Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir) :
    Forseti vill benda á að þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. bað um þessa umræðu var ekki minnst einu orði á að þessi umræddu gögn væru forsenda fyrir henni. Sé svo nú hefur forseti veitt leyfi til þessarar umræðu á alröngum forsendum. Forseti hefur þegar hlýtt á svar ráðherra við þessari margumræddu beiðni hér í Sþ. Forseti Ed. skrifaði hæstv. ráðherra sama erindis og svarbréf barst í morgun á þann veg að hér væri um vinnugögn að ræða sem ráðherra kysi að afhenda ekki.
    Ég lít svo á að þetta sé í valdi hæstv. ráðherra og ég mótmæli því að þessi umræða, sem nú hefur staðið hér nær linnulaust síðan klukkan tvö eða þrjú í dag, hafi farið fram á þeirri forsendu að þessi gögn væru þar nauðsynleg. Það var aldrei á það minnst og hefði forseta verið sagt það strax hefði hann að sjálfsögðu ekki leyft þessa umræðu vegna þess að þessi gögn eru ekki í höndum forseta. Ég veit ekki til hvers þessir hv. þm. ætlast, hvort ég á að fara að sækja þetta til hæstv. ráðherra.
     Ég tel það hið mesta alvörumál að menn skuli fara svona með tíma þingsins þessa síðustu vinnuviku og vil vægast sagt fara fram á það að þessi umræða haldi áfram og ljúki á þessu kvöldi. Menn geta síðan haldið áfram að reyna að ná þessum vinnugögnum hæstv. ráðherra. Það má vera búið að ljúka þessari umræðu þar fyrir og bið ég menn nú um að leyfa forseta að halda hér áfram fundi.