Fjárlög 1991
Fimmtudaginn 13. desember 1990


     Alexander Stefánsson :
    Virðulegur forseti. Út af ræðu hv. 13. þm. Reykv., forseta Sþ., vil ég aðeins geta þess hér í upphafi að þessi tillaga hefur ekki komið fram í erindaskrá fjvn. og því ekki komið til afgreiðslu í nefndinni. Ef hér er um mistök að ræða tel ég það þó bót í máli að vegna þessa höfum við hér á Alþingi fengið að hlýða á fróðlega ræðu hæstv. forseta Sþ. um Hið íslenska þjóðvinafélag sem verður að sjálfsögðu í þingskjölum Alþingis og hlýtur að nægja að mínu mati til að Alþingi samþykki þessa tillögu forseta.
    Virðulegur forseti. Við 1. umr. fjárlaga fagnaði ég þeim árangri sem náðst hefur í efnahagsmálum undir forustu núv. ríkisstjórnar, þeirri víðtæku þjóðarsátt þar sem aðilar vinnumarkaðarins og forusta bændasamtakanna hafa tekið höndum saman við ríkisstjórn til að skapa jafnvægi í þjóðarbúskap okkar og halda verðbólgu í skefjum, standa vörð um þennan árangur sem er undirstaða þess að þjóðin geti búið við viðunandi öryggi og framfarir í landinu. Þessi víðtæka samvinna um að reyna að skapa traustan efnahagsgrunn í landi okkar er að mínu mati einsdæmi sem verður að varðveita og er augljóst vitni þess að menn hafa áttað sig á því hvað það er sem skiptir mestu máli fyrir þjóðina í heild, stöðugleiki í efnahagsmálum, sem gerir okkur um leið fært að ná hagstæðum samningum við aðrar þjóðir, ekki síst fyrir okkar útflutningsframleiðslu sem við lifum af.
    Ég ræddi um nauðsyn á bættum vinnubrögðum í stjórn peningamála og um fjárgreiðslur úr ríkissjóði eða útgjaldaleiðir ríkissjóðs. Við sem vinnum í fjvn., ekki síst við sem höfum starfað í mörg ár við afgreiðslu fjárlaga, höfum ár eftir ár bent á þörfina fyrir að breyta hér um, skapa meiri festu og aðhald í öllu kerfinu. Fjárlög komu ekki til meðferðar á Alþingi í ár fyrr en í byrjun október. Formaður fjvn. lýsti þessu í ræðu sinni hér í dag. Fjvn. þarf að fá möguleika til að starfa allt árið og taka þátt í undirbúningi fjárlaga frá byrjun. Vinnuálag í rúmlega tvo mánuði er óraunhæft og útilokar næga umfjöllun um hin víðtæku mál og vandasömu sem berast fjvn.
    Núverandi fjmrh. hefur látið gera mikilsverðar endurbætur á þessum málum, sem m.a. felast í fjáraukalögum sem eru nú til meðferðar vor og haust á fjárlagaárinu. Það er stórkostleg breyting og gerir fært að taka á þessum málum miðað við staðreyndir. En það breytir ekki þörfinni fyrir nauðsynlegar breytingar á opinbera kerfinu og ekki síður undirbúning í tíma á tekjukerfi ríkisins. Ég bendi á óafgreitt frv. fjvn. sem fékkst ekki afgreitt á síðasta þingi. Þar er tekið á aðalvanda við fjárgreiðslur úr ríkissjóði og lagðar til ákveðnar róttækar breytingar. Því miður hefur ríkisstjórn og Alþingi í heild ekki áttað sig enn á mikilvægi þessa máls sem mundi, ef að lögum yrði, gerbreyta meðferð ríkisfjármála á flestum sviðum og skapa meiri ábyrgð og festu í meðferð ríkisfjármála, hvort sem það er hjá ráðuneytunum sjálfum eða ríkisstofnunum.
    Megingallinn við fjárlagagerðina fyrir 1991 fyrir

utan það, sem ég áður sagði, að fjvn. fær ekki að koma að gerð fjárlaga eða frv. fyrr en 10. okt. er sá að þær breytingar til tekjuöflunar sem gera þarf með samþykkt frv. hafa ekki enn komið fram þótt boðaðar séu í athugasemdum með frv. Ég þarf ekki að endurtaka það sem hér hefur komið fram áður í sambandi við hafnargerð, tryggingagjald, breytingu á almannatryggingakerfinu og margt fleira. Að sjálfsögðu eru þetta erfiðustu málin, ekki síst með tilliti til þjóðarsáttar, en varða eigi að síður grunn fjárlagafrv. Væntanlega skýrast þessi mál fyrir 3. umr. en aðferðin er röng. Allar ákvarðanir til breytinga á tekjukerfi ríkissjóðs þurfa aðdraganda í meðferð. Því hljóta allir að átta sig á.
