kostnaði við rekstur Búnaðarfélags Íslands, er samkvæmt þessum tillögum hæstv. ráðherra ráðstafað til allt annarra hluta. Ég tel í sannleika sagt að hér sé um algert einsdæmi að ræða að senda fjvn. slíkar tillögur. Er meðferð þessara mála alveg sérstaklega mótmælt. Ég þykist vita það að hv. varaformaður fjvn., hv. 1. þm. Vesturl., þekki þetta mál mætavel vegna þess að hann var í forustu fyrir nefnd sem skipuð var tilteknum þingmönnum og tilteknum fulltrúum frá Búnaðarfélagi Íslands. Því vænti ég þess að hv. þm. Alexander Stefánsson kannist mjög rækilega við þetta mál.
     Ég tel ástæðu til að vekja á því athygli í sambandi við landbúnaðarmál að frá 1979 til 1989, eða í 11 ár, hafa útgjöld ríkissjóðs vegna landbúnaðarmála lítið breyst eða sama og ekkert ef ekki er með talið, sem á auðvitað ekkert heima í þeim málaflokki, fé til niðurgreiðslna. En annað hefur breyst. Á árinu 1989 var farið að innheimta skatt af landbúnaðinum sem vegur upp helminginn af þessum útgjöldum. Ef útgjöldin eru 8 milljarðar er skatturinn orðinn 4 milljarðar. Þessi samanburður er á föstu verði þannig að nettóútgjöld ríkissjóðs til landbúnaðarins hafa dregist saman um helming á þessu ári.
    Hafnir eru lífæðar atvinnulífs á landsbyggðinni. Í fjárlagafrv. er þörfum hafnanna sýnd meiri lítilsvirðing að mínum dómi en nokkru sinni hefur áður sést. Þar sem þessi málaflokkur bíður 3. umr. sé ég ekki ástæðu til þess að fara ofan í þau mál frekar. En sannarlega væri þörf á því að taka málefni hafnanna til alveg sérstakrar athugunar. Og ég hlýt að leggja á það áherslu að staðan í þessum lífæðum byggðanna víðs vegar um landið er með þeim hætti að hjá því verður ekki komist að þessum málaflokki sé sinnt.
    Uppgjör vegna sveitarfélaga bíður 3. umr. Ég tel ástæðu til að greina frá því að ég held að það sé aðeins ein meiri háttar fyrirspurn sem ég hef lagt fram í fjvn. og óskað svara við sem ekki hafa komið svör við. Ég hef þegar þakkað fyrir þau svör sem borist hafa. Þetta var fyrirspurn sem ég beindi bæði til fjmrn. og til Sambands ísl. sveitarfélaga um það

hvernig hin nýju verkaskiptalög hefðu komið út í reynd varðandi fjárhag annars vegar ríkissjóðs og hins vegar sveitarfélaganna. ( Gripið fram í: Það er verið að vinna í því.) Ég vænti þess að það takist að fá svör við þessum spurningum, bæði frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og eins frá fjmrn., fyrir 3. umr. En meðal þess sem þegar brást á fyrsta ári nýju verkaskiptalaganna var þegar ríkissjóður tók að sér sýsluvegina sem sýslurnar höfðu áður lagt fé til að þriðjungi á móti ríkissjóði. Á fyrsta ári hefur það auðvitað gerst að ríkissjóður hefur svikist um að leggja til sitt framlag.
    Í bréfi frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga, Þórði Skúlasyni, kemur fram að þessi fjárhæð er 74 millj. kr. sem þegar hefur brugðist í þessum samskiptum. Ég mun geyma umræðu um fleiri þætti í þessum efnum til 3. umr. vegna þess að þau mál verða þá til meðferðar.
