Virðisaukaskattur
Föstudaginn 14. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988. Meginefni þess eru breyttar reglur um tekjuskráningu í tengslum við virðisaukaskatt, einkum við sjóðvélar eða svonefnda peningakassa og notkun þeirra. Að auki er lagt til að gerðar verði nokkrar smávægilegar breytingar á lögunum ti lagfæringar og samræmingar við önnur lög og reglur eða til skýringar og áherslu.
    Traust tekjuskráning í fyrirtækjum er ein af meginundirstöðum þess að hægt sé að halda úti virku og réttlátu neysluskattskerfi og einnig til þess að tryggja jafnrétti milli fyrirtækja, sérstaklega í þágu þeirra sem standa í skilum og hafa allt sitt á hreinu.
Við breytingar á skattkerfinu á undanförnum áratug hefur verið lögð sífellt meiri áhersla á þennan þátt. Sjóðvélar, eða peningakassar eins og þær eru kallaðar í daglegu máli, hafa skipað hér sífellt meira rúm og kröfur verið gerðar um rétta notkun og búnað í slíkum vélum enda hefur nútímatækni gert að verkum að með þeim má nú vinna verk með einu handtaki og fullkomnu öryggi sem áður þurfti verulega yfirlegu. Eftir umskiptin úr söluskatti yfir í virðisaukaskatt hefur fjmrn. í samráði við embætti ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra beint sérstakri athygli að tekjuskráningu í viðskiptum. Allir vita að tekjuskráningunni er víða ábótavant. Bæði meðal skattrannsóknarmanna og almennings hefur lengi leikið grunur á um umtalsverða undandrætti frá skatti í tengslum við ranga eða ófullnægjandi tekjuskráningu.
    Ákveðið var í upphafi árs að ráðast í sérstakt átak til endurbóta á þessu sviði. Var talið hyggilegt að beina sjónum í fyrsta áfanga einkum að sjóðvélum eða peningakössum. Eðlilegt er að beina kröftunum sérstaklega að því að ná fullu öryggi og tryggari tekjuskráningu í almennri smásöluverslun. Slíkt átak er á vissan hátt undirstaða þess að hægt sé að ráðast í önnur brýn verkefni á þessu sviði.
    Átak fjmrn. og viðkomandi embætta fólst í víðtækri fræðslustarfsemi þar sem gefnir voru út kynningarbæklingar og þær reglugerðir, sem í gildi hafa verið, hafa verið kynntar sérstaklega. Einnig fóru fram viðræðufundir og samráðsfundir með samtökum viðskiptalífsins til þess að ræða þessi mál sérstaklega. Þær reglugerðir sem ég hef hér vikið að eru reglugerðir nr. 531 og 501 frá 1989. Einnig var framkvæmt sérstakt kynningarátak með auglýsingum í blöðum og sjónvarpi er bar heitið Öryggi í viðskiptum, heiðarleg skattskil, þar sem rækilega var útskýrt fyrir almenningi og stjórnendum viðskiptalífsins hvaða atriði þyrftu að vera í lagi til þess að bæði viðskiptavinurinn og hlutaðeigandi fyrirtæki hefðu allt sitt á hreinu.
    Þessi kynningarherferð hlaut mjög góðar undirtektir og hefur samvinna við fjölmiðla og aðra aðila í þessum efnum verið mjög góð. Í kjölfarið var síðan ráðist í sérstaka eftirlitskönnun og gert úrtak á 500 fyrirtækjum um allt land af handahófi til að skoða hvernig hlutirnir væru í reynd. Niðurstaða þessarar

könnunar var sú að u.þ.b. tíunda hvert sjóðvélarskylt fyrirtæki hafði ekki sjóðvél eða kassa og hafði ekki sótt um leyfi til annarrar tekjuskráningar hjá ríkisskattstjóra. Það vakti síst minni athygli að hjá 5 -- 10% þeirra fyrirtækja sem hafa sjóðvélar eða peningakassa var alvarlegur misbrestur á tæknilegum útbúnaði kassans. Sjóðvélar þessara fyrirtækja höfðu ýmist engan ytri strimil eða kassakvittun eða skorti þann innri búnað sem nauðsynlegur er fyrir rekstrareftirlit og myndar ómissandi hluta af bókhaldsgögnum viðkomandi fyrirtækja. Þá kom í ljós að aðeins þrír af hverjum fimm kössum uppfylltu reglurnar um að neytandinn, viðskiptavinurinn, geti fylgst með því að viðskipti séu rétt skráð.