    Ég vil rifja upp nokkur atriði um virðisaukaskattinn. Virðisaukaskattur er aðaltekjustofn ríkissjóðs eins og allir vita. Í frv. fyrir árið 1991 er virðisaukaskattur talinn gefa um 41 milljarð kr. Þegar þessi róttæka kerfisbreyting var gerð sem leysti af hólmi söluskattskerfið, sem var úr sér gengið skattform að talið var vegna undanþágu sem gerði illmögulegt að fylgjast með réttum skilum, var gert ráð fyrir að breytingin í virðisaukaskatt tryggði ríkissjóði betri skil og settar yrðu reglur sem gerðu eftirlitið raunhæft. Þar á ég við sérstakar sjóðvélar hjá öllum innheimtuaðilum sem sýndu greinilega virðisaukaskattinn í öllum viðskiptum jafnóðum og þau fara fram, innsiglaðar upplýsingar í kössum sem eftirlitsmenn fengju í hendur o.s.frv. Þetta var tíundað þegar þessi skattbreyting var ákveðin.
    Nú hefur hins vegar komið í ljós að aðeins lítill hluti þeirra aðila sem innheimta virðisaukaskatt í landinu hefur slíka löggilta kassa. Jafnframt eru engin ákvæði í lögum um að innheimtumenn ríkisins geti stöðvað starfsemi tafarlaust hjá þeim sem gerast brotlegir um skil á réttum skattpeningum, skattpeningum sem almenningur afhendir þeim við öll viðskipti um leið og þau fara fram. Hér er um milljarða að ræða sem geta skipt sköpum fyrir afkomu ríkissjóðs.
    Ég hef gert það að vana á undanförnum mánuðum að fara í verslanir, stórverslanir, og fylgjast með þessum viðskiptum. Ég get tekið tvö dæmi. Ég fer inn í Melabúðina í vesturbænum og versla þar. Þar er sjóðvél í gangi sem sýnir nákvæmlega í hendur mér hvað ég borga í virðisaukaskatt. Þessi kassi er með öllum réttum formálum. Síðan fer ég út á Granda þar sem ein stærsta verslun landsins er, Hagkaup. Þar er ekki nokkur einasta upplýsing um það hvað ég er að greiða í virðisaukaskatt í þeim viðskiptum. Enginn punktur í þeim strimlum sem eru afhentir í sambandi við þau viðskipti. Þetta er lítið dæmi. Það hefur ítrekað verið bent á það hér á Alþingi, ekki síst af hv. 2. þm. Vestf. sem hefur kynnt sér þetta mál erlendis, og það hefur verið gerð krafa um að á þessu yrði ráðin bót.
    Fjmrh. hefur nú lagt fram hér á Alþingi frv. sem á að lagfæra að nokkru, ef að lögum verður, þetta ástand. Í þessu frv., sem er á þskj. 299, sjá menn í athugasemdum hvernig þetta mál er í raun og veru. Það kemur fram í könnun sem skattrannsóknarstjóri

gerði í júní sl. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Kannaði ríkisskattstjóri notkun og ástand sjóðvéla sem notaðar eru af skattskyldum fyrirtækjum til skráningar sölu á vörum og þjónustu. Niðurstöðutölur þeirrar könnunar voru þær að þó að staðan hefði batnað frá fyrri rannsóknum skorti enn mikið á að reglum um sjóðvélar væri framfylgt. Tíunda hvert sjóðvélaskylt fyrirtæki reyndist ekki hafa sjóðvél og hjá meiri hluta þeirra er höfðu slíkar vélar var búnaði eða notkun á einhvern hátt ábótavant. Einungis um þriðjungur þeirra fyrirtækja sem skylt er að hafa sjóðvélar reyndist hafa þær í fullkomnu lagi.``
    Ég tel að almenningur í landinu eigi kröfu á að þessi mál séu í réttum skorðum. Rétt skil geta þýtt minni skattbyrði sem skiptir milljörðum kr. Það þori ég að fullyrða. Ég minni enn á að milliþinganefnd um endurskoðun virðisaukaskattsins, ekki síst um möguleika á tveimur þrepum, þ.e. lægra verð á matvælum, hefur ekki enn lokið störfum. Það er mikilvægt að niðurstaða þessa máls komi fram. Það er skýlaus krafa.
