Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Matthías Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég hef enga löngun til þess að tefja þingstörfin eða halda hér uppi einhverjum maraþonræðum um þessi mál en ég vil byrja á því að þakka frummælanda fyrir þessa utandagskrárumræðu, fyrir það að hafa beðið um hana, fyrir þær upplýsingar sem hann gaf og jafnframt fyrir að benda á þá miklu hættu sem steðjar nú víða að. Þessi hætta steðjar að fjölmörgum einstaklingum og einkum að eigendum minni báta vítt og breitt um landið.
    Grímsey er ekki ein og sér, þó að ég geti tekið undir það sem þaðan hefur komið varðandi þá miklu skerðingu sem Grímseyingar verða fyrir. Það eru líka til aðrir staðir þar sem 10 -- 20 tonna bátar eru uppistaðan í atvinnulífinu.
    Ég vil nefna eitt lítið kauptún á landinu sem hefur lítið stundað það að gera kröfur til hins opinbera og hefur ekki verið aðgangshart, hvorki við þingmenn sína né Alþingi um miklar framkvæmdir, heldur hafa menn reynt að búa vel að sínu og draga björg í bú og skapa atvinnu í landi. Þessi staður er Drangsnes og er við Húnaflóa, nánar tiltekið við Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Þar eru fjórir bátar af þessari stærð fyrir utan þó nokkra minni báta, en þessir fjórir bátar eru uppistaðan í atvinnulífinu á þessum stað.
    Stærsti báturinn var með 238 tonna afla á þessu ári. Hann á að fá 145 tonna þorskígildi samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið úr þessu skjali sem ekki fæst afhent sjávarútvegsnefndarmönnum --- sennilega er það fyrir það að þeir eru þá svona kjöftugir. Næstu upplýsingar eru um annan bát sem er 12,43 tonn. Hann hefur veiðiheimild á þessu ári upp á 110 tonn en það á að úthluta honum 30 tonna þorskígildi á næsta ári. Þriðji báturinn á þessum sama stað er með 115 tonna þorskígildi á þessu ári, en samkvæmt fyrstu yfirferð á hann að hljóta 67 tonna þorskígildi á næsta ári. Fjórði og síðasti báturinn er með 110 tonn á þessu ári og hann á að hljóta 27 tonna þorskígildi á næsta ári.
    Nú vil ég spyrja hv. alþm. og hæstv. ráðherra að því hvort þeir mundu nú sætta sig við 1. jan. að fá aðeins um 30% af kaupinu sína næsta ár. Ég vil líka spyrja, og ekki síður alþingismenn en ráðherra, að því hvort þeir hafi í raun og veru gert sér grein fyrir hvað þeir voru að gera þegar þeir samþykktu lögin um stjórn fiskveiða á sl. vori. Ég dreg mjög í efa að meiri hluti þingmanna hafi gert sér grein fyrir því hvað hann var að gera.
    Hvað bíður staðar sem hefur byggt sig upp með þessum hætti, hefur verið lítill kröfugerðarstaður í fjárfestingum, annað heldur en það að eigendur þessara báta missa þá? Þeir hafa ekki peninga aflögu til þess að kaupa kvóta. Þeir hafa heldur engin skattfríðindi út úr því að kaupa kvóta, ekki nokkur. Þeirra bíður að hypja sig í burtu. Þeirra bíður að missa bátana sína. Þeirra bíður að missa húseignir eða þær verða verðlausar. Fólksins heima fyrir bíður að koma sér í burtu. Bjargar Hagræðingarsjóður einhverju? Ég spyr. Jú, hann kemur inn í myndina ef skip eða bátar hafa verið seldir í burtu sem valda umfangsmikilli röskun. Þá kemur hann. Hvað á hann þá að gera þegar bátarnir eru farnir og fólkið líka? Á að gefa fuglunum það sem kannski fara ekki að sama skapi burtu? Þetta er ömurleg saga og þetta er ömurleg staðreynd um ákvörðun Alþingis Íslendinga á sl. vori.
    Við höfum ekki deilt um að það þurfi stjórnun á fiskveiðum og ég vil alls ekki segja að núv. sjútvrh. sé maður óalandi og óferjandi. Það vil ég ekki gera. Það er margt mjög gott um þann mann að segja, það er margt sem hann hefur lagt skynsamlega til mála, en þegar hefur komið að þessari fiskveiðistjórnun, þá finnst mér hann vera heillum horfinn.
Kvótasalan er fyrst og fremst fyrir þá sem eru ríkir, hún er fyrst og fremst fyrir þá sem hafa góða afkomu og geta því keypt kvótann háu verði því þeir fá góðan afslátt í sköttum. Ríkissjóður borgar því stóran hluta af þeim kvóta. Þetta er okkur, sem svolítið höfum sett okkur inn í þessi mál, vel ljóst. En þetta er ekki það sem á að koma. Einmitt þetta fyrirkomulag hefur ýtt undir aðallega spekinga við Háskólann, ég tala nú ekki um í Seðlabankanum, að það þurfi að ganga lengra en sjútvrh. því það þurfi að koma á auðlindaskatti. Að selja aðgang að fiskimiðunum, að þeir Grímseyingar og Drangsnesingar og aðrir einstaklingar og útgerðarstaðir vítt og breitt um landið eigi að borga samfélaginu fyrir að mega fiska. Víðast hvar út um landið, víðast hvar þar sem útgerð er þá eru fiskveiðarnar og fiskvinnslan uppistaða í atvinnulífinu. Hér á höfuðborgarsvæðinu vegur þetta miklu minna vegna þess að hér er þjónustan höfuðuppistaðan í atvinnulífinu, og þá á ég ekki við Reykjavík eina, heldur nágrannabæi Reykjavíkur, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ, Kópavog og Garðabæ, þannig að þetta skiptir ekki höfuðmáli fyrir þessi byggðarlög þegar á heildina er litið þó það geti skipt jafnmiklu máli fyrir einstaklinga þar eins og annars staðar.
    Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur það í sínum málefnasamningi að efla Byggðasjóð og efla byggð um landið. Ég held að þetta hafi farið allt á aðra leið eins og allir hljóta að viðurkenna. Fólkið streymir hingað á þetta horn utan af landi. Fólksflóttinn er alltaf að aukast og við sjáum fram á að ef slíkar aðstæður verða þá verður hér algjört hrun.
    Á sama tíma og þjóðir hafa snúið frá austri og til vesturs, hafa snúið frá ófrelsi og miðstýringu, þá snúa Íslendingar sér í austur, þegar allir aðrir eru hættir því. Ef það á að halda áfram á þessari leið þá sé ég ekki að það vanti neitt í skömmtunarráðuneytið annað en að biðja mjög færan miðstýringarmann að koma og starfa um hríð til þess að beita meiri hraða í þessu, ég held að hann hafi lítið að gera sá, en það er Erich Honecker. Hann kvað hafa lítið að gera um þessar mundir. Það er lítið með hann að gera þar því þjóð hans hefur snúið frá austri til vesturs, hún hefur snúið frá miðstýringunni, snúið frá kúguninni til þess að taka upp nýtt og betra líf. Það er það sem við þurfum að gera hérna.
    Ég vil í fullri vinsemd segja við hæstv. sjútvrh., við hæstv. forsrh. og alla ríkisstjórnina og allt stjórnarliðið: Það er ekki hægt að ganga frá reglugerð og úthlutun veiða til þessara báta og vegna þessara staða með þessum hætti. Þó kosningar séu fram undan með vorinu þá hljótum við öll að vilja vernda fiskstofnana, vilja ganga eins vel um miðin og hægt er og það gerum við ekki með þeim hætti að eyðileggja með öllu atvinnu sumra manna sem hafa tiltölulega litla báta. Þess vegna verðum við að ná sáttum ef menn vilja vinna á þann veg. Og ég skora á hæstv. forsrh. og sjútvrh., ríkisstjórnina í heild, að vinna að því að ná sáttum við þjóðkjörna fulltrúa þessa fólks þannig að við getum orðið sómasamlega ánægðir með þá úthlutun sem fram þarf að fara. Mér er það ljóst að þetta er ekki létt verk. Þetta er mikið vandaverk og það er mikið sem hvílir á þeim manni sem fer með þetta vald. Þess vegna er enn meiri nauðsyn fyrir þann mann að leita samstarfs, og þá ekki eingöngu innan stjórnarliðsins því ekki er nú tónninn sem allra bestur í því, heldur einnig við þá þingmenn sem eru í stjórnarandstöðu að reyna að ná sáttum á þann veg að fyrir þá sem áður veiddu eftir sóknarmarkinu verði fundin einhver hámarksskerðing á því sem þeir hafa veitt og það verði tekið upp í reglurnar, ekki einhliða veiði ákveðin tímabil, heldur verður að taka einnig upp í þessar reglur aðstæður sem hafa skapast af ýmum ástæðum, langvarandi bilun í bát eða tjón eða heilsubilun hjá manni um tíma sem hefur átt slíkan bát. Það verður að taka meira tillit til hins mannlega í þessu og sérstaklega í þessu. Það þarf auðvitað að gera víða. Við þurfum ekki að apa það eftir tugmilljónaþjóðum að taka allt upp eftir einhverjum tölvum og ómanneskjulegum viðbrögðum. Við verðum að láta sanngirni ráða æði miklu en hinn aðilinn, þjóðfélagsþegninn, verður auðvitað líka að taka tillit til þess hvernig ástand og horfur eru.
    Ég bendi á það í lok máls míns að fari svo að þetta verði gert með slíkum hætti eins og bæði frummælandi hér og ég hafa gert að umræðuefni, þá hlýtur hér að vera um eignaupptöku að ræða og þar með brot á stjórnarskránni og það getur orðið dýr eftirmáli. Ef almenningsheill krefst þess má auðvitað skerða kjör almennings og þar með líka kjör í þessari atvinnugrein, en þegar kjörin eru skert með mismunandi hætti þá er ekki verið að fullnægja réttlætinu, það hljótum við öll að muna og vita.
    Ég vil því að síðustu sérstaklega óska eftir því, og það í fullri vinsemd og líka án þess að vilja gera þessi viðkvæmu mál að einhverju kosningamáli í vor, að ríkisstjórnin taki þá ákvörðun að leita sátta þannig að þingmenn flestir geti sæst á hvernig skuli afgreiða þessi mál en standa hér ekki í stríði þegar þing kemur saman um eða eftir miðjan janúar.