Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Árni Gunnarsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt að það komi fram við þessa umræðu að forsetar hafa haft mjög náið samstarf og samvinnu við formenn þingflokka um þingstörf til jóla. Allar áætlanir sem gerðar hafa verið um þingstörf til jóla byggjast á því að þingi geti lokið og þingmenn farið í jólaleyfi nk. föstudag. Forsetar hafa reynt eftir mætti að haga atkvæðagreiðslum og þingfundum þannig að mál gætu gengið greiðlega á milli deilda og til nefnda. Óskað var eftir því af hálfu þingforseta Ed. og Nd. að í dag fengju þeir að hafa hér fundi á milli kl. 3 og 5, þar til þingflokkafundir hæfust, til þess að ná fram atkvæðagreiðslum um mörg mjög veigamikil mál sem þurfa að fara til nefnda og sem þurfa að fara á milli deilda. Þegar ósk kom fram áðan um framhald þeirrar umræðu sem nú er hafin um kvótamál fór ég þess á leit, sem forseti Nd., að ég fengi hálftíma fund til þess að geta komið fram atkvæðagreiðslum um mjög veigamikil mál. Ég tel að þessi beiðni sé svo hæversk og svo hógvær að enginn þingmaður geti með góðri samvisku staðið gegn henni. Þetta mun ekki brjóta upp umræðuna um kvótamálið sem neinu nemur. Umræða um kvótamál hefur þegar verið talsverð í þinginu og ekki ætla ég að draga úr nauðsyn þess að sú umræða geti farið fram þannig að allir þingmenn sem það vilja geti sagt hug sinn.
    Ég mælist nú eindregið til þess við hv. þm. sem athugasemdir hafa gert við þingstörfin hér í dag að þeir leyfi þessu fundastarfi að fara fram með nokkuð eðlilegum hætti þannig að við getum haldið stuttan fund í Nd. á eftir og síðan geti umræðan hafist á nýjan leik um kvótamáið í Sþ. Það mun ekki tefja þá umræðu nema um 30 mínútur.