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið bíða mörg stórmál 3. umr., mál sem fjvn. hefur vísað til ríkisstjórnar til umfjöllunar áður en endanlega verður gengið frá þeim í nefndinni. Sum eru þannig að það er aðeins ríkisstjórnin sjálf sem getur tekið ákvörðun um hvort þau eigi fram að ganga, fyrir utan svo B - hluta stofnanir. Ég tel ástæðu til að fjalla lítillega um nokkur mál nú við 2. umr. sem eru þó í raun stórmál.
    Ég vil fyrst nefna heilbrigðismálin sem eru í heild stærsti útgjaldaþáttur í fjárlögum, um 43 milljarðar kr. Heilbrigðismálin varða mestu fyrir velferð þjóðarinnar, bæði að því er varðar heilsu hvers einstaklings, svo og almannatryggingakerfið sem skapar öryggi fyrir þá sem minna mega sín eða verða fyrir áföllum í lífinu, svo og fyrir eldri borgara. Það er því lífsnauðsyn að búa vel að þessu kerfi á öllum sviðum, byggja upp fullkomin sjúkrahús og heilsugæslustöðvar og skapa viðunandi aðstöðu fyrir lækna og hjúkrunarfólk og aðra starfsmenn sem vinna þessi mikilvægu störf. Sem betur fer hefur okkur tekist nokkuð vel að byggja upp fullkomna aðstöðu sjúkrahúsa og heilsugæslustöðva um allt landið á tiltölulega fáum árum. Það er í raun stórkostlegt átak miðað við stærð okkar þjóðfélags. Við eigum því láni að fagna að eiga sérmenntað fólk í þessum greinum sem jafnast á við það besta hjá stórþjóðum. Vegna þessa er því brýn nauðsyn að hægt verði að standa þannig að málum að hér á landi sé ávallt hægt að veita sjúkum þá bestu þjónustu sem nútímatækni á sviði læknavísinda getur framkvæmt. Þetta kostar að sjálfsögðu mikið fjármagn en kallar jafnframt á aukið samstarf og samvinnu. Nú þegar visst öryggi er komið í öllum landshlutum er þörfin fyrir nýtt skipulag og aukið samstarf ríkisins og heilbrigðisstétta miklu þýðingarmeira en nokkurn tíma áður. Það er bjargföst skoðun mín að þýðingarlaust sé að fyrirskipa breytingar eða tilfærslur í heilbrigðiskerfinu nema í víðtækri samvinnu og með fullri ábyrgð þeirra sem starfa í heilbrigðiskerfinu sjálfu.

Þetta ætti öllum að vera ljóst. Við megum ekki við því sem þjóð að það mistakist. Við þurfum að stefna að því að eiga það besta á þessu sviði fyrir okkur sjálf sem þekkist á sviði heilbrigðismála. Lokun sjúkradeilda á að heyra sögunni til. Það leysir engan vanda heldur eykur hann.
    Ég hef miklar áhyggjur af fjárhagsvanda ríkisspítalanna sérstaklega, ekki síst Landspítalans. Innan veggja hans fara fram þýðingarmestu aðgerðir til lækninga á mestu og erfiðustu sjúkdómum er þjá okkar þjóð. Þar verða að koma til ekki aðeins færustu læknar heldur ekki síður sú nýjasta tækjatækni sem völ er á í heiminum. Framhald K - byggingarinnar er lykilmál í þessum framförum. Fjvn. hefur látið breyta uppsetningu frv. að því er varðar að setja öll sjúkrahús í Reykjavík undir einn fjárlagalið ósundurliðað. Sundurgreining kemur nú fram í brtt. nefndarinnar. Ég vona að sú viðbót sem fram kemur í brtt. fjvn. leysi brýnasta vanda í fjármálum ríkisspítalanna. Það á að vera hægt, eins og hér kom fram hjá formanni fjvn., að leysa ýmis viðamikil mál og aðkallandi, eins og að koma upp vararafstöð sem nærri var búin að valda stórtjóni síðast þegar bilun var í rafkerfinu ef ekki hefði heppni verið með. Einnig ætti að vera möguleiki að kaupa tæki til hjarta- og lungnaaðgerða og til glasafrjóvgunar sem virðist vera óhjákvæmilegt að hefja. Það sem kannski varðar mestu fyrir framtíð þessa spítala er að skv. frv. og brtt. verður hægt að hefja framkvæmdir við annan áfanga K - byggingarinnar sem allir þeir sem vinna á spítalanum leggja aðaláherslu á. Eins og kom fram hjá hv. formanni nefndarinnar er gert ráð fyrir því að fjvn. taki þessi mál til sérstakrar skoðunar eftir áramót til þess að fylgjast með því hvernig þessar breytingar koma út til hagsbóta fyrir spítalana í heild.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, fara örfáum orðum um landbúnaðarmálin. Því miður er landbrh. ekki hér viðstaddur en það verður að hafa það. Mér finnst ástæða til að ræða nokkuð um þessi mál út frá því sem ýmis sjónarmið gefa tilefni til.
