Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Frsm. 2. minni hl. fjvn. (Málmfríður Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Í upphafi máls vil ég færa hv. formanni fjvn. þakkir fyrir forustu hans í ströngu starfi nefndarmanna.
Einnig þakka ég meðnefndarmönnum mínum samstarfið, svo og ritara nefndarinnar og starfsfólki Ríkisendurskoðunar og Hagsýslunnar, fyrir alla aðstoð. Starfsfólki í Austurstræti 14 vil ég þakka sérstaklega fyrir lipurð og hjálpsemi.
    Það er í raun ekki ofsögum sagt af annríki því sem fylgir störfum fjvn. og oft vaknar sú hugsun að betur mætti vinna úr málum ef meiri tími væri fyrir hendi.
    Þrátt fyrir gott samstarf nefndarmanna eru vitanlega skiptar skoðanir um meginstefnu frv., svo og um afgreiðslu einstakra mála svo sem kemur fram í nál. og ræðum í dag. Ég mæli hér fyrir nál. á þskj. 295 frá 2. minni hl. fjvn.
    Við lokafrágang síðustu fjárlaga núv. ríkisstjórnar stendur Alþingi frammi fyrir því einu sinni enn að afgreiða fjárlög með stórfelldum halla og augljóst að þó eru ekki öll kurl komin til grafar.
     Efnahagsforsendur frv. til fjárlaga byggjast á áætlun Þjóðhagsstofnunar um framvindu efnahagsmála á árinu. Sú áætlun er þó ótrygg og veruleg frávik geta orðið á veigamiklum þáttum, svo sem olíuverði og þótt verð á sjávarafurðum í heild hafi stórhækkað er ekki séð hversu mikinn ábata ríkissjóður hlýtur af því. Sala á saltsíld hefur brugðist, loðnuaflinn hefur brugðist og rækjuverð hríðfallið. Einnig er útlit fyrir lakari viðskiptakjör en gengið er út frá í frv. Vert er einnig að taka fram að hafnagjaldið nýja hlýtur að hafa áhrif til verðlagshækkana, nái það fram að ganga, en með því er ekki reiknað í verðlagsforsendum frv.
     Tekjugrunnurinn er einnig valtur. Gjaldstofn virðisaukaskattsins virðist hafa dregist saman. Allt er í lausu lofti með fyrirhugað tryggingaiðgjald og hafnagjald. Framkvæmd þeirrar skattheimtu hefur hvorki verið skipulögð eða útfærð enn, né lagaheimilda aflað, og lýsir því fremur óskhyggju en raunsæi hjá ráðamönnum að treysta því að sú tekjuöflun nái fram að ganga að fullu. Allir þessir þættir geta valdið verulegum breytingum á fjárlögum komandi árs.
     Í fjárlagafrv. fyrir árið 1991 stefnir ríkisstjórnin að eftirfarandi markmiðum:
    1. Að halli ríkissjóðs haldi áfram að lækka og verði um 1% af landsframleiðslu samanborið við 1,5% í ár.
    2. Að lánsfjárþörf ríkissjóðs haldi áfram að lækka og verði 1,3% af landsframleiðslu í stað 1,9% í ár.
    3. Að lánsfjárþörf verði að fullu fjármögnuð innan lands.
    Þegar er sýnt að ekki mun takast að ná fyrsta markmiðinu. Hækkun á gjaldaliðum við 2. umr. er um 900 millj. kr. Stórmál sem bíða 3. umr. varða hafnamál, byggingarsjóðina, Lánasjóð ísl. námsmanna, Tryggingastofnun ríkisins, Þjóðleikhúsið, Bessastaði o.fl. Mörg smærri mál koma að auki til afgreiðslu þá.

Alls má ætla að afgreiðsla þessara þátta hækki gjaldahliðina um 2,2 milljarða kr. eða meira og hafa útgjöld ríkisins þá hækkað um rúma 3 milljarða kr. frá frv. og hallinn orðinn milli 7 og 8 milljarðar kr. Halli ríkissjóðs stefnir því í að verða um 2,2% af landsframleiðslu. Hlutfallið lækkar ekki, það hækkar, þvert ofan í markmiðin.
