Virðisaukaskattur
Föstudaginn 14. desember 1990


     Ásgeir Hannes Eiríksson :
    Virðulegi forseti. Þegar skattar eru hér á dagskrá megum við aldrei gleyma uppruna okkar og ferð fyrsta landnámsmannsins sem hratt fram skipi sínu í Noregi og lagði af stað hingað vegna þess að skatturinn í því landi var honum ekki að skapi. Hv. 2. þm. Vestf. hefur bent á það að Íslendingar hafa heiðrað þetta sjónarmið á ekki lakari hátt en með því að reisa styttu af þessum landnámsmanni við hliðina á sjálfu fjmrn.
    Þegar skatt ber á góma er rétt að skoða hversu mikið við þolum af skatti án þess að afkomendur þessa fyrsta mótmælamanns skattheimtunnar ýti sínum bátum úr vör og flýi héðan. Þetta er nú sennilega það sem skiptir mestu máli þegar rætt er um skatta. Stöðugt er verið að setja undir lekann og fylla upp í þær eyður sem sums staðar finnast og stöðugt þyngist sú byrði sem við berum öll saman.
    Hér er gert ráð fyrir ýmissi samræmingu á virðisaukaskatti. Fagna ég því að hér skuli salir félagasamtaka og annarra vera settir undir sömu grein og veitingahúsin þannig að báðir aðilar borgi fullan skatt en félagasamtökin komist ekki upp með það að keppa við veitingahúsin á þeirri forsendu að þurfa ekki að borga þá skatta og þau gjöld sem húsin hafa hingað til greitt. Það er bót að því.
    Hins vegar óttast ég að með þessum breytingum verði hert nokkuð að torgsölu hér á landi en umfangsmikil torgsala er í gangi eins og við könnumst við í Kolaportinu og víðar. Það er sú tegund af sölumennsku sem ég sé ekki í fljótu bragði að eigi að skattleggja á þann hátt sem sjóðvélar gera ráð fyrir. Sérstaklega er ég með í huga líka þá veitingasölu á torgum þar sem ekki er notað rafmagn, eins og pylsuvagninn í Austurstræti, sem ég þekki nú einna best til, sem er drifinn með gasi. Í þeim vagni er ekki hægt að koma fyrir sjóðvél. Spurningin er því: Hvað á að gera við vagninn? Á að loka honum, á að taka af honum leyfið eða á að fella hann undir lög sem hann getur á engan hátt nýtt vegna þess að hann verslar ekki við Landsvirkjun heldur við Olíufélagið Skeljung og notar innflutt gas? Eða á að skylda Pylsuvagninn til þess að taka inn rafmagn? Þetta eru hlutir sem ég er að velta fyrir mér og vonast til þess að fá svar við hjá hæstv. fjmrh.
    Þessari merkilegu torgsölu í Kolaportinu í Reykjavík er stefnt í voða. Þá megum við ekki einblína á að þar kunni að velta nokkrar krónur fram hjá ríkiskassanum heldur erum við að svipta bæjarfélagið merkilegri starfsemi. --- Ég vona að hæstv. fjmrh. hafi heyrt merginn í því sem ég hef verið að segja.
    Þó peningar kunni að renna fram hjá skattheimtunni er það ekki glatað fé. Þeir peningar gufa ekki upp. Ef maður situr einhverra hluta vegna uppi með pening sem hann getur ekki fært inn í sitt bókhald, þá getur hann heldur ekki eytt honum á annan hátt en í beina eyðslu. Hann getur ekki notað hann þar sem hann þarf að gera grein fyrir honum í bókhaldi. Svo einfalt er það. Peningarnir gufa ekki upp, þeir verða

eftir og skapa meiri viðskipti sem aftur gefa af sér meiri skatta. Við megum ekki gleyma því að peningar sem fara fram hjá skattkerfinu eru ekki peningar sem glatast þjóðfélaginu. Þeir halda áfram inni í því, búa til nýja veltu. Slíkir peningar eru ekki af hinu vonda.
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir gott hljóð.