    Á síðari árum hefur engin fólksfjölgun orðið utan höfuðborgarsvæðisins að kalla. Í heilan áratug hefur fólki á þessu svæði, þ.e. utan Reykjavíkur og Reykjaness, einungis fjölgað um 367 manns á meðan fólksfjölgun á landinu í heild er yfir 24 þús. Síðustu tvö árin er það svo að af hverjum 100 nýjum störfum verða aðeins 12 til utan Reykjavíkur- og Reykjanessvæðisins. Þetta sannar með öðru hversu veik staðan er á landsbyggðinni. Þessu ástandi mætir hæstv. ríkisstjórn m.a. með því að skera niður framlög til Byggðasjóðs með þeim hætti að fjárhagsleg afkoma hans er í mikilli hættu eins og lýst hefur verið af stjórnarmönnum sjóðsins. Hæstv. ríkisstjórn mætir þessu ástandi einnig með því að auka í sífellu starfsmannafjölda ríkiskerfisins. Allir vita hvar sú fjölgun á sér stað. Allir vita líka að því meira fjármagn sem dregið er til ríkisins þeim mun minna er eftir fyrir hina sem fjær standa. Það verður minna eftir fyrir atvinnuvegi landsmanna, fyrir einkareksturinn og heimilin og aðra þá sem fjær standa ríkiskerfinu. Aðalstöðvar ríkiskerfisins og öll meginútgjöld þess fara fram hér á þessu svæði landsins. Í þessum efnum rekur hæstv. ríkisstjórn andbyggðastefnu. Með sífelldri útþenslu ríkiskerfisins er smám saman verið að lama landsbyggðina. Þetta sannar að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki staðið við fyrirheit sín um að treysta stöðu landsbyggðarinnar. Ef það hefði staðist hefðu fleiri en 12% nýrra starfa orðið til utan Reykjavíkur og Reykjaness.
    Ég tel ástæðu einnig til þess að drepa á það sem fréttir hafa birst um að í nýrri hækkun fasteignamats er svokölluð hlunnindaeign, sem að meginhluta er til úti á landsbyggðinni, hækkuð um 57% á meðan fasteignamat almennt er hækkað um 12%. Það gerist þrátt fyrir að þetta ár hafi til að mynda laxveiðiár víðast hvar á landinu, sem eru meginstofninn í þeirri hlunnindaeign sem þarna er um að ræða, brugðist að verulegu leyti. Hrapað um þriðjung og jafnvel helming. Á þennan hátt er einnig verið að senda kveðjur til landsbyggðarinnar.
    Virðulegi forseti. Það frv. sem hér er til meðferðar við 2. umr. var lagt fram með 3,7 milljarða halla.

Brtt. nefndarinnar við þessa umræðu auka þann halla um 890 millj. kr. þannig að hallinn er nú að nálgast 4,6 milljarða. Nefndin sem heild flytur þessar brtt., og er það í samræmi við venju og vanalegt vinnulag, ef ekki eru einhver sérstök tilefni til þess að minni hl. skeri sig alveg frá varðandi tillöguflutning við 4. gr. við 2. umr. Að sjálfsögðu hefur minni hl., og nú hefur minni hl. skilað nál. í tvennu lagi, fulltrúi Kvennalistans hefur kosið að skila sér nál., en báðir þessir minni hl. hafa að sjálfsögðu óbundnar hendur varðandi einstakar brtt. og hafa fullan rétt til þess, samkvæmt því sem við höfum tekið fram í nál. og í fjvn., að greiða atkvæði gegn einstökum tillögum. Margar þeirra eru þó þannig að við eigum þátt í því, eins og formaður fjvn. sagði, að móta þær, t.d. um skiptingu á ýmsum safnliðum. Aðrar eru með þeim hætti að um þær hafa verið teknar ákvarðanir af meiri hl. nefndarinnar svo sem tíðkanlegt er. Enn fremur hafa fulltrúar minni hl. áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma og er það allt í samræmi við venjur.
    Til 3. umr. bíða mjög veigamikil mál að þessu sinni eins og hv. 5. þm. Vestf. greindi frá hér áðan. Að venju bíður tekjuhliðin, B-hluta stofnanir og 6. gr. Enn fremur allmörg stórmál sem eru óleyst. Hvernig verður farið með þessi mörgu stórmál mun hafa gríðarleg áhrif á niðurstöðu fjárlaga þegar þau verða afgreidd. Ýmis þessara viðfangsefna kosta hundruð milljóna króna hvert fyrir sig ef þeim á að sinna. Þar má nefna mál eins og málefni Tryggingastofnunar ríkisins, húsnæðissjóðina. Það er kannski ástæða til þess að nefna húsnæðissjóðina sérstaklega með tilliti til þess að einn af hæstv. ráðherrum ríkisstjórnarinnar lýsti því yfir að hann styddi ekki fjárlagafrv.
nema aukið fé fengist í húsnæðissjóðina. Enn bólar ekki á því og ég hlýt að segja að hér er mjög sérkennilega að verki staðið því að ráðherra sem lýsir því yfir að hann styðji ekki fjárlagafrv. sinnar ríkisstjórnar hlýtur í raun að segja af sér ef ríkisstjórnin í heild segir ekki af sér. Mér þykir sú teygja sem er í þessu máli orðin undarlega löng að það skuli ekki gengið frá slíku máli þar sem fyrir liggur að að óbreyttu styður ekki einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar fjárlagafrv. Sannast sagna hef ég aldrei orðið vitni að slíku fyrr. Þó að stundum hafi nú einstakir ráðherrar gert fyrirvara, þá hafa þau mál venjulega verið leyst á tiltölulega skömmum tíma. En ég man ekki eftir því fyrr að nokkur ráðherra í ríkisstjórn sem ég man eftir hafi lýst því yfir að hann styddi ekki fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir.