     Hvað varðar annað markmið, lækkun á lánsfjárþörf, þá er næsta augljóst af því sem fyrr er sagt að viðbótarlánsfjárþörf mun verða um 4 milljarðar kr. og verður því heildarlánsfjárþörfin um 1,5% af landsframleiðslu en ekki 1,3% eins og stefnt var að.
    Þriðja markmið, að fjármagna lánsfjárþörfina innan lands, kann að takast. En aukin lánsfjárþörf ríkissjóðs hlýtur að auka þenslu á fjármagnsmarkaðnum, ýta undir hækkanir á vöxtum og stofna til hækkandi verðbólgu. Þannig er staðan nú ef ekki kemur til ný tekjuöflun eða stórfelldur niðurskurður á útgjöldum.
    Við afgreiðslu þessara síðustu fjárlaga frá ríkisstjórninni hljóta menn að líta á hvaða breytingar til bóta hafi orðið í ríkisfjármálum á ferli hennar miðað við þau fyrirheit sem hún gaf. Menn horfa á það að í reynd hefur ekkert breyst síðustu þrjú árin. Stjórnvöld eru í sjálfheldu með sífellda raunaukningu ríkisútgjalda sem þau virðast vera vanmegnug að takast á við. Stórfé hefur verið varið til kerfisbreytinga, einnar af annarri, sem kalla á stóraukin umsvif og mannahald hjá ríkinu. Árlega hefur fjölgað um 300 -- 400 starfsmenn í ríkiskerfinu. 400 störf kosta um milljarð kr. Þessi aukning hefur gengið fram án þess að stjórnvöld hafi reynt að sporna við því þótt þau stynji undir launakostnaðinum.
    Ríkisstjórnin hefur hælt sér af því að tekist hafi að halda stöðugleika í verðlagi. Augljóst er að þegar eru uppi ákveðin teikn um að svo muni ekki verða til loka næsta árs. Peningamagn í umferð fer vaxandi. Sífelldur hallarekstur ríkissjóðs veldur samkeppni um fjármagn sem orsakar að ekki hefur enn tekist að lækka vexti sem neinu nemur. Nú þegar krauma undir yfirborðinu kostnaðarhækkanir sem haldið hefur verið niðri með handafli en hljóta að brjótast upp á yfirborðið á næsta ári. Því eru litlar líkur til að forsendur fjárlaganna um verðbólgu fái staðist.
     Á þessu tímabili stöðugleikans hefur ríkisstjórnin ekki búið í haginn fyrir áframhaldandi stöðugleika, ekkert raunhæft aðhafst til undirbúnings þess að menn geti séð fram á vaxandi tekjur og aukinn kaupmátt launa í komandi kjarasamningum. Ekki er einsýnt að launþegar og bændur uni til langframa þeim kjörum sem þeir tóku að sér að axla við ,,þjóðarsátt``.
    Ýmislegt fleira mætti telja til sem hlífst er við að taka á, þótt ekki sé eindagi þeirra mála að hausti. Óleystum vanda er velt yfir til framtíðarinnar. Einna alvarlegust eru málefni byggingarsjóðanna. Byggingarsjóður ríkisins þarf til sín um hálfan milljarð kr. árlega fram yfir aldamót. Byggingarsjóður verkamanna verður með álíka fjárþörf að óbreyttu um ófyrirséða framtíð. Þótt núv. ríkisstjórn hafi ekki stofnað til þessa vanda bar henni að finna lausn á honum, rétt eins og hún ætlar komandi ríkisstjórnum að leysa ýmsan þann

vanda sem hún hefur stofnað til.
