Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 14. desember 1990


     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason) :
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, og leyfi mér tímans vegna að vísa til ítarlegrar framsöguræðu um frv. þetta í Ed. í seinustu viku, en mál þetta hefur þegar verið afgreitt þaðan eins og sést á þingskjölum. Mig langar þó að fylgja því úr hlaði með örfáum orðum því að hér er um veigamikið mál að ræða og ég vænti þess að það sé líka afar þýðingarmikið þó svo það láti ekki mjög mikið yfir sér í sjálfri frumvarpsgerðinni.
    Frá því að lög um heilbrigðisþjónustu tóku gildi 1974 hafa verið í þeim ákvæði um skiptingu sjúkrahúsa í flokka eftir tegund og þjónustu. Þar á meðal var heitið svæðissjúkrahús og gert ráð fyrir að svæðissjúkrahús eitt sér eða í samvinnu við önnur veitti sérfræðiþjónustu í öllum eða sem flestum greinum læknisfræðinnar. Með þessu nafni, svæðissjúkrahús, var þá fyrst og fremst haft í huga að stóru sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík, Landakotsspítali, Borgarspítali og Landsspítali, hefðu með sér skipulagsbundna samvinnu.
    Í lögunum var gert ráð fyrir að ráðherra setti reglugerð um flokkun sjúkrahúsa í landinu öllu í samráði við Landssamband sjúkrahúsa. Drög að slíkri reglugerð voru samin á árunum 1981 -- 1982 en af ýmsum ástæðum, og þá einkum vegna deilna um verkaskiptingu sjúkrahúsanna í Reykjavík eins og gert var ráð fyrir henni í reglugerðinni og verksvið ýmissa sjúkrahúsa á landsbyggðinni, var reglugerðin aldrei sett.
    Í gildandi lögum um heilbrigðisþjónustu segir svo í 24. gr., lið 3:
    ,,Ráðherra skal með reglugerð kveða á um samvinnu sjúkrahúsa í landinu að höfðu samráði við Samband ísl. sveitarfélaga.``
    Að vel athuguðu máli er það álit þeirra sem um málið hafa fjallað nú að til viðbótar þessari reglugerðarheimild ráðherra komi inn í lögin nýr töluliður í 24. gr. sem kveði á um það með hvaða hætti samvinna sjúkrahúsanna í Reykjavík verði og skuli það vera lögskipað.
    Forsaga þessa máls er sú að árið 1984 var sett á laggirnar svokölluð samvinnunefnd sjúkrahúsa. Í upphafi voru eingöngu fulltrúar sjúkrahúsanna í Reykjavík í nefndinni. Síðar bættust fulltrúar frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri í þessa nefnd auk fulltrúa frá ráðuneyti, landlækni og Tryggingastofnun ríkisins. Á sl. ári skipaði ég síðan nefnd til að kanna enn á ný alla möguleika á auknu samstarfi sjúkrahúsanna á höfuðborgarsvæðinu eða sameiningu þeirra í eina eða fleiri stofnanir. Var það m.a. gert eftir viðræður við fulltrúa þessara sjúkrahúsa og hugmyndir fulltrúa Landakotsspítala og Borgarspítalans um nána samvinnu eða sameiningu þeirra stofnana, en einnig höfðu gengið á fund minn fulltrúar frá ríkisspítulum, þar af nokkrir yfirlæknar, sem lýstu þeirri skoðun sinni að enn frekari hagræðingu væri hægt að ná með meiri og betri samvinnu, hugsanlega samruna stóru sjúkrahúsanna tveggja, Borgarspítalans og Landspítalans, og eftir atvikum Landakots, en það skipti þó minna máli í þeirra huga. Því taldi ég rétt og eðlilegt að skipa nefnd til þess að kanna þessa möguleika að nýju.
    Í nefndinni áttu sæti framkvæmdastjórar stóru sjúkrahúsanna þriggja, þ.e. Borgarspítala, ríkisspítala og Landakotsspítala, og yfirlæknar sömu stofnana, fulltrúi borgarstjórnar í Reykjavík og tveir fulltrúar frá heilbr. - og trmrn. og var annar þeirra formaður í nefndinni. Þessi nefnd lauk störfum nú á haustmánuðum og skýrsla nefndarinnar fylgir með frv. sem fskj.
    Varðandi efni frv. skal það tekið fram að 1. gr. þess gerir ráð fyrir því að það komi nýr 3. tölul. í 24. gr. laga nr. 97/1990. Þar er gert ráð fyrir að ráðherra skipi fimm manna samstarfsráð sjúkrahúsanna í Reykjavík, þ.e. Borgarspítala, Landspítala og ríkisspítalanna. Í þessu ráði eiga sæti formenn stjórna spítalanna þriggja og auk þess tveir fulltrúar skipaðir af ráðherra. Nokkur ágreiningur var uppi í nefndinni sem ég skipaði í fyrra og fjallaði um málið, um hvernig þetta samstarfsráð sjúkrahúsanna skyldi skipað. Ég vænti þess hins vegar að eins og málið kemur nú frá Ed., með þeim breytingum sem heilbr.- og trn. Ed. lagði til og deildin síðan hefur samþykkt, þá sé samkomulag orðið um skipan ráðsins. Þar voru gerðar smávægilegar breytingar á sem þó gætu skipt sköpum um það að ná þarna fullri samstöðu.
