Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Skúli Alexandersson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt í framhaldi af því sem hv. 2. þm. Vestf. hefur sagt um gögn sem þingmönnum hafi verið afhent að upplýsa það að mér tókst í morgun að fá gögn hjá sjútvrn. varðandi úthlutun til smábáta vestur á Rifi eða Hellissandi. Eingöngu það. Ég fór fyrst fram á það eftir að ég vissi að einn hv. þm., ég held að ég megi nefna hann, hv. 2. þm. Norðurl. e., hafði fengið gögn um úthlutun til smábáta í Grímsey. Ég vil ekki jafna þessum upplýsingum, sem við fengum í hendurnar, saman við það sem við höfum verið að óska eftir sérstaklega, sjávarútvegsnefndarmenn Ed., að fá öll gögn yfir úthlutun til smábáta. En ég taldi ástæðu til, fyrst þetta var nefnt, að upplýsa það að ráðuneytið varð við þeirri ósk minni að láta mig hafa þessar takmörkuðu upplýsingar. Ég fór fram á það að fá upplýsingar úr Vesturlandskjördæmi öllu en undan því færðist ráðuneytið, kannski á svipuðum rökum og ráðuneytið og hæstv. sjútvrh. hafa færst undan því að láta okkur hafa alhliða gögn um þessa úthlutun. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram við þessa þingskapaumræðu sem hér hefur átt sér stað.