     Þegar fjárlagafrv. var lagt fram taldi fjmrh. það ekki vera kosningafrv. Þar væru engin gylliboð. Þetta frv. var þó kosningafrv. að því leyti að þar var gengið fram hjá málum sem augljóslega varð að taka á í vinnu fjvn. og valda stórmiklum útgjöldum, sbr. ýmis dæmi áður nefnd. Þá er fjmrh. sá leikur auðveldur að firra sig ábyrgð á hækkun ríkisútgjalda en varpa henni á fjvn. og Alþingi og það mun hann gera. Samstaðan um fjárlögin innan ríkisstjórnarinnar er ekki meiri en það að ráðherrar og ráðuneyti þeirra hafa komið til fjvn. með óskalista upp á mörg hundruð milljóna kr. hækkanir.
    Uppsafnaður halli á ríkisrekstri síðustu ára er um það bil 23 milljarðar kr. Viðskilnaður núv. fjmrh. verður trúlega á þann veg að hallinn frá hans fjármálastjórn nær 30 milljörðum kr. þrátt fyrir öll tímamótafjárlögin og hornsteinana undir efnahagslífið.
    Þessi niðurstaða um ríkisfjármálin leggur þær kvaðir á framtíðina að leysa úr þessum málum. Stórkostlegur vandi blasir við þeim sem eftir koma. Greiða verður á næstu árum og áratugum þessa 30 milljarða kr. í viðbót við fyrri og aðrar skuldir. Það verða fjáraukalög framtíðarinnar.
     Þetta er sú mynd er við blasir nú og er meginástæða þess að Kvennalistinn getur ekki staðið að samþykkt þessa frv.
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína að óvenjumörg stórmál varðandi fjárlög komandi árs hafi verið óleyst þegar frv. til fjárlaga var lagt fram í haust. Því var augljóst að gjaldahlið frv. hlaut að hækka verulega í vinnslu fjvn. Því liggur beint við að álykta að frv. hafi verið sett þannig fram af ásettu ráði að fjvn. og Alþingi kæmu til með að bera alla ábyrgð af óhjákvæmilegum hækkunum og hæstv. fjmrh. gæti í kosningaræðum þvegið hendur sínar af slíkri óráðsíu.
    Sl. kjörtímabil hefur einkennst af miklum sveiflum innan ríkiskerfisins. Veigamiklar breytingar hafa farið fram á skattkerfinu og ber þar hæst upptöku virðisaukaskatts. Samtök um kvennalista voru mótfallin þessum skatti frá upphafi. Kostnaðurinn af upptöku hans var óheyrilegur og óhemjudýrt að fylgja þessu skattkerfi eftir. Undanþágurnar eru þegar orðnar svo margar að í raun aflar hann ríkissjóði lítið meiri tekna en söluskatturinn gerði áður nema að því leyti sem innheimta er betri. Þá er aftur spurning hvort kostnaðurinn við starfsmannahald vegur það ekki upp.
    Annað einkenni á athöfnum stjórnvalda á kjörtímabilinu, sem er þó að nokkru leyti tengt skattkerfisbreytingunum, er útþensla á ríkiskerfinu og síaukin starfsmannafjölgun. Það er mikil spurning hversu umfangsmikla yfirbyggingu ríkið þolir, ríki sem ekki er fjölmennara en Ísland. Þurfum við t.d. 11 ráðherra með tilheyrandi umsvifum og ferðakostnaði? Kvennalistakonur hafa frá upphafi gagnrýnt þá eyðslu sem þar fer fram og er sívaxandi. Er réttlætanlegt að menn geti í raun leyft sér sjálftöku launa á þennan hátt með því að vera á dagpeningum í ferðalögum þar sem allur kostnaður er greiddur? Almenningsálitið heimtar að

þessir menn sýni gott fordæmi, ekki síst á tímum þegar margir lifa við kröpp kjör. Fjölmiðlar hafa vakið athygli á þessu þó þeim hafi láðst að draga það fram að þarna eiga ekki allir óskilið mál. Eini kvenráðherrann sker sig úr að þessu leyti. Ferðakostnaður hennar tvo daga í útlöndum nær varla sömu upphæð og ein nótt hjá sumum öðrum ráðherrum.