    Aðlögun landbúnaðarins á Íslandi að breyttum aðstæðum, bæði í þjóðfélaginu og heiminum í heild, hefur verið í umræðu undanfarin ár, búvörusamningurinn var gerður við ríkið og er enn í gildi, en gífurlegur samdráttur hefur verið í hefðbundnum búgreinum. Að vísu er mjólkurframleiðslan nú í jafnvægi og gæði framleiðslunnar það besta sem þekkist. En sauðfjárbúskapur á í miklum vanda þrátt fyrir stórkostlegan niðurskurð og framleiðsla hefur stórminnkað á öllum sviðum. Þetta hefur mestu áhrif í sambandi við byggðarröskun út um landsbyggðina sem í gangi er. Einnig er, eins og allir vita, framlenging búvörusamningsins nú í meðferð og væntanlega verður hægt að greina frá því hvernig það mál stendur áður en þingi lýkur.
    Alþingi setti ný jarðræktarlög og búfjárræktarlög 1989 í samráði við fulltrúa bænda og búnaðarþing þar sem skilgreint er ljóslega hver þáttur ríkisins á að vera í meðferð þessara mála sem áður voru sífellt deiluefni. Í framhaldi þessa var gert samkomulag um fullnaðaruppgjör við bændur landsins á ógreiddum framlögum árin 1987 -- 1989 og skýrt afmarkað hvernig með slíkar greiðslur yrði farið við afgreiðslu skuldbindinga ríkissjóðs á fjárlögum hvers árs. Því miður virðist framgangur þessara mála, þrátt fyrir skýrt afmarkað samkomulag hér á hv. Alþingi, hvergi nærri fullnægjandi í framkvæmd. Ég verð því miður að lýsa vonbrigðum með framgöngu hæstv. landbrh. í þessu mikilvæga máli. Um þetta væri að sjálfsögðu hægt að flytja hér langt mál en ég stytti mál mitt vegna fjarveru hæstv. ráðherra. En ég get tekið dæmi. Samkvæmt yfirlýsingu fjmrh. og landbrh., sem var gefin út 26. mars á þessu ári, átti að vera komin uppgjörsgreiðsla í gegnum skuldabréf til bænda í síðasta lagi 1. ágúst sl. Í byrjun október sl. voru bændur ekki farnir að fá þessi bréf. Sjálfsagt væri hægt að útskýra hvers vegna, en það er staðreynd að svona var haldið á málum. Uppgjör framlaga vegna ársins 1988 að fjárhæð 107 millj. kr. eiga að greiðast til bænda eigi síðar en 1. ágúst 1991. Það væri hægt að vitna hér í sams konar yfirlýsingar sem ég hef í höndum sem fjvn. hafði um þetta mál frá bæði hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh.
    Það er ljóst að í fjárlagafrv. nú vantar mikið á að hægt sé að standa við lögboðin framlög samkvæmt nefndum lögum þrátt fyrir loforð um að við þetta verði staðið. Fjmrh. og landbrh. hafa gert samkomulag um að taka ekki fullt tillit til laganna þrátt fyrir erfiðleika í landbúnaðinum sem augljóslega blasa við öllum. Á sama tíma hafa bændur landsins tekið fullkomlega þátt í þjóðarsáttinni og vinna að því að aðlaga sig breyttum aðstæðum í markaðsmálum. Aðgerðarleysi hæstv. landbrh. í þessum mikilvægu málum er ámælisvert þrátt fyrir hans löngu ræður á fundum með bændum um allt Ísland þar sem hann fullyrðir að allt sé í lagi, meðferð hans á þessum málum muni skila málinu í höfn. Það hlýtur því að vera mikið umhugsunarefni hvað því veldur að málin standa eins og þau standa í dag.