    Það er því ástæða til þess að spyrja hæstv. fjmrh.: Verða breytingar á málefnum húsnæðissjóðanna eða mun hæstv. félmrh. segja af sér, eða í þriðja lagi, mun hæstv. ríkisstjórn í heild segja af sér? Því að ef einn hæstv. ráðherra segir af sér í ríkisstjórn, þá hlýtur sá þingmaður að verða í andstöðu við þá ríkisstjórn, í stjórnarandstöðu. Ráðherra getur ekki sagt sig úr ríkisstjórn og stutt áfram þá ríkisstjórn. Sá ráðherra verður í andstöðu við ríkisstjórnina þannig að það væri nú fróðlegt að fá að vita hvernig þetta mál

verður útleitt og með hvaða hætti.
    Það bíða einnig mál eins og hafnamálin sem hér hafa verið rakin og uppgjörið við sveitarfélögin, Þjóðleikhúsið og Þjóðarbókhlaðan, forsetasetrið á Bessastöðum, niðurgreiðslur, verðjöfnun á orku, ýmis landbúnaðarmál o.fl., o.fl. Þá veltur eigi lítið á hvernig fer um tekjuhliðina því að ef hæstv. ríkisstjórn kemur ekki fram þeim lagabreytingum sem þarf vegna tekjuhliðarinnar, þá dragast tekjur ríkissjóðs saman um 2,2 milljarða kr.
    Þessi mál eru öll á floti enn þá og ég tel því ekki tímabært að sinni að spá um það hver verður endanleg niðurstaða fjárlaga þegar þau verða afgreidd. Það er þó, fyrir okkur sem vinnum að þessum málum, hægt að ráða í þær líkur, fara tiltölulega nálægt því hvað þarna verði um að ræða, en ekki ástæða til að gera það meðan ekki er vitað hvernig fer um tekjuhliðina. Það er þó auðvitað víst að hæstv. ríkisstjórn og hv. meiri hluti hér á Alþingi mun beita eins miklum feluleik varðandi þessi mál og mögulegt er og leitast við að leyna raunverulegum halla, raunverulegri útgjaldaþörf ríkissjóðs á næsta ári eftir því sem framast er unnt. Þeim vinnubrögðum höfum við kynnst hér á hinu háa Alþingi á undanförnum tveimur árum.
    En hvernig sem um þessi mál fer og hvort sem halli á ríkissjóði verður 6 eða 8 milljarðar eða hver hann nú verður við afgreiðslu fjárlaga, þó að hann verði 5, það er bara þeim mun meira falið, hvernig sem um það fer, þá er það kannski smámál hjá öðru sem við blasir. Nú liggur það í augum uppi í ýmsum greinum hvílíkum reginvanda þessi hæstv. ríkisstjórn ætlar að velta yfir á framtíðina. Hún skilur eftir sig í óleystum vandamálum í fjármálum ríkisins slíkar gífurlegar byrðar fyrir þjóðina að Alþingi hefur aldrei séð framan í annað eins.
    Ég hef dregið hér saman nokkur atriði úr þessum mikla vanda sem hæstv. ríkisstjórn ætlar að skilja eftir sig og skila til framtíðarinnar, leggja á herðar þjóðarinnar þegar hún er farin frá. Og þó að sumt sem þarna kæmi til greina sé vitaskuld vandmetið, þá liggur annað nokkuð í augum uppi. Þegar þessir pinklar eru dregnir saman má greina þá sundur í fimm aðalliði:
    1. Uppsafnaður halli A - hluta ríkissjóðs árin 1988 -- 1991, um 30 milljarðar kr.
    2. Fjárskuldbindingar sem falla á ríkissjóð og leystar hafa verið með útgáfu skuldabréfa, um 3 milljarðar kr.
    3. Ríkisábyrgðir sem falla kunna á ríkissjóð á næstu árum, 6 milljarðar kr.
    4. Tap fjárfestingarlánasjóða 1989 -- 1991, 2 milljarðar kr.
    5. Byggingarsjóður ríkisins. Framlög sem ríkissjóður þarf að inna af hendi til ársins 2005, 460 millj. kr. á ári, 7 milljarðar kr.
