Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Stefán Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Það er alltaf áhugavert að ræða um sjávarútvegsmál og vissulega hefði verið skemmtilegra að gera það ef fleiri hefðu verið hér í salnum til þess að taka þátt í þeirri umræðu. Þegar er verið að ræða um sjávarútvegsmál vill það oft verða svo að hér eru aðeins örfáir menn sem leggja þar eitthvað til málanna.
    Ég vil aðeins víkja hér örstutt að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e., sem hóf umræðuna í dag, þar sem hann vék að því að kvótakerfið ynni gegn byggðastefnu. Mér fannst skorta býsna mikið á að það væri færður nægjanlegur rökstuðningur fyrir því. Mér finnst nefnilega stundum þegar menn tala um þessi mál að þeir tali um þá fiskveiðistjórnun og þau lög sem í gildi eru í dag en ekki um þau lög sem taka gildi um næstu áramót.
    Af því tilefni langar mig aðeins til að vitna í 11. gr. þeirra laga sem við samþykktum hér á Alþingi 5. maí í vor, en þar segir, með leyfi forseta: ,,Eigi að selja fiskiskip, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, til útgerðar sem heimilisfesti hefur í öðru sveitarfélagi en seljandi á sveitarstjórn í sveitarfélagi seljanda forkaupsrétt að skipinu. Forkaupsréttur skal boðinn skriflega þeirri sveitarstjórn sem hlut á að máli og söluverð og aðrir skilmálar tilgreindir á tæmandi hátt. Sveitarstjórn skal svara forkaupsréttartilboði skriflega innan fjögurra vikna frá því henni berst tilboð og fellur forkaupsréttur niður í það sinn sé tilboði ekki svarað innan þess frests.``
    Þetta var ekki svona í upphaflegum drögum sem lögð voru fyrir sjútvn. þingsins eða Alþingi sjálft og komu frá svokallaðri ráðgjafarnefnd sem samdi frv. um fiskveiðistjórnun. Það er rétt að taka fram að það frv. var ekki samið í sjútvrn. Það var lagt fram nokkurn veginn nákvæmlega eins og það kom frá ráðgjafarnefndinni sem hafði fjallað um það í eitt og hálft ár. Ég tel mjög mikilsvert fyrir hin ýmsu byggðarlög að þessi forkaupsréttur sé fyrir hendi. Ég held þess vegna að Alþingi hafi mjög lagað málið með því að koma þessu ákvæði inn. (Gripið fram í.) Ég er ekki kominn að smábátunum, hv. 2. þm. Austurl. Ég skal tala aðeins um það á eftir úr því þú vaktir máls á því og þá hlut Alþb. í því máli.
    Þegar menn tala um þennan forkaupsrétt spyrja menn gjarnan hvaða burði veikt sveitarfélag hafi til þess að kaupa og verjast því að missa aflann eða bátinn frá sér. Ég hef svarað því til og menn ræddu það að þá reyndi á ríkisstjórn og byggðastefnu um það að verjast. Það er vissulega meiningin með því sem stendur í þessari grein. Og það er fleira sem mætti benda á sem er vissulega í þá átt að laga það frv. sem við höfum búið við til þess einmitt að tryggja betur rétt hinna smæstu staða.
    Vegna þess að hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson greip hér fram í er rétt að víkja aðeins að afstöðu Alþb. í þessu máli. Það er gott líka fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e., sem var málshefjandi hér í dag, að rifja aðeins upp hver hlutur hans flokks var í þessu

máli þegar það var hér til meðferðar á vordögum og hafa orð á því við sjómenn á Ólafsfirði hver afstaða Alþb. var, málsvara Alþb. í sjávarútvegsmálum, hv. þm. Skúla Alexanderssonar, ég hef ekki heyrt betur en hann sé sá sem ræður stefnu Alþb. í sjávarútvegsmálum, hann a.m.k. talar svo. Hver var stefna hans í þessu máli og þá Alþb.? Hver var hún? Var hún til þess að lyfta undir smábátana sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson spurði um? Stefna hans var að taka 40% frá sjómönnum og útgerð og færa það hvert? Til vinnslustöðvanna. Það átti hvorki meira né minna en að taka 40% af aflanum frá sjómönnunum og útgerðinni og færa það til vinnslunnar í landi. ( Gripið fram í: Hverjir eiga þennan kvóta?) Hverjir eiga kvótann? Það má segja að sjómenn og útgerðin hafi ráðstöfunarrétt á kvótanum í dag. Hvenær hefur nokkurn tímann fiskur verið dreginn á land nema að sjómenn hafi gert það? (Gripið fram í.) Sjómennirnir hafa ráðstöfunarrétt á þessum kvóta þar sem þeir eiga sín skip. Það má líka benda á að vinnslustöðvarnar eiga drjúgan hluta í þessum skipum sem við erum að tala um. Hvað halda menn að hefði skeð t.d. hjá Sæbergi á Ólafsfirði sem nýlega var að bæta við sig skipi eða Síldarvinnslunni í Neskaupstað, eftir að þeir hefðu fengið þessi 40% sem hefðu verið tekin frá sjómönnunum og bátunum? Hverjir ætli hefðu fengið að fiska þessi 40%? Trúir einhver því hér inni að það hefðu verið trillukarlarnir? Ekki ég. Ætli þeirra eigin skip hefðu ekki fengið það fyrst og fremst, sem liggja bundin við bryggju yfir hundrað daga á ári? Ætli þeir hefðu ekki reynt að nýta skipakost sinn fyrst og fremst áður en þeir hefðu farið að láta trillukarlana fiska þennan fisk? Ætli þeir hefðu ekki gert það á Neskaupstað? Ætli þeir hefðu ekki líka gert það á Ólafsfirði?
    Þetta var nú skilningur Alþb. á málefnum þessara báta og sjómanna yfirleitt. Það vil ég taka rækilega fram.
    Hv. þm. Stefán Valgeirsson var með svipaðar hugmyndir einnig. Ég tala ekki um Kvennalistann sem vildi taka allt að 80% frá sjómönnum og útgerðum og færa það til vinnslustöðvanna í landi. (Gripið fram í.) Jú, ég las það. Hvert átti að færa það þá? Það átti að færa það til sveitarfélaganna. Davíð Oddsson átti að úthluta þessu hér. Haldið þið að trillukarlarnir hér í Reykjavík hefðu fengið það? Ætli Grandi hefði ekki fengið það?
    Vegna þess að hér hefur verið minnst á Hagræðingarsjóð, sem menn kölluðu hér á vordögum þegar þetta mál var lagt fram ,,aumingjasjóðinn``, vil ég víkja lítillega að honum. Vegna þess að í nokkrum greinum er gert mögulegt að bregðast við vanda hinna veikustu byggðarlaga sem kynni að koma upp var honum gefið nafnið ,,aumingjasjóðurinn``.
    Halldór Blöndal vék aðeins að þessu hér áðan. Hann taldi að sjóðurinn gripi ekki á þessu máli og hefði varla heimild til þess. En hvað segir í 1. gr. laga um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins? Þar segir svo m.a., með leyfi herra forseta: ,,Sjóðurinn skal koma til aðstoðar í einstökum byggðarlögum með því

að efla vinnslu sjávarfangs á þeim stöðum þar sem straumhvörf hafa orðið í atvinnulífi vegna sölu fiskiskipa. Í þessu skyni getur sjóðurinn framselt tímabundið veiðiheimildir, enda verði aflanum landað til vinnslu í viðkomandi byggðarlögum.`` Þetta er sjóðurinn sem menn töldu og gáfu nafnið ,,aumingjasjóðurinn``. Og í upphafsorðum 9. gr. sömu laga segir: ,,Sjóðurinn veitir aðstoð sína til eflingar vinnslu sjávarfangs í byggðarlögum er höllum fæti standa með því að framselja veiðiheimildir sem honum hefur verið úthlutað í því skyni samkvæmt 5. gr. Aflaheimildirnar skulu framseldar gegn því skilyrði að aflanum verði landað til vinnslu í því byggðarlagi sem aðstoð hefur verið samþykkt við.``
    Greinilega og rækilega er gengið frá því að þessar heimildir eru fyrir hendi.
Það er mikil blinda og ég skil ekki hvaða tilgangi það þjónar raunverulega að vera að koma því inn að þessi sjóður geti ekki komið til aðstoðar í slíkum tilfellum. Ég skil ekki þann hugsunargang og hverju það þjónar að vera að reyna að koma því inn.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki teygja þennan fund mikið lengur með máli mínu. Það hefur hins vegar vakið athygli mína að hlusta á ræður manna hér í dag. Menn hafa fundið að því að menn hafi farið illa út úr aflaúthlutun, hin ýmsu byggðarlög og hinir ýmsu aðilar sem með smábátaútgerð eru, og vissulega er það rétt að svo hefur það farið í þessari tilraunakeyrslu sem gerð hefur verið. Ég hef hins vegar ekki heyrt einn einasta ræðumann benda á nokkurn hlut sem mætti gera til þess að leiðrétta þetta, bara alls engan sem hefur sagt það hér í dag hvaða leið mætti verða til þess að bæta þetta sem þarna hefur skeð nema að taka og bæta við, bæta við meiri afla. En þá verða menn líka, úr því að þeir segja a, að segja b og þeir verða þá að segja frá hverjum. Það hafa menn ekki heldur sagt. Ég harma það. Við getum deilt um þetta og það er eðlilegt að við spjöllum um þessa hluti, en ég harma að enginn þessara manna sem hér hafa talað, vegna þess að það eru yfirleitt menn sem hafa haft áhuga á sjávarútvegsmálum, skuli koma með einhverja lausn á vandamálinu.
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja það að ég trúi því að hæstv. sjútvrh. leiti nú leiða þegar menn sjá hvernig þetta kemur út. Frestur sem menn fengu rann út 15. des. Þá rann fresturinn út sem menn höfðu til þess að senda inn bréf og óska eftir skýringum og leiðréttingum. Ég vona það og ég trúi því að hæstv. ráðherra leggi sig fram um það að reyna að finna þar einhverjar leiðir sem mættu verða til þess að leiðrétta það misræmi sem kemur fram í sumum úthlutunum. Ég trúi því að menn muni reyna að leggja sig fram til þess að gera það. Það verður örugglega ekki auðvelt verk, en ég trúi ekki öðru en ráðherra muni beita sér fyrir slíku.