    Þá vil ég aðeins nefna eitt mál í sambandi við landbúnaðarmálin sem sjálfsagt hefur komið hér til umræðu fyrr. Því miður var ég ekki viðstaddur þegar hv. 2. þm. Norðurl. v. flutti sína ræðu um þetta efni. En ég tel nauðsynlegt að fara nokkrum orðum um Búnaðarfélag Íslands. Eins og allir hv. alþm. vita hefur Búnaðarfélag Íslands staðið vörð um íslenskan landbúnað og allt er varðar málefni bænda á Íslandi frá stofnun þess. Búnaðarfélagið hefur átt undir högg að sækja um fjármagn til lögboðinnar starfsemi þess í áratugi. Það þekkjum við. Með bréfi sem fyrrv. landbrh. sendi frá sér í september 1988 skipaði hann nefnd sem átti að fjalla um fjárþörf Búnaðarfélagsins og hvernig greiða mætti úr þeim fjárhagsvanda er félagið á í og fjalla að nokkru um framtíðarmöguleika á fjármögnun í þessu skyni. Í þessa nefnd voru skipaðir, auk þess sem hér stendur, alþingismennirnir Egill Jónsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson og formaður sá sem hér stendur.
    Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989 kom fram í ræðu formanns fjvn. við 2. umr. fjárlaga varðandi Búnaðarfélag Íslands, með leyfi virðulegs

forseta segir þar:
    ,,Í grg. með fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að endurskoðun fari fram á starfsemi Búnaðarfélags Íslands. Með bréfi dags. 7. sept. 1988 skipaði hæstv. fyrrv. landbrh. nefnd til þessa verkefnis, þar með talið að gera tillögur um framtíðarskipun þessara mála og þann 19. okt. sl. staðfesti núv. hæstv. landbrh. skipan nefndarinnar til framhaldsstarfa. Nefndin er að störfum. Hún hefur lagt áherslu á að lagfæra fjárhag Búnaðarfélags Íslands í fjárlagafrv. 1989. Nefndin mun starfa áfram og gerir ráð fyrir að leggja fram ákveðnar tillögur varðandi framtíðarskipan verkefna og tekjustofna Búnaðarfélags Íslands er liggi fyrir við undirbúning fjárlaga fyrir árið 1990.``
    Þessi nefnd, sem hér er átt við, skilaði ákveðnum tillögum til hæstv. landbrh. í apríl 1989. Tillögurnar voru þess efnis að það var lögð til breyting á búnaðarmálasjóðsgjaldi þannig að það sem áður hafði runnið til Stofnlánadeildar landbúnaðarins rynni til Búnaðarfélags Íslands og þeirrar starfsemi sem heyrir undir félagslega þáttinn í starfsemi Búnaðarfélagsins, þ.e. búnaðarsamböndin í landinu fengju þarna ákveðinn tekjustofn sem þýddi það að ríkið losnaði við framlög til Búnaðarfélagsins sem þessu næmi. Þessar brtt., sem voru lagðar fram í tveimur frv. fyrir ráðherrann í apríl 1989, voru þess eðlis að Búnaðarfélagið eða þessi starfsemi þess sem færðist út til búnaðarsambandanna fengi yfir 30 millj. á ári.