    Það eru því samtals hvorki meira né minna en 47 milljarðar kr. sem þessi hæstv. ríkisstjórn hyggst skilja eftir og ætlast til þess að þjóðin axli í framtíðinni.
    Það er hægt að skýra þessar gífurlegu byrðar nokkru nánar. Í fyrsta lagi varðandi uppsafnaðan

rekstrarhalla ríkissjóðs, þá er hann miðað við áætlaðan rekstrarhalla 5,3 milljarðar kr. á þessu ári sem væntanlega á nú eftir að breytast og nemur því alls frá 1988 um 23,2 milljörðum á verðlagi ársins 1991. Á árinu 1991 má áætla að rekstrarhalli verði eigi minni en 6 -- 8 milljarðar kr. Ég fer ekki nánar í það vegna þeirrar miklu óvissu sem er um afgreiðslu fjárlaga nú. Uppsafnaður rekstrarhalli í árslok 1991 gæti því numið um 30 milljörðum kr. Ég segi gæti, hann getur líka orðið drjúgum meiri. En hér er farið varlega í sakir og hann talinn munu verða um 30 milljarðar. Þetta samsvarar þriggja og hálfs árs framlögum ríkissjóðs til allra fjárfestinga samkvæmt A - hluta fjárlagafrv. 1991. Og þetta er nánast sama fjárhæð og gert er ráð fyrir að greiða í laun hjá A - hluta stofnunum ríkissjóðs á árinu 1991. Ef vinna ætti bug á þessum halla þyrfti allt starfsfólk ríkissjóðs að vinna kauplaust í heilt ár. Auðvitað ætlast enginn til þess en þetta sýnir hvað vandinn er mikill, hvað þessi samansafnaði halli er geigvænlegur. En þetta er ekki nema hluti af dæminu eins og áður var sagt.
    Ef raktar eru þær fjárskuldbindingar sem falla á ríkissjóð og leyst hefur verið með útgáfu skuldabréfa og fleiri slíkra pappíra, þá eru það í fyrsta lagi jarðræktar - og búfjárræktarframlög, 210 millj. kr. Það er í fyrsta skipti sem það hefur verið gert að greiða út ríkisframlög með skuldabréfum sem koma til greiðslu síðar, þegar hæstv. ríkisstjórn er farin frá, þá eiga aðrir að leysa málið. Það eru útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir, 550 millj. Það er margnefndur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins eða lausaskuldir hans sem ríkissjóður yfirtók þann 1. júní, 1500 millj., og eftirstöðvar af uppgjöri við sveitarfélög, 760 millj. Þetta eru 3 milljarðar 20 millj. kr.
    Þá koma ríkisábyrgðir sem kunna að falla á ríkissjóð á komandi árum og skuldasöfnun A - hlutans eða ríkisábyrgðir. Það má ætla að ríkissjóður þurfi að koma til bjargar vegna ríkisábyrgða, bæði að því er varðar ábyrgðir á lánum og svo ábyrgðir á einstökum útlánasjóðum. Gera má ráð fyrir að þessar ábyrgðir geti numið 5 -- 6 milljörðum kr., sem koma til með að falla á ríkissjóð á næstu árum. Þessir liðir eru: Útlán Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina, um 1700 millj., A - skírteini Hlutafjársjóðs, um 200 millj., Arnarflug og Skipaútgerð, um 800 millj. kr., Tryggingasjóður fiskeldislána, um 140 millj. kr., Byggðastofnun, um 1500 millj. kr. og ábyrgðir vegna loðdýraræktar, um 500 millj. kr. Þetta eru því tæpir 5 milljarðar kr.
    Fjárfestingarlánasjóðirnir hafa verið reknir með halla og samkvæmt athugun sem gerð hefur verið og nær til 13 fjárfestingarlánasjóða, sem flestir eru í eigu ríkisins og sérstök lög gilda um, var tap á þessum sjóðum um 700 millj. kr. á árinu 1989 sem er um 10% af eigin fé sjóðanna. Sex þessara sjóða nutu ríkisframlags á árinu 1989 er nam rúmlega 1,7 milljörðum kr. og ef tekið er tillit til þess nam raunverulegt tap þeirra á árinu 2,4 milljörðum kr. Talið er að afkoma þessara sjóða á árinu 1990 verði ekki miklu betri en á sl. ári. Í því sambandi má nefna gjaldþrot

laxeldisfyrirtækja, Arnarflugs og fleira. Þessi liður hefur verið metinn á um 2 milljarða kr.
