Opinber réttaraðstoð
Föstudaginn 14. desember 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að flytja þetta mál. Ég tel að það sé grundvallarviðhorf okkar Íslendinga að allir eigi að vera jafnir fyrir lögum og því aðeins er það framkvæmanlegt að þeir sem efnaminni eru eigi kost á því að geta leitað eftir gjafsókn í málarekstri sem þeir ella gætu ekki staðið að, en að hinna bestu manna yfirsýn hefðu mikla möguleika til að vinna samkvæmt öllum eðlilegum leikreglum. Ég tel að með flutningi þessa frv., sem ég vona að verði að lögum, séum við að stíga stórt skref og við erum að nálgast mjög þá stefnu sem Norðurlönd hafa haft í þessum málum um alllangt skeið.