    Þar er gert ráð fyrir því að annar af þessum ráðherraskipuðu fulltrúum sé tilnefndur af stjórnarnefnd ríkisspítalanna og jafnframt er smávægileg breyting gerð á því hversu lengi þeir skuli sitja.
    Í frv. eins og ég lagði það fram var gert ráð fyrir því að þessir tveir ráðherraskipuðu fulltrúar sætu aðeins til eins árs í senn en í brtt. heilbr.- og trn. Ed. og eins og frv. lítur nú út er gert ráð fyrir því að þessir tveir fulltrúar séu skipaðir af þeim ráðherra sem gegnir embætti heilbr. - og trmrh. hverju sinni þannig að skipan þeirra fylgi setu ráðherra í embætti. Reyndar má segja að hvort tveggja þjóni sama tilgangi, þ.e. það er gert ráð fyrir að nýr ráðherra geti skipt um þessa fulltrúa ef honum þykir það nauðsynlegt. Formaður ráðsins er síðan kosinn af ráðinu sjálfu úr hópi fulltrúa sjúkrahúsanna til tveggja ára í senn.
    Það er gert ráð fyrir því að ráðið sé tengt því sjúkrahúsi sem formaðurinn er frá hverju sinni og að framkvæmdastjóri þess sjúkrahúss sé framkvæmdastjóri ráðsins þannig að það er ekki gert ráð fyrir neinni nýrri stofnun eða aukastarfsliði í kringum þetta samstarfsráð.
    Aðalhlutverk ráðsins er að gera tillögur um mótun framtíðarstefnu þessara þriggja sjúkrahúsa, starfssvið þeirra og verkaskiptingu og áætlanir um fjárfestingar og stuðla þannig að sem hagkvæmastri verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna í framtíðinni. Gert er ráð fyrir að tillögur samstarfsráðsins verði lagðar fyrir stjórnir sjúkrahúsanna áður en þær eru sendar til heilbrrn. Auk þess skal samstarfsráðið fylgjast með að sjúkrahúsin starfi innan þess fjárlagaramma sem þeim er settur í fjárlögum. Um það sem hér er talið er gert ráð fyrir að samstarfsráð annist þau verkefni sem heilbrigðismálaráð Reykjavíkurlæknishéraðs á að hafa með

höndum en snertir þessi sjúkrahús þannig að þau munu ekki eiga fulltrúa í heilbrigðismálaráði Reykjavíkurlæknishéraðs. Þetta verður að teljast eðlilegt þar sem verkefni heilbrigðismálaráða er gerð tillagna og áætlanir um framgang og forgang verkefna á sviði heilbrigðismála, svo og skipulagning á starfi heilbrigðisstofnana í héraðinu en samkvæmt þessu frv. er gert ráð fyrir sérstöku ráði til að annast þessi eða hliðstæð verkefni fyrir þessi þrjú stóru sjúkrahús.
    Nú má um það deila hvort sú breyting sem hér er lögð til sé nægjanleg til þess að koma á virku samráði milli sjúkrahúsanna í Reykjavík og e.t.v. þyrfti samstarfsráðið að hafa meira raunverulegt ákvörðunar- og framkvæmdavald en því er falið með þessari lagabreytingu til að svo geti orðið. En ég vænti þess þó að hér sé um mikilvægt skref að ræða og nauðsynlegt að láta á það reyna hvort virkara samstarf með sjúkrahúsunum í Reykjavík næst með þessu fyrirkomulagi áður en aðrar og hugsanlega róttækari breytingar kunna að verða gerðar.
    Ég tel mjög mikilvægt að ná þessu frv. fram, herra forseti, nú fyrir jólahlé Alþingis þannig að ráðið geti tekið til starfa strax í upphafi nýs árs með tilliti til þeirra ákvarðana sem fjárlög þá hafa gert ráð fyrir. Eins og fjárlagafrv. lítur nú út eftir 2. umr. í hv. sameinuðu þingi, þá hefur að vísu fjárveitingum verið skipt upp á þessi sjúkrahús og gert ráð fyrir því þar hvað hvert og eitt þeirra skuli fá til ráðstöfunar á næsta ári, en þar að auki er sameiginlegur óskiptur liður sem annaðhvort ráðuneytið verður að ráðstafa eða þessi nefnd, ef ákvæði um hana verða að lögum og hún fær það hlutverk sem frv. gerir ráð fyrir.
    Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr. - og trn.