Skipan prestakalla og prófastsdæma
Föstudaginn 14. desember 1990


     Flm. (Friðjón Þórðarson) :
    Herra forseti. Á þskj. 261 hef ég leyft mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1990, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.
    Þetta frv. lætur ekki mikið yfir sér og er ekki mikið að vöxtum, aðeins það að í stað orðsins Grundarfjarðarprestakall í 4. tölul. VII. í 1. gr. laganna komi: Setbergsprestakall.
    Hinn 1. júlí 1990 gengu í gildi ný lög um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands. Frv. var samþykkt á síðasta degi 112. löggjafarþings, 5. maí 1990. Það er vitað að jafnan eru miklar annir á lokadegi þings. Má því vera að einstök mál séu ekki athuguð svo gaumgæfilega sem vera þyrfti í öllum greinum. Þannig var með þetta mál að nafninu var breytt á Setbergsprestakalli í Grundarfjarðarprestakall. Þessu vilja heimamenn ekki una þar sem nafnið á prestakallinu hefur verið það sama frá því elstu menn muna. Því er það að sóknarprestur íbúa Eyrarsveitar og sóknarnefndarformaður rituðu mér bréf, dags. 1. des., sem hér er birt sem fskj. og báðu mig að fá þessu breytt í fyrra horf, eða eins og segir í bréfinu: Það er óskað eftir að hlutast sé til um það að breyting á nefndum lögum fari fram þannig að nafn Setbergsprestakalls standi óbreytt frá því sem það var fyrir gildistöku laganna eins og það hefur verið um aldaraðir.
    Ég hef ekki fleiri orð um þetta mál en legg til að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni 1. umr. og til hv. allshn.