Virðisaukaskattur
Föstudaginn 14. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir framlagningu þessa frv. sem miðar öll að því að þær greiðslur sem þjóðin greiðir í gegnum virðisaukaskattinn komist á leiðarenda, þ.e. í ríkissjóð.
    Hv. 16. þm. Reykv. þakkaði fyrir gott hljóð og það má minna á það að Einar Ben. orðaði það svo: ,,Mælist þér best verða aðrir hljóðir`` og tvímælalaust voru margar hans vangaveltur á þann veg að þær eru vissulega þess eðlis að þær snerta grundvallarviðhorf, eins og það hve hátt á að fara með heildarskattheimtu, hvenær hættir heildarskattheimta að skila sér. Það eru allir sammála um það að ef við værum með enga skattheimtu, þá kæmi náttúrlega ekkert í kassann. En það er líka hægt að fara svo hátt að hún skili engu vegna þess að menn forða sér eða gefa upp alla sjálfsbjargarviðleitni.
    Ég aftur á móti skil það svo í umsögn hans um veitingasalina, sem hann vill með réttu að geti ekki keppt við samkomuhús og eðlilegan rekstur með því að starfa án þess að sitja uppi með sömu gjöld, að hann líti svo á að réttlæti innan kerfisins skipti að sjálfsögðu mjög miklu máli. Það hlýtur að vera grundvallaratriði að kerfið sé þannig uppbyggt að sá sem heiðarlega stendur að skilum sé ekki dæmdur til að tapa, sé ekki dæmdur til að lenda endanlega undir og verða að hætta sínum rekstri. Það er mjög alvarlegur hlutur. Þess vegna er það grundvallaratriði gagnvart verslunarrekstri í landinu að það séu eðlileg skil á þessum skatti.
    Ég hjó eftir því í ræðu fjmrh. að hann vitnaði til Bandaríkjanna og þeirra mjög svo ákveðnu lagasetningaratriða sem gilda um það að menn virði fyrirmæli ríkisins og sveitarfélaga um eftirlit með skráningu þess fjármagns sem fer í gegnum hendur fyrirtækjanna. Þegar New York borg var með 4% eða 5% skatt, þá var hún með eftirlit, mjög strangt eftirlit með því að sá skattur kæmist á leiðarenda. Íslendingar hafa verið með skatt yfir 20% en eftirlitið hjá þeim hefur allt verið í molum. Og þá væri framtak manna lítið á Íslandi miðað við Ameríku ef menn reyndu ekki að bjarga einhverju undan af 20% skatti þegar þeir vita að þeir þurfa að hafa slíkt eftirlit með 4% eða 5% skatti. Þess vegna er það grundvallaratriði að þetta eftirlit sé í lagi.
    Ég geri mér grein fyrir því að það er rekin torgsala undir Seðlabankahúsinu í húsnæði sem er byggt af ríkinu, opinberum aðilum. --- Hv. 5. þm. Austurl. gerir hér athugasemdir en svo hógværlega að ég nem ekki að heyra það. ( KrP: Fyrir eigið fé.) Fyrir eigið fé, segir hann og hvað um það. --- Sú starfsemi hlýtur því eins að vera með eðlilegum hætti að hún valdi ekki þeim sem hafa byggt sjálfir sitt verslunarhúsnæði og reka það eftir réttum leiðum óeðlilegri samkeppni. Ég er ekki að segja að hún geri það því að sala á gömlum munum getur átt rétt á sér mjög víða.
    Þá er eitt stórt vandamál eftir og það er pylsuvagninn í Austurstræti. Nú lifum við á 20. öld, þeirrar mestu tæknivæðingar sem menn hafa heyrt sögur

fara af. Og á það verður nú mjög að reyna hvort tækniþekking Íslendinga sé ekki það mikil á þessari öld, þegar aðrar þjóðir hafa komið gervitunglum á ferð kringum hnöttinn, að við ráðum við vandamálið með pylsuvagninn. En það veit ég að Vestfirðingar eiga slíkan skörung í sýslumannssæti og bæjarfógetasæti að hann mundi aldrei láta það viðgangast að pylsuvagn yrði til þess að brjóta landslög í því umsagnarumdæmi sem hann gegnir embætti í.