    Hvað gerðist svo? Það gerðist að landbrh. heyktist á að flytja þessi frv. og málið var
jafnóljóst eftir sem áður í fjárlögum 1990. Og á þessu ári urðum við sem erum í fjvn. að reyna að brúa þetta bil með fjáraukalögum til að rétta hlut Búnaðarfélagsins í samræmi við það sem áður var gert í þessu máli. Ég vil geta þess hér að bæði búnaðarþing og fundur formanna allra búnaðarsambanda á Íslandi gerðu samhljóða áskorun um það að tillaga nefndarinnar gengi fram. Ég get vitnað hér, með leyfi forseta, í fund sem var haldinn 31. okt. 1989. Þar segir:
    ,,Fundurinn væntir þess að búnaðarsamböndunum verði sem fyrst tryggðir tekjustofnar til að mæta auknum verkefnum og bæta upp rýrnandi eldri tekjustofna. Í því sambandi er bent á ályktanir búnaðarþings og tillögu nefndar undir forustu Alexanders Stefánssonar alþingismanns er afhentar voru landbrh. í apríl sl.``
    Undir þetta skrifa allir formenn búnaðarsambanda landsins. Það sama gerðist síðar, að það kom sams konar áskorun til landbrh. Þetta var sem sagt ekki gert og þar með var fallið frá því að reyna að losa ríkissjóð við að fjármagna Búnaðarfélagið að þessu leyti til, heldur búa til gjaldstofn sem bændurnir sjálfir vildu leggja á sínar framleiðsluvörur, sínar eigin framleiðsluvörur, og nota til þess að standa undir þeim rekstri sem ríkið hafði lagt fram fé til áður.
    Ég má til, virðulegi forseti, í framhaldi af þessu að geta þess að loksins á síðasta þingi kom fram stjórnarfrv. frá hæstv. landbrh., frv. til laga um Búnaðarmálasjóð, þar sem hann leggur til breytingu á gjaldtöku Búnaðarmálasjóðs. Þar var ekki stafkrókur um það að Búnaðarfélagið fengi eina krónu, alls ekki,

heldur var verið að hugsa um allt aðra tilfærslu í sambandi við aðrar búgreinar, bæði að því er varðar garðyrkjumenn og svína- og alifuglabændur o.s.frv. en Búnaðarfélagið var ekki nefnt.
    Landbn. Nd. gerði það að tillögu sinni við þetta frv., sem raunar gerbreyttist í meðförum hennar, að stinga Búnaðarfélaginu þarna inn. En það fékk ekki nema mjög lítið framlag sem er ekki nema 0,1% samtals í þessum gjaldstofni, sem er ekki nema 1 / 5 af því sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir, eða áætlaðar 7 millj. kr. á ári. Þannig voru slegnar úr höndum nefndarinnar þær tillögur sem hún gerði til þess að losa ríkið við þetta vandamál sem hefur verið vandamál hér á Alþingi svo lengi sem ég man eftir í sambandi við fjármál Búnaðarfélagsins. Það var slegið hendi á það sem bændur landsins samþykktu fyrir fram, að búa til sérstakan gjaldstofn fyrir Búnaðarfélag Íslands þannig að ríkið eða fjvn. og Alþingi þyrftu ekki sífellt að leggja fram sérstök framlög til Búnaðarfélagsins að því er varðar félagsþjónustu bænda. Þetta er rétt að skýra hér vegna þess að núna í tveimur síðustu fjárlagafrv. sem hæstv. fjmrh. hefur lagt fram segir svo í athugasemdum við fjárlagafrv. um Búnaðarfélag Íslands, með leyfi forseta:
    ,,Í tengslum við gerð fjárlaga undanfarinna tveggja ára hefur verið gert ráð fyrir að heildarendurskoðun færi fram á framtíðarskipan verkefna og tekjustofnum félagsins. Aðstæður hafa breyst á þessu ári sem skýra lækkun fjárframlags úr ríkissjóði. Annars vegar hafa tiltekin verkefni verið færð frá Búnaðarfélaginu til Hagþjónustu landbúnaðarins,`` sem ég vil taka fram að nefndin lagði einnig til og landbn. Nd. umbreytti frv. hæstv. landbrh. í meðförum hér á Alþingi og náði samkomulagi við alla aðila um það að bæði Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands yrðu þátttakendur í þessari Hagþjónustu landbúnaðarins. Þannig náðist víðtækt samkomulag um þá tilfærslu. --- ,,Hins vegar fær félagið aukið starfsfé með nýsettum lögum nr. 41/1909, um Búnaðarmálasjóð. Framlag úr ríkissjóði miðast við að félagið geti staðið undir þeim verkefnum sem ríkissjóði er lögum samkvæmt ætlað að greiða. Það á fyrst og fremst við um ráðunautaþjónustu í landbúnaði og skýrsluhald`` o.s.frv.