    Ég vil í þessu sambandi geta þess að á fjölmörgum viðræðufundum sem ég hef átt með forustumönnum samtaka viðskiptalífsins, bæði samtökum kaupmanna og Verslunarráðsins, hefur komið fram hvað eftir annað sá eindregni vilji þeirra og stefna að þeir telja nauðsynlegt að þessir hlutir séu allir í lagi til þess að eðlilegt trúnaðartraust ríki milli viðskiptavina og fyrirtækja og sérstaklega til þess að með lélegu eftirliti sé ekki verið að mismuna fyrirtækjum þannig að þau fyrirtæki sem skjóta sér undan gildandi reglum geti þannig styrkt samkeppnisstöðu sína á kostnað þeirra fyrirtækja sem fylgja heiðarlega og rétt öllum gildandi reglum.
    Það var ánægjulegt við þá könnun sem ég gat um áðan að hún sýndi þó að ástandið hafði batnað mjög frá því að hliðstæð könnun hafði verið gerð áður. Þessar niðurstöður voru svo kynntar rækilega í fjölmiðlum. Ég hélt sérstakan viðræðufund með samtökum í viðskiptalífinu um niðurstöður könnunarinnar og þann vanda sem þær fólu í sér. Í gildandi lögum eru margvísleg ákvæði sem heimila opinberum aðilum að grípa til ráðstafana ef fyrirtæki og aðilar standa ekki í skilum með þann skatt sem þeim er ætlað að greiða samkvæmt lögum. Hins vegar hefur skort í lögum heimildir til þess að grípa til sams konar aðgerða ef fyrirtæki og rekstraraðilar skrá ekki rétt skattgreiðslurnar eða fylgja ekki eðlilegum reglum varðandi bókhald, kassasjóðvélar og annað það sem þarf til þess að tryggja að hlutirnir séu rétt skráðir. Má í því sambandi geta þess að í nágrannalöndum okkar og t.d. í Bandaríkjunum eru mjög hörð ákvæði í lögum um þetta atriði þar sem gengið er út frá þeirri grundvallarreglu að jafnmikilvægt sé að hlutirnir séu rétt skráðir eins og að staðið sé í skilum með það sem mönnum ber að greiða.
    Í því frv. sem ég mæli hér fyrir er lagt til að veita þessar heimildir og er mælt fyrir um það að ef athugun leiðir í ljós að hlutir séu ekki í lagi samkvæmt gildandi reglum séu send viðvörunarbréf og leiðbeiningar um það hvernig fara beri að til þess að koma hlutunum í lag. Ef þessu sé hins vegar ekki sinnt sé hægt að grípa til aðgerða í samræmi við þær venjur sem tíðkast ef menn standa ekki í skilum með að greiða þann skatt sem þeim ber.
    Í frv. kemur einnig fram að gerðar eru nokkrar aðrar minni háttar breytingar til þess að skýra nánar

framkvæmd virðisaukaskattslaganna og lagfæra þau, t.d. varðandi leigu tjaldstæða og bifreiðastæða og útleigu veitinga- og samkomuhúsnæðis. Það hefur komið fram hjá fulltrúum þeirra sem reka hótel og veitingastarfsemi að nauðsynlegt sé líka að tryggja jafna samkeppnisaðstöðu með því að allir aðilar sem leigja samkomusali og stunda þennan rekstur sitji við sama borð í þessum efnum. Með þessum breytingum er reynt að tryggja að svo sé.
    Virðulegi forseti. Þess má einnig geta að í 7. gr. frv. er kveðið á um heimilaðar endurgreiðslur til erlendra fyrirtækja sem geti náð til varnings sem þau hafa selt til landsins en ekki einungis vegna skatts í tengslum við útflutning héðan.
    Virðulegi forseti. Það hefur hvað eftir annað komið fram í umræðum hér á Alþingi, og vil ég í því sambandi sérstaklega nefna hv. þm. Ólaf Þ. Þórðarson og einnig ágæta ræðu sem hv. þm. Alexander Stefánsson hélt í umræðu um fjárlögin, að þingmenn hafa eindregið hvatt til þess að gerðar yrðu breytingar á lögum og reglum sem hér er lagt til að séu gerðar.
    Ég hef líka orðið mjög var við það að sú breyting sem orðið hefur í innheimtumálum ríkisins á síðasta ári, þótt hún væri kannski í fyrstu umdeild, nýtur nú mikils stuðnings, bæði meðal almennings í landinu og þeirra samtaka atvinnulífsins sem vilja í senn byggja upp heilbrigð rekstrarskilyrði atvinnulífsins en líka stuðla að því að sterk siðferðiskennd og hollusta við reglur og lög séu afgerandi í okkar þjóðfélagi. Ég tel þess vegna mjög mikilvægt að þetta frv. geti orðið að lögum hér fyrir áramót svo að hægt sé á nýju ári að tryggja í senn rétt og góð skil á þeim fjármunum sem ber að skila í hinn sameiginlega sjóð landsmanna og svo hins vegar að tryggja að öll fyrirtæki í atvinnulífinu sitji við sama borð. Ég mælist til þess að að lokinni 1. umr. verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh. - og viðskn.