    Kvennalistakonur hafa í umræðum á þingi, frá því þær fyrst tóku sæti þar, margsinnis bent á að nauðsyn bæri til að endurskoða og endurmeta umfang og hlutverk ýmissa ríkisstofnana í þeim tilgangi að gera starf þeirra markvissara og ná niður kostnaði. Reyndar hefur örlað á að þetta væri reynt nú en því starfi er ekki fylgt nógu fast eftir. Í þessu þarf að gera stærra átak en enn hefur gerst. En engu að síður verður að búa stofnunum lífvænleg skilyrði til að gegna sínum lögboðnu skyldum svo að forstöðumenn þeirra þurfi ekki að lifa við það að vera síbrotamenn við fjárlög. En ég vil ítreka það enn og aftur að sífellda útþenslu yfirbyggingar ríkiskerfisins verður að stöðva áður en hún sligar undirstöðuna.
    Þótt leitað sé með logandi ljósi í fjárlagafrv. örlar hvergi á forgangsröð verkefna. Í málefnasamningi ríkisstjórnarinnar var þó ýmislegt tíundað sem ætlað var að hafa í forgangi og tek ég þar til byggðamál. Byggðastofnun var til umræðu hér á dögunum og hvernig að henni er búið og hennar mikilvæga hlutverki af hálfu ríkisvaldsins. Fái hún ekki meira fé til umráða veslast hún upp áður en langir tímar líða. Þó er hún e.t.v. mikilvægasti aðilinn í því að efla atvinnusköpun vítt um landið, en til þess verður hún að hafa fé til umráða sem nú er skorið við nögl, að ekki sé meira sagt.
    Byggðanefnd á vegum forsrn. situr nú að störfum. Hún hefur þegar lagt fram ýmsar hugmyndir að mótun byggðastefnu sem hefur verið vel tekið. En eigi að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd er ljóst að til þess þarf fé sem ekki er inni í þessu frv. Úr því verður að bæta ef stofnun þessarar nefndar hefur verið eitthvað annað en einber sýndarmennska. Það er ekki nóg að hafa atvinnustefnu og byggðastefnu og byggðaþróun sem falleg orð í málefnasamningi. Stefnuna verður að móta og fylgja henni eftir með því fjármagni sem til þess þarf. Þetta varðar lífshagsmuni landsbyggðarinnar. Verði álver byggt á Keilisnesi leiðir það óhjákvæmilega til upplausnar á landsbyggðinni ef ekkert kemur til mótvægis en þess sjást ekki merki. Aftur á móti hefur verið hamrað á nauðsyn þess að hamla á móti þenslu á byggingartíma álversins, ef af yrði, og þá fyrst og fremst með niðurskurði á opinberum framkvæmdum, byggingum, vegagerð, hafnamálum o.s.frv. Sjá nú allir við hvern kost landsbyggðinni er ætlað að búa næstu árin.
    Mönnum er tamt að gleyma því að meginhluti útflutningstekna okkar kemur frá landsbyggðinni. Er vitund ráðamanna virkilega sú að þarna eigi einungis að vera verbúðir fyrir fólk sem dregur fisk úr sjó en þar sé ekki þörf á fjölbreyttri atvinnu og mannlífi fyrir fólk sem kýs að búa þar? Fari svo fram sem horfir eiga uppvaxandi kynslóðir landsbyggðarinnar ekkert

val um búsetu. Atvinna verður mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu og þar verða þeir að setjast að ef ekkert verður aðhafst í byggðamálum.
    Ég hef ekki hugsað mér að gera einstakar afgreiðslur mála að umræðuefni en þrjú atriði vil ég draga fram. Lög mæla svo fyrir að grunnskólanemar eigi ekki að bera kostnað af skólabókum og námsgögnum sem þeir hafa þó að nokkru gert hingað til. Þeir hafa orðið að kaupa ýmsar bækur frá Námsgagnastofnun. Þegar raddir komu fram um að ekki væri rétt að þessi kostnaður félli á nemendur var leitað úrskurðar umboðsmanns Alþingis þar um. Úrskurður hans féll á þá leið að nemendur ættu ekki að bera þennan kostnað. Vegna tekjutaps Námsgagnastofnunar af þessum sökum var farið fram á 25 millj. kr. framlag sem var eingöngu vegna bóka í valgreinum. Aðrar þarfir voru látnar víkja. Þessari beiðni var hafnað án nokkurs marktæks rökstuðnings. Forráðamenn stofnunarinnar hafa lýst því yfir að þeir sjái ekki hvernig hægt er að halda starfsemi hennar gangandi og fara að lögum. Þetta er hrapalleg ákvörðun sem ég vona að verði endurskoðuð.
    Fé til rannsókna er skorið við nögl í þeim mæli að ámælisvert er á þeim tímum sem ákaft er leitað að nýjum framleiðslumöguleikum og nýjum atvinnukostum. Öllum mætti þó vera ljóst að í öflugri rannsóknarstarfsemi felst vaxtarbroddur atvinnulífsins og lífsnauðsyn er að styðja við þær. Langt er frá að Hafrannsóknastofnun fái það fé sem hún þarfnast og mætti ég minna enn einu sinni á fullvinnslu sjávarafurða, svo sem ensím - vinnslu. Það dugir okkur alls ekki að þessar rannsóknir silist áfram við þröngan kost. Það verður að sinna þeim af krafti. Til þess þarf fé sem án efa skilar sér seinna. Hér má skammtímahugsun ekki verða allsráðandi.
    Ég get ekki látið hjá líða að mótmæla skerðingu á framlagi til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Því er haldið fram af stjórnvalda hálfu að óþarfi sé að endurgreiða lífeyrissjóðnum framlagið, skv. 25. gr. laga nr. 63/1963, svo lengi sem sjóðurinn getur sjálfur fjármagnað lífeyrisgreiðslur með vaxtatekjum og nýjum iðgjöldum. Það fæli í sér að Lífeyrisjóður starfsmanna ríkisins yrði gerður að hreinum gegnumstreymissjóði. Slíkt gengur þvert á hugmyndir manna um nauðsyn á sjóðsmyndun til að tryggja hag lífeyrisþega sem hefur verið grundvallarsjónarmið launafólks, atvinnurekenda og lífeyrissjóða.
    Þessi skerðing sem nú er, og er af svipaðri stærð að hlutfalli og á árinu sem er að líða, byggir á mikilli skammsýni því með þessu móti er grafið undan möguleikum sjóðsins til að standa við framtíðarskuldbindingar. Það á að vera liðin sú tíð að menn geri út á framtíðina með þessum hætti. Það væri þess vegna mjög alvarlegt ef ekki yrði horfið frá þessum fyrirætlunum og vona ég að þetta mál verði endurskoðað og fært til betri vegar.
    Á því skal vakin sérstök athygli að með því að draga úr því fjármagni sem rennur í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna er rýrt það fjármagn sem sjóðurinn lánar Húsnæðisstofnun ríkisins. Samkvæmt samkomulagi

ver ríkissjóður um 55% af ráðstöfunarfé sínu til skuldabréfakaupa af Húsnæðisstofnun ríkisins. Ríkisvaldið er þannig að gera tvennt í senn: Að grafa undan Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og veikja húsnæðiskerfið.
    Virðulegi forseti. Það eru náttúrlega engar fréttir fyrir þingheim að við kvennalistakonur horfum á þetta frv. með augum kvenna og með þarfir kvenna og barna í huga og það er kannski óþarfi að taka það fram að við erum langt frá því sáttar við þá afgreiðslu sem slík málefni fá. Um það vitna þær örfáu tillögur til breytinga á frv. sem við leggjum fram við þessa umræðu. Þær eru dæmi um þær áherslubreytingar sem við viljum vinna að og sem við teljum að gætu breytt einhverju um stöðu kvenna og barna í þessu þjóðfélagi. Þar reynum við sérstaklega að huga að atvinnumálum kvenna, svo og rekstri Kvennaathvarfsins, en einnig að þörfum systra okkar í þróunarlöndunum. Hv. þingkona Danfríður Skarphéðinsdóttir mun gera grein fyrir þessum tillögum síðar í þessari umræðu og fer ég því ekki frekari orðum um þær sérstaklega.
