Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti hefur ekki vald á því að svara þessu nú. Forseti vill aðeins útskýra að um það hafði samist að hér færu fram deildafundir núna klukkan þrjú. Forseti mun nú fresta fundi um fimm mínútur meðan hún ræðir við hæstv. forseta Nd. og forseta Ed. til þess að komast að niðurstöðu um hvernig hér skuli með farið. En eins og hv. þm. skilja er mjög mikil tímaþröng nú í öllum störfum þingsins þessa viku að vanda og þess vegna höfðu forsetar reynt að gera sér nokkra hugmynd um hvernig mál mættu fram ganga og forseti verður að sjálfsögðu að ræða við hæstv. forseta Ed. og Nd. Fundinum er nú frestað í fimm til tíu mínútur. --- [Fundarhlé.]
     Forsetar þingsins hafa átt fund og telja sig hafa komist að niðurstöðu sem allir hv. þm. ættu að geta sætt sig við. Hún er sú að þessum fundi verði frestað til kl. 4 en þá verði þeirri umræðu haldið áfram sem hér hefur nú hafist. Þangað til kl. 4 fari fram fundir í deildum þar sem mikilvægt er að afgreiða mál bæði milli deilda og til nefnda, en síðan verði þessari umræðu um veiðiheimildir smábáta haldið áfram kl. 4. Þar með er tryggt að samfelld umræða fer fram svo fjölmiðlar megi frá þeim skýra og væntir forseti nú að menn geti sætt sig við þessa niðurstöðu. Forsetar vilja leggja á það áherslu að verði ekki hægt að ná samkomulagi um þetta er loku fyrir það skotið að þinghaldi geti lokið hér nk. föstudag. Forsetar vilja því skora á hv. þm. að fallast á þessa niðurstöðu.