    Enn á ný er tilgreint að það sé þessi nefnd sem eigi að sjá um fjármál Búnaðarfélagsins í fjárlagagerðinni, eftir að fjárlögin hafa verið sett fram. Þar af leiðandi var ekkert óeðlilegt að við í fjvn. óskuðum eftir nákvæmri útfærslu á því hvað kostnaður við Búnaðarfélagið er í raun og veru þegar búið er að draga frá þær 7 millj. kr. sem bændur landsins taka á sig til þess að standa undir þeirri félagslegu þjónustu sem þeim ber, sem er eins og ég sagði áðan ekki nema 1 / 5 af því sem nefndin lagði til. Hvað skeði þá? Það lá ljóst fyrir að nákvæmlega sama gerðist og á árinu 1990, það vantaði um 15 -- 16 millj. kr. til að standa við lögboðn framlög til Búnaðarfélagsins. Og hvað kemur þá? Það kemur sameiginleg niðurstaða frá hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. Ég vil taka fram með innskoti að landbrh. var áður búinn að skrifa nefndinni og koma í eigin persónu á fund hennar til að lýsa

því yfir að hann teldi að fjvn. ætti að skila Búnaðarfélaginu því sem því ber samkvæmt lögum. Síðan kemur bréf frá sama ráðherra og hæstv. fjmrh. þar sem þeir gera sameiginlega tillögu um eftirtaldar breytingar á frv. til fjárlaga fyrir 1991, Búnaðarfélag Íslands, með leyfi forseta:
    ,,Gerð er tillaga um að hluti Búnaðarfélagsins af búnaðarmálasjóðsgjaldi`` --- þ.e. gjaldi sem bændur leggja sjálfir á sig --- ,,sem er áætlað 7,5 millj. kr. á næsta ári reiknist ekki að fullu til lækkunar á framlagi ríkisins til félagsins. Miðað er við að helmingur teknanna komi til frádráttar á næsta ári. Framlag úr ríkissjóði hækkar því um 3,5 millj. kr. vegna þessa og færist á viðfangsefnið Sérfræðileg aðstoð við landbúnaðinn. Að auki hækki framlag á sama viðfangsefni um 3 millj. kr. vegna ákvæðis 12. gr. búfjárræktarlaga nr. 84 og 89 sem kveður á um að ríkissjóður greiði laun aðstoðarfólks við uppgjör og úrvinnslu ræktunarskýrslna.`` Framlagið til Búnaðarfélagsins hækkar þá samtals um 6,5 millj. kr. í staðinn fyrir tæpar 16 millj.
    Miðað við þessi málalok get ég ekki staðið í því að vera tilnefndur í athugasemd með fjárlögum núna tvö ár í röð um að við eigum að sjá um að við þetta verði staðið. Ég hef enga stöðu til að ganga gegn sameiginlegu áliti hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh. Ég tók þá ákvörðun, hæstv. fjmrh., að vísa þessu máli algerlega á hendur hæstv. landbrh. sem er tví - og þrísaga í meðferð málsins gagnvart fjvn. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er hálfömurlegt til þess að vita að enn á ný þurfi í fjáraukalögum fyrir árið 1990, sjálfsagt eftir áramótin, að bæta við 10 millj. kr. á Búnaðarfélagið vegna þess að hæstv. ráðherrar hafa ekki þorað og ekki getað staðið við það samkomulag sem var búið að gera. Ég mun beita mér fyrir því og lýsi því yfir hér að sem ábyrgðarmaður fyrir þessari nefnd margumtalaðri sem skilaði ákveðnum tillögum til þess að leysa þetta mál til framtíðar, þá get ég ekki annað gert en að beita mínu afli til þess að inn á fjáraukalög komi það sem á vantar. Og það mun ég að sjálfsögðu gera. En ég hlýt að varpa þessari ábyrgð á herðar hæstv. landbrh. sem fer um landið þvert og endilangt til að fullvissa bændur landsins um að hann sem landbrh. tryggi meðferð þessara mála og öryggi bænda í landinu. Það er vissulega umhugsunarefni fyrir bændur sem trúa á Alþb. að átta sig á þessari stöðu. Það er kominn tími til. Ég tel þetta trúnaðarbrot við bændur, ekki síst við búnaðarþing og þá aðila sem hafa gengið vasklega fram í því að koma þessum málum á fastan grunn og losa ríkið við félagsþjónustu bænda, standa undir henni sjálfir af sinni eigin framleiðslu. Það er málið.
    Virðulegi forseti. Ég verð að biðja afsökunar á því að ég þurfti nauðsynlega að koma þessu fram, ekki síst vegna þeirrar umræðu sem er þegar hafin meðal samtaka bænda og hér á hinu hv. Alþingi. Þetta er ekki stórmál en þetta er lýsandi dæmi um það hvernig á ekki að standa að málum. Og ég fullyrði að við þremenningar í þessari nefnd, hv. þm. Egill Jónsson og Jón Sæmundur Sigurjónsson og aðstoðarmaður núv.

landbrh., Ásthildur Ólafsdóttir, töldum okkur vera að gera rétta hluti, að losa bændasamtökin, Búnaðarfélagið, undan því sem hefur verið kallað meðal þjóðarinnar betlistarf, að reyna að fá peninga til reksturs Búnaðarfélags Íslands. Það var kjörið tækifæri að gera á þann einfalda hátt að bændur samþykktu að skattleggja sjálfa sig, sína framleiðslu til að standa undir þessum rekstri. Ekki meira um það.
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins minnast á örfá atriði sem koma til meðferðar nú við 2. umr. Ég vil lýsa ánægju yfir því að samstaða tókst í fjvn. um að gera mögulegt að byggja sundlaug við Íþróttakennaraháskólann á Laugarvatni sem er liður í því sem þarf að gera til þess að gera þar íþróttamiðstöð sem fyrir löngu er búið að ákveða við þetta stóra íþróttahús sem þar er. Og það hittist svo á að engin sundlaug er við skólana á Laugarvatni. Gamla sundlaugin er hrunin og nemendur verða þá að baða sig í vatninu eftir því sem veðráttan leyfir. Þetta mál er nú leyst þannig að hægt verður að byggja útisundlaug á Laugarvatni næsta sumar sem er mikilvægur áfangi. Einnig þarf nú að fá fjármagn til þess að endurbyggja að hluta íþróttavöllinn eða íþróttasvæðið því að það er ákveðið að halda Íslandsmót á vegum ungmennasamtakanna innan tveggja ára. Vinna þarf skipulega að uppbyggingu íþróttamiðstöðvar á Laugarvatni.
    Ég vil aðeins minnast á flugmálaáætlun því ég veit að margir hv. þm. eru að spyrja um það hvort fjvn. hafi ekkert gert í sambandi við flugmálaáætlunina sem átti að gilda fyrir yfirstandandi ár. Hér hefur komið fram í utandagskrárumræðum að Flugmálastjórn hafði ekki farið að þeirri áætlun sem fyrir lá heldur voru færðar milli ára, eins og þeir kalla, 70 -- 80 millj. kr. og margar framkvæmdir í landinu hófust ekki á yfirstandandi ári. Ég vil upplýsa það hér að fjvn. hefur krafist þess að flugmálaáætlun fyrir árið 1991 verði lögð fram á þessu þingi og við vitum ekki annað en það verði gert.
    Það væri hægt að ræða hér um mörg önnur mál. Ég ætla að sleppa því. Ég vil taka undir það með formanni fjvn. hversu brýnt er orðið að Alþingi eða stjórnvöld marki ákveðna stefnu í sambandi við viðhald og endurbyggingu gamalla húsa sem eru mikilvæg í öllu kerfinu. Það er löngu orðið tímabært og það er hörmulegt til þess að vita að t.d. muni kosta 700 -- 800 millj. að koma Þjóðminjasafninu í nothæft stand. Það er full ástæða að taka vandlega til athugunar við 3. umr. þegar 6. greinar málin koma til meðferðar hvort ekki er hægt að hugsa eitthvað öðruvísi fyrir framtíð þessara mála.
    Ég vil svo að lokum þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir ánægjulegt samstarf eins og áður við þessa fjárlagagerð og taka undir þakkir til þeirra fjölmörgu sem hafa aðstoðað nefndina, bæði starfsmenn Fjárhags - og hagsýslustofnunar, fjmrn., Ríkisendurskoðunar og starfsmenn Alþingis sem hafa orðið að þjóna nefndinni á allt of stuttum tíma. Ég verð að segja það hér án þess að kasta rýrð á nokkurn hér inni á hv. Alþingi að ég hygg að það væri ástæða til að þingmenn áttuðu sig á því almennt hvernig þetta

álag er sem hvílir á nefnd sem á að fjalla á örstuttum tíma um veigamestu mál sem Alþingi hefur til meðferðar, erindi frá hundruðum og aftur hundruðum úr þjóðfélaginu því þessi nefnd er opin fyrir slíkum erindum. Það er þess vegna löngu orðin þörf á að breyta þessu fyrirkomulagi.