    Ég vil hins vegar geta þess að enda þótt okkur blöskri áhuga - og skilningsleysi ráðamanna og fjárveitingavaldsins á sérstökum málefnum kvenna, þá er bersýnilegt að málflutningur og barátta Kvennalistans hefur borið árangur. Það er betur gert við suma þá málaflokka sem konur varða sérstaklega heldur en hefur verið til skamms tíma. Það er t.d. mikill munur á viðhorfum gagnvart Kvennathvarfinu nú en á fyrstu árum þeirrar starfsemi þegar menn vildu helst ekki horfast í augu við það að þessarar starfsemi væri þörf.
    Það er líka vottur um hugarfarsbreytingu, vonandi, að nú er í fyrsta skipti sérstök fjárveiting, að vísu mögur tala, til atvinnumála kvenna á landsbyggðinni. Slíkir áfangar eru að sjálfsögðu ánægjuefni
og vonandi aðeins upphaf að frekari þróun. En afskaplega virðast menn nú þurfa langan tíma til þess að skilja einfalda hluti. Það eru slík skjalfest dæmi sem við höfum hér í þessu frv. og í fram komnum brtt. sem sanna það mest og best hvílíka nauðsyn ber til að auka áhrif kvenna á Alþingi og í Stjórnarráðinu. Konur fá litlu breytt meðan þær eru í svo algerum minni hluta á þessum vettvangi. En vert er einnig að minna á að í raun og veru skiptir ekki mestu máli að fjölga konum í þessum störfum heldur, og ég legg áherslu á það, að þær konur sem veljast til slíkra starfa hafi það markmið að bæta stöðu kvenna og barna. Það er aðalatriðið eða kjarni málsins, eins og sumir munu segja.
    Ég hef gert að umtalsefni ýmsa þætti hér sem mér þykir skorta á að sé sinnt í fjárlagafrv. Vissulega mætti nefna fleira. En þá kveður við, hvar á að taka peningana? Uppi munu vera hugmyndir hjá hæstv. ríkisstjórn um aukna skattheimtu á næsta ári. Ég tel af og frá að fært sé að auka skattbyrðar þess fólks sem nú greiðir skatt af tekjum sem nægja ekki til framfærslu. Mætti halda langa ræðu um hver staða þeirra fjölskyldna er þar sem foreldrum gefst ekki ráðrúm vegna vinnuáþjánar við að reyna að ná endum saman til að sinna börnunum eins og þarf. Þetta er samfélagsmein sem þarf að uppræta. Nær væri að skattleggja tekjur sem eru verulega háar og vaxtatekjur yfir einhverjum mörkum. Það hefur hæstv. fjmrh. löngum boðað að væri fyrirætlun hans. En engin frv. hafa enn sést í þessa veru. Það er hægt að ná til fjármuna með fleiri aðferðum en skattlagningu. Ég segi: Stöðvið útþenslu í umsvifum og mannafla ríkiskerfisins og dragið úr henni. Gerið skipulega atlögu að ónauðsynlegri starfsemi á vegum ríkisins og óþarfa eyðslu og fylgið henni eftir. Þeim fjármunum sem við það sparast mætti svo ráðstafa til verkefna sem eru brýn og nauðsynleg og ég hef áður minnst á.
    Kvennalistakonur hafa svo lengi sem þær hafa tekið þátt í afgreiðslu fjárlaga minnt á nauðsyn þess að vanda fjárlagagerðina og hafa hagræðingu, hagsýni og sparnað að leiðarljósi þar. Við höfum einnig, og ég ítreka það enn, bent á að sífellt þurfi að endurskoða markmið og tilgang stofnana á vegum ríkisins. Það er mikill ábyrgðarhluti að ráðstafa sameiginlegu fé okkar allra og til þess verður að vanda vel.