Fjárlög 1991
Föstudaginn 14. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. 2. þm. Vestf. Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir að vekja sérstaka athygli á þessum liðum. Hér er m.a. gert ráð fyrir nokkru framlagi til Lífeyrissjóðs bænda, en það var upplýst á fundi fjh.- og viðskn. í morgun að sá lífeyrissjóður geti einungis staðið undir um 60% af þeim skuldbindingum sem hann hefur tekið á sig lögum samkvæmt. Þetta er auðvitað lýsandi fyrir hvernig að málum er staðið í þessari fjárlagagerð og hversu naumt er skammtað. En þó er halli svo rosalegur að vinnuveitendum hrýs mjög hugur við, hvað þá öðrum landsmönnum. Ég sé ekki hvernig fer, ef svo heldur fram í ríkisfjármálunum, ef einmitt þessir liðir sem hv. þm. vakti athygli á eru lýsandi um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar. Ég ber ekki ábyrgð á þessu, hæstv. forseti, og greiði ekki atkvæði.