    Þá er Byggingarsjóður ríkisins sem er um 7 milljarðar kr. sem eiga að greiðast á árunum til 2005.
    Hæstv. fjmrh. hefur lýst því yfir að það kunni að taka tvö til þrjú kjörtímabil að ráða við þann vanda sem felst í tveimur síðasttöldu töluliðunum hér að framan. Í þeim orðum felst viðurkenning á nokkrum hluta af þeirri arfleifð sem ríkisstjórnin skilur eftir sig. En vandinn er stærri. Hæstv. ríkisstjórn skilur eftir sig byrðar sem þjóðin þarf að axla á næstu árum og nemur um 47 milljörðum kr. Þessi tala er yfir 900 þús. kr. á hverja fimm manna fjölskyldu í landinu. Þessi tala er því sannarlega geigvænleg. Og samt er ekki allt talið því fleira er eftir sem ríkisstjórnin skilur eftir til framtíðarinnar. Hér er ekki talin hrikaleg staða Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hjúkrunarkvenna. Þessi sjóður er nú í þeirri stöðu að á honum hvíla skuldbindingar sem nema 20 milljörðum kr. umfram eigin fé sjóðsins og þessar skuldbindingar þarf að greiða á næstu tveimur til þremur áratugum, að meginhluta á næstu tveimur áratugum. Hér er því um 20 milljarða kr. að ræða til viðbótar því sem fyrr var talið sem bíður framtíðarinnar hjá þessum eina sjóði.
    Hér eru heldur ekki talinn sá vandi sem steðjar að Lánasjóði ísl. námsmanna. Þeir 47 milljarðar kr., sem ég hef nefnt, ættu því að vera drjúgum hærri miðað við ástandið sem við er að fást í þessum efnum. Ég fullyrði að við höfum aldrei séð aðra eins stöðu í fjármálum ríkisins sem stafar af því að hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að loka augunum og fresta til framtíðarinnar þeim vanda sem hún tók að sér að leysa.
    Við sjálfstæðismenn höfum gagnrýnt fjármálastjórnina harðlega í tíð núv. hæstv. ríkisstjórnar og þau tvö ár sem þessi hæstv. ríkisstjórn hefur setið höfum við varað við hvert stefndi í þessum efnum. Hæstv. fjmrh. hefur virst loka augunum fyrir þessum viðvörunum og þessum háskalegu horfum. Hæstv. fjmrh. hefur í síbylju talað um hornsteina, nýja hornsteina, nýjan grundvöll, jafnvægi og stöðugleika. Öll þessi fallegu orð koma mjög snoturlega fram af hans vörum. En þetta er ekkert nema orð, þetta eru orðin tóm. Og það sem meira er: þessi orð eru ekki mælt af munni hæstv. fjmrh. vegna þess að hann viti ekki betur. Hann veit auðvitað hvernig ástandið er. Hann getur séð þetta eins og við sem erum í fjvn. og hann hlýtur að vita hvernig ástandið er. Þessi orð bera því vott að hann er að leyna Alþingi og þjóðina því hvernig ástandið er raunverulega og þessi orð hans bera því líka vitni að hann mælir af sjálfbirgingshætti og yfirlæti, raunar hroka, þegar hann er að tala til Alþingis og til þjóðarinnar. Orð af þeim toga sem hæstv. fjmrh. eru munntömust þegar hann er að lýsa ágæti ríkisstjórnarinnar í fjármálum ríkisins eru lítils virði þegar til kastanna kemur. Þegar þjóðin stendur frammi fyrir alvörunni, þeirri stöðu sem við blasir, þegar glansumbúðunum hefur verið flett utan af hinu raunverulega ástandi í fjármálum ríkisins, þá eru falleg orð hæstv. fjmrh. lítils virði, jafnvel þó þau séu flutt af yfirlæti.

    Við fulltrúar Sjálfstfl. í fjvn. sem höfum gagnrýnt þessa stefnu ár frá ári og flutt okkar viðvaranir, við erum auðvitað andvígir þessari stefnu og stöndum ekki á nokkurn hátt að því frv. sem hér er til meðferðar. Við höfum varað hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn við en hún heldur áfram þeirri gjaldþrotastefnu sem leiðir beint út í ógöngur í fjármálum ríkisins og þar með fyrir fjárhag þessarar þjóðar.