Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Stefán Valgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram fyrst í mínu máli að þegar frv. um stjórn fiskveiða var til afgreiðslu lagði ég fram fimm mikilvægar brtt. við það frv. Þær náðu því miður ekki fram að ganga og þess vegna studdi ég ekki það frv. Ég ræddi um það við hæstv. ráðherra að ef fram færi sem þá horfði í sambandi við stjórnun fiskveiða og fiskvinnslustefnu, þá mundu byggðirnar eyðast. Og hvað er komið á daginn?
    Það sem helst er ámælisvert í framkvæmd þessara laga er að það skuli vera látið óátalið að fiskveiðikvótinn gengur kaupum og sölum, þrátt fyrir 1. gr. laganna. Framkvæmdarvaldið hefur ekki staðið í stykkinu um það atriði. Það er auðvitað óþarfi að lesa þessa grein en ég ætla að gera það samt, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``
    Þetta er alveg skýrt. Það er alveg skýrt að þeir sem hafa verið að selja og kaupa kvóta hafa ekkert leyfi til þess. Menn hafa ekki átt þennan kvóta. Það er kannski eitt það alvarlegasta í þessu máli að þetta hefur leitt það af sér að margir hafa verið að selja kvóta sem þeir eiga ekki og það hefur verið liðið. Ég hef rætt við nokkra lögmenn um þetta efni og þeir eru hræddir um að ef ekki verði gripið þarna í taumana muni verða erfitt, þrátt fyrir lögin, að taka þetta til baka og það gæti farið svo að beita þyrfti eignarnámsheimild. En þá verður auðvitað að borga þennan kvóta fullu verði ef ríkið fer að standa þannig að máli.
    Sem sagt, þessi mál eru í svo miklu ófremdarástandi öll, og ég er ekki að kenna hæstv. ráðherra um allt í því efni, langt í frá. Það er sjálfsagt ýmsum og öllum að kenna vegna þess að ekki hefur verið t.d. gengið þannig um fiskimiðin, að manni er sagt, að það sé líðanlegt. A.m.k. eru manni sagðar þær sögur. Og það er mjög alvarlegt að það skuli vera heimilað að henda öllu einu í sjóinn og fjölga þannig mjög mikið þeim fuglum sem lifa á seiðum eftir því sem til þeirra næst. Það er ein af mörgum ástæðum fyrir því hvernig komið er, að það þarf sífellt að minnka kvótann. Það eru fleiri um fiskinn, bæði fuglinn og ég tala nú ekki um hrefnur, seli og sumar hvalategundir. Það verður að taka þessi mál öll til endurskoðunar. Og nú horfa menn fram á það að byggðirnar eru að bresta.
    Það er auðvitað erfitt mál, ég skil það, að deila tiltölulega litlum kvóta á þá aðila sem hafa átt hann og þurfa á honum að halda. En þær byggðir sem sérstaklega eru þannig settar að þær geta ekki lifað á neinu öðru, eða sama sem engu öðru, verða að sitja fyrir. Og ég mæltist til þess við hæstv. ráðherra þegar var rætt um þetta hér á dögunum að hann gengi í

þetta mál og léti athuga eftir áramótin hvernig væri hægt að breyta þessum lögum sem taka gildi 1. jan. vegna þess að það verður enginn friður um þessi mál öðruvísi en að það verði gert.
    Í fyrsta lagi verður auðvitað að framfylgja 1. gr. laganna. Það er númer eitt. Það yrði númer tvö að það verður að mismuna mönnum í þessu efni vegna aðstöðunnar. Sannleikurinn er sá að þessir litlu bátar sem eru í þeim byggðarlögum sem kannski fá allt sitt hráefni frá þeim, eða svo til allt, verða að sitja fyrir og að þar sé ekki eins mikil skerðing og hjá öðrum. Það er mjög alvarlegt ef hæstv. ráðherra og sjútvrn. gera ekkert í sambandi við söluna á þessum kvóta því það veldur mestu vandræðunum.
    Það átti að framkvæma þetta á þann veg að menn hafi þennan kvóta leigðan. Þeir eiga hann ekki, þeir geta auðvitað, eins og lögin eru, leigt hann frá ári til árs en það þarf að breyta þessu á þann veg að það sé ekki heldur heimilað.
    Ég ætla ekki að fara að taka upp langa umræðu um þetta mál enda sýnist manni ekki mikill áhugi í raun og veru hjá þingmönnum að ræða þetta. Það eru ekki það margir hér í Sþ. En ég vil bara endurtaka það enn og aftur að ef ekki verður gerð breyting, verulega mikil breyting í þessu kvótafyrirkomulagi, ef ekki verður skoðuð öll stefnan í sjávarútvegsmálum í vetur fer ekki hjá því, því miður, að það verði tekist á um þessi mál í vor. Það verður ekki komist hjá því því að þarna eru menn að takast á um sín laun, sína lífsmöguleika, um það sem þeir eiga. Þess vegna er það óhjákvæmilegt en mjög óæskilegt ef svo þarf að fara.
    Það er almennt talið, a.m.k. í sumum landshlutum, að sumir hagsmunaaðilar sjávarútvegsins hafi of mikil áhrif á þá stefnu sem hefur verið fylgt í þessum málum og það verður ekki liðið. Ég trúi því ekki að þingmenn landsbyggðarinnar, hvar í flokki sem þeir standa, séu það linir af sér að þeir segi ekki: Þetta gengur ekki lengur. Þetta gengur ekki lengur. ( KP: Þeir hafa nú verið að því sumir.) Já, svo má brýna deigt járn að það bíti.