Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 14. desember 1990


     Frsm. heilbr.- og trn. (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 306 frá hv. heilbr.- og trn.
    Nefndin hefur fjallað nokkuð ítarlega um frv. og fékk á sinn fund Finn Ingólfsson, aðstoðarmann heilbr.- og trmrh., Jóhannes Pálmason, framkvæmdastjóra Borgarspítalans, Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúa, Davíð Á. Gunnarsson, forstjóra ríkisspítala, Árna Björnsson yfirlækni og Loga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landakotsspítala, en þessir menn sátu allir í þeirri nefnd sem samdi frv.
    Nefndin telur rétt að leggja til eina breytingu á skipun samstarfsráðs sjúkrahúsanna í Reykjavík. Í stað þess að tveir fulltrúar séu skipaðir af ráðherra til eins árs í senn er lagt til að sá heilbr.- og trmrh., sem gegnir embætti hverju sinni, skipi tvo menn, en annar þeirra skal tilnefndur af stjórnarnefnd ríkisspítala.
    Er sjálfsagt að sá ráðherra, sem gegnir embætti hverju sinni, geti haft sinn fulltrúa í samstarfsráðinu. Einnig taldi nefndin eðlilegt að jafnstór spítali og ríkisspítalarnir eru, sem eru í raun fimm sjúkrahús, fái að tilnefna annan fulltrúann sem ráðherra skipar.
    Aðrar breytingar eru ekki efnislegar heldur lagatæknilegar til þess að þessi breyting sem gerð er á lögunum falli eðlilega inn í uppbyggingu laganna, en lagt er til að allur textinn verði í einni málsgrein. Einnig er lagt til að 2. gr. laganna falli brott þar sem ákvæði í upphafi 1. gr. eins og brtt. gerir ráð fyrir að hún hljóði, að röð málsgreina breytist, gerir það að verkum að greinin er óþörf.
    Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þskj.
    Undir nál. rita Guðrún J. Halldórsdóttir, Karl Steinar Guðnason, Margrét Frímannsdóttir og Valgerður Sverrisdóttir. Salome Þorkelsdóttir ritar undir með fyrirvara. Aðrir nefndarmenn voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins.