Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Guðmundur H. Garðarsson :
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu. Það var m.a. vegna ummæla í ræðu hv. þm. Skúla Alexanderssonar sem ég kvaddi mér hljóðs, en ég get þó ekki látið hjá líða þar sem ég er kominn hér í ræðustól að gera athugasemd við það að einn af stjórnarþingmönnum skuli hafa tekið upp umræðu um jafnveigamikið mál og fiskveiðistjórnun er í jólaönnum. Það hefði verið æskilegra að hv. þm. hefði gengið úr skugga um það að hér væri betri tími og svigrúm til að fjalla um jafnveigamikið mál og hér er á ferðinni, en það er að sumu leyti skiljanlegt, þar sem hv. þm. er varamaður, að hann vilji koma sínum sjónarmiðum að. Ég virði það þess vegna út af fyrir sig. Hins vegar hlýt ég sem stjórnarandstæðingur að vekja athygli á því að sá aðili sem óskaði eftir þessum umræðum, virðulegi forseti, er stjórnarstuðningsmaður. Það er því ekki við okkur að sakast, sem erum í stjórnarandstöðu, að verið sé að eyða verðmætum tíma hins háa Alþingis í jólaönnum.
    Sú umræða sem hér hefur farið fram um kvótann ber auðvitað þess merki að það eru mikil umbrot, ekki aðeins í íslenskum sjávarútvegi og fiskiðnaði, heldur íslensku þjóðfélagi og einnig með tilliti til þess hvaða stöðu Íslendingar ætla að marka sér í þeirri þróun sem er að verða í heiminum. Þó að hv. þm. hafi kannski ekki tekið eftir því sjálfir snýst umræðan raunverulega um það hver staða okkar Íslendinga er, hér innan lands sem gagnvart hinum ytra heimi, þar sem við þurfum að mæta hörðum lögmálum, samkeppni og breyttum formum sem leggja á okkur ákveðnar skyldur og gera okkur e.t.v. erfiðara fyrir í því viðkvæma, erfiða máli sem við erum hér að fjalla um. Ég mun víkja nokkru nánar að því hér á eftir í minni ræðu, sem verður stutt, vegna þess að mér finnst það eiginlega kjarni málsins þegar verið er að tala um það hvernig við Íslendingar ætlum að lifa í þessu landi á grundvelli sjávarútvegs og fiskiðnaðar.
    Það sem kom mér til að koma hér í ræðustól fyrst og fremst, virðulegi forseti, þar sem ég virði þau tímatakmörk sem hljóta að vera á þessari umræðu, voru ummæli hv. þm. Skúla Alexanderssonar. Ég vona að hv. 4. þm. Vesturl. sé hér einhvers staðar viðstaddur, virðulegi forseti, ég vil gefa honum tækifæri til þess að leiðrétta það ef ranglega er eftir honum haft. Væri hægt að athuga hvort hv. þm. er í húsinu? Hér var því miður, virðulegi forseti, um mjög alvarlega aðdróttun að ræða í sambandi við hagsmunasamtök útgerðarmanna sem ég vil, vegna þess að hér er allt skráð og hugsanlega kemur það einnig í fjölmiðlum, fá annaðhvort leiðrétt sem missögn eða mótmæla. Ég legg því áherslu á það að virðulegur stjórnarstuðningsþm. Skúli Alexandersson sé hér í salnum.
    Meðan við bíðum eftir að hv. þm. komi í salinn vildi ég ræða það örlítið sem fram hefur komið hér í umræðunni og er í sambandi við það sem hæstv. ráðherra gat um. Þar komu fram sjónarmið sem ég held að sé mjög erfitt að ganga fram hjá, þ.e. þegar hæstv. ráðherra talaði um að fiskstofnarnir væru veikir. Mér

finnst það satt að segja alveg furðulegt að það skuli þurfa að ítreka það hér margsinnis á hverju þingi að fiskstofnar við landið eru því miður það veikir að við verðum að búa til þetta kerfi sem heitir kvótakerfi sem er í sjálfu sér ekkert annað en ákveðin tegund skömmtunarkerfis sem við höfum því miður þurft að taka upp vegna þeirra aðstæðna sem eru í hafinu í kringum okkur, þ.e. að fiskstofnar eru ofveiddir, og svo kunna að vera önnur atriði, önnur lögmál sem við gerum okkur ekki grein fyrir, sem hafa einnig áhrif í hafinu.
    Ég held að enginn Íslendingur óski sér þess að fiskimiðin við strendur Íslands þróist með þeim hætti sem gerst hefur í Norðursjónum t.d. eða á nálægari fiskimiðum við Bretlandseyjar og Írland. Það vita allir hv. þm. sem eitthvað fylgjast með þessum málum að það liggur við algjörri auðn í sambandi við fiskimiðin í Norðursjónum. Þar er um verulegan samdrátt að ræða og ég minni aðeins á það sem væntanlega hefur komið fram, en þó ekki í þessari umræðu, að núna er fram undan, t.d. á næsta ári, stórkostlegur samdráttur í veiðum af hálfu útgerðar Evrópubandalagsins á þessu svæði. Ef ég man rétt er fyrirhugaður 25% samdráttur þorskfiskveiða í Norðursjónum miðað við það sem veitt var árið 1990.
    Sambærilegur samdráttur verður einnig, virðulegi forseti, í veiðum á öðrum fisktegundum. Þetta stafar fyrst og fremst af því --- og mér þykir frekar erfitt að þurfa að viðurkenna það því að ég er andstæðingur kvóta í sjálfu sér, en það er því miður staðreynd að mjög hefur gengið á fiskstofnana, og ég er hér að tala m.a. um fiskstofnana í Norðursjónum --- að ekki voru gerðar ráðstafanir í tíma til þess að forða því að fiskstofnarnir færu niður fyrir það lágmark sem þeir máttu ekki fara til þess að þessi eyðingarstaða kæmi upp sem Evrópubandalagsþjóðir standa nú frammi fyrir.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, láta koma fram hér. Þess vegna höfum við þurft að taka upp þessa kvótastefnu sem auðvitað er í ýmsu mjög gölluð og ég segi fyrir mitt leyti að ég hefði gert ráð fyrir að hún yrði endurskoðuð, ekki endilega á yfirstandandi þingi heldur í nánustu framtíð. Samt er það staðreynd að sú framkvæmd sem við höfum stuðst við, Íslendingar, hefur til þessa, vil ég segja, komið í veg fyrir þá eyðingu fiskstofna sem við blasir annars staðar þar sem seint væri í rassinn gripið, ef mætti orða það þannig, virðulegi forseti, að koma á einhverju takmarkandi kerfi í sambandi við fiskveiðar og þar á ég við Evrópubandalagsþjóðirnar.
    Nú er hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson kominn í salinn. Ég var að fjalla um það, hv. þm., að í ræðu þinni komst þú að orði eitthvað á þessa leið í sambandi við Landssamband ísl. útvegsmanna. Mér finnst það ekki við hæfi að þingmenn séu hér með aðdróttanir eða fullyrðingar nema unnt sé að standa við þær. Nú er ég í sjálfu sér, virðulegi forseti, ekki neinn talsmaður LÍÚ en mér finnst það ekki við hæfi að hv. þm. sem vilja láta bera virðingu fyrir hinu háa Alþingi og sjálfum sér skuli gefa það í skyn að aðilar, sem geta ekki hreyft mótmælum hér á þessu

augnabliki, hafi með óbeinum hætti verið að hygla sér þannig, eins og hv. þm. sagði að LÍÚ hefði verið að gera með því að mótmæla ekki fjölgun smábáta. Síðan sagði hann eitthvað á þessa leið: Getur það verið að stóru aðilarnir hafi séð sér leið til að fá stærri hluta af kvótanum með því að kaupa þetta í gegnum þá litlu, þ.e. að þeim fjölgar sem raun ber vitni um, og síðan kæmu þeir á eftir og keyptu kvótann. Ég sé að hv. þm. kinkar kolli til samþykkis.
    Ég vil leyfa mér að mótmæla því að þetta geti verið með þessum hætti vegna þess að ég minnist þess sem nefndarmaður í sjútvn. Ed. og einnig sem nefndarmaður í þeirri nefnd sem fjallað hefur um fiskveiðikvótann og fiskveiðistefnuna sem er forsenda eða réttara sagt grunnur þeirrar kvótastefnu sem við búum nú við. Ég man ekki betur en að fulltrúar LÍÚ hafi verið mjög óhressir yfir stöðu smábátanna þegar kvótinn byrjaði hér 1. jan. 1984. Þá var ég hér sem varaþingmaður og tók þátt í því m.a. að fjalla um þetta mál. Þeir voru mjög óhressir yfir þessu. Ég kannast ekki við annað, hv. þm., en að þeir hafi verið og séu óánægðir með þátttöku smábátanna í fiskveiðunum.
Ef hv. þm. getur fundið skjalfest rök fyrir þessu þætti mér vænt um að hann greindi frá því. Ég kannast ekki við þennan áhuga LÍÚ til að komast bakdyramegin inn í kvótann. Hins vegar liggur það í augum uppi að þeir sem annast og fjalla um útgerð á Íslandi, þeir sem eru í fiskvinnslu og þeir sem hafa séð um sölu afurðanna hljóta að leita allra leiða til að auka hagkvæmni sína í rekstri. Eða minnast hv. þm. ekki þess hve hart hefur verið deilt á útgerðaraðila, fiskvinnsluaðila, söluaðila, fyrir það að þeir rækju ekki sín fyrirtæki nægilega vel? Minnast menn ekki þeirrar gagnrýni sem hefur verið m.a. í sölum hins háa Alþingis um að fyrirtækin væru of smá og of mörg þannig að þau dygðu ekki í samkeppninni erlendis? Það sem er að gerast hjá okkur, og það er hart að þurfa að viðurkenna það, er að við sem ákveðið jaðarríki, sem vill reyna að vera sjálfstætt ríki á eigin forsendum, höfum neyðst til þess að taka upp breytta afstöðu til þess hvernig við verðum að byggja upp okkar fyrirtæki til að mæta þeirri samkeppni sem er á erlendum vettvangi. Þar duga ekkert annað en stórfyrirtæki, eða samtök fyrirtækja til að berjast um markaðsstöðu, um möguleika okkar til að fá sem mesta og besta hlutdeild í sölu þessara afurða. Það krefst þess að fiskvinnslan sé í stærri fyrirtækjum, stærri rekstrarformum. Það krefst þess að útgerðin verður, ég segi því miður, því ég vildi gjarnan hafa blandaða útgerð eins og við höfum haft á liðnum áratugum, smábáta og millistór skip og togara, en því miður, hinn harði heimur sem við erum núna komin í gerir það að verkum að við neyðumst til að vera með stórar, sterkar rekstrareiningar. Þá erum við komnir á þann punkt sem við erum hér að ræða um sem er: Hvernig eigum við að tryggja að jaðarstaðir, ég tala ekki um þá í neikvæðri merkingu heldur bara sem staðreynd, sem hafa verið hagkvæmir, og geta verið hagkvæmir við ákveðnar aðstæður, geti haldið áfram að blómgast og þróast með þeim hætti sem við öll óskum eftir?

    Ég er ekki með lausnina hér í kvöld um það hvernig þetta skuli gerast, því miður. En við skulum bara gera okkur grein fyrir því að Ísland er jaðarsvæði með tilliti til Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Við höfum þurft að mæta þeirri staðreynd, t.d. í útfærslu á sölumálum. Það hefur oft verið erfitt, við höfum oft verið í varnarstöðu, en við höfum byggt upp fyrirtæki sem hafa getað tryggt okkur það hingað til að útlendingar gripu ekki inn í þennan þátt með þeim hætti sem við óskum ekki eftir.
    Þá er röðin komin að fiskvinnslunni og útgerðinni. Hvernig er flotinn samsettur? Hér kom fram í ræðum manna áðan að svokallaðir verksmiðjutogarar eða réttara sagt frystitogarar --- það er réttara að kalla þá frystitogara en verksmiðjutogara --- hafi í ársbyrjun 1984 verið þrír í íslenska togaraflotanum. Ég held að þeir hafi nú verið fleiri en þrír, þó ég ætli ekki að fullyrða það, ég held að þeir hafi verið sex eða sjö. ( SkA: Þeim fjölgaði á árinu 1984.) Já, en sleppum því. Þeir munu nú vera orðnir yfir 30 talsins sem hafa möguleika til að frysta um borð. Mig minnir að í ársbyrjum 1990 hafi það verið 36 skip sem gátu fryst um borð, þar á ég líka við skip sem frysta rækju um borð.
    Það er verið að amast við því hvað þessi skip eru mörg og stór og afkastamikil. Ég segi fyrir mitt leyti að ég þekki ekki nægilega vel til þess hvernig tilhögun og eftirlit er í sambandi við veiðar og vinnslu um borð í togurum, ég þekki það svona úr fjarlægð. En ég spyr nú hv. þm.: Hvernig í ósköpunum er hægt að koma í veg fyrir, eða er æskilegt að koma í veg fyrir að Íslendingar hafi þessa blöndu á sínum togaraflota eða fiskiskipaflota sem eru smábátar, millistærðarskip, ísfisktogarar og frystitogarar? Ég held að það stríði algerlega gegn þeirri þróun að ætla að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar reyni að tileinka sér þá tækni og möguleika sem felast í frystitogurum, auðvitað innan ákveðinna marka. Það fer ekki á milli mála að frystitogarar eru afkastamikil skip og það þarf að gæta þess að þau gangi ekki of nærri fiskstofnunum, það er rétt. En þetta eru afkastamikil skip sem skila vöru sem markaðirnir leggja áherslu á að fá. Það er staðreynd sem ekki er hægt að mótmæla að frystitogararnir hafa sýnt mjög góða arðsemi, það kann að verða eitthvað erfiðara á þessu ári. Gæði vörunnar eru mjög góð og hraði og afköst í sambandi við vinnslu þessarar vöru og frystingu er geysilega mikill.
    Ég spyr nú hv. þm. Skúla Alexandersson, sem er mjög krítískur á frystitogarana, ég tek það fram að það eru ekki mín óskaskip út af fyrir sig, en samt sem áður eru þau æskileg að vissu marki: Hvernig í ósköpunum er annað hægt en að Íslendingar taki þátt í þeirri þróun og þeim möguleikum sem þessi tegund skipa býður upp á? Það er allt of mikil einföldun að segja að það séu nokkrir fáir, stórir útgerðaraðilar sem vilji gína yfir þessu öllu. Það gleymist oft í hita umræðunnar að það er meginstofn sjómannastéttarinnar á Íslandi sem er á stóru skipunum, frystitogurunum, ísfisktogurunum og fiskiskipum af millistærð. Þar er hinn stóri stofn íslenskrar sjómannastéttar. Þar eru

fiskimennirnir. Þeir eru, eins og útgerðaraðilar, að sjálfsögðu aðilar að þessari þróun. Þegar verið er að ráðast að þessari þróun þá felst í því óbein árás, ég segi ekki árás í þeirri neikvæðustu merkingu, en þá er einnig verið að gagnrýna sjómannastéttina sem er við störf á þessum skipum. Þetta eru skip sem sjómenn hafa tekið þátt í að byggja upp með útgerðaraðilum.
    Ég kannast ekki við annað þegar ráðist er í að byggja eða kaupa ný skip en að haft sé ákveðið samráð við þá menn sem hafa verið á eldri skipum. Þar á ég sérstaklega við skipstjórnarmenn, skipstjóra, vélstjóra, stýrimenn og háseta. Enda fylgir áhöfn yfirleitt skipstjórnarmönnum frá einu skipi til annars. Þannig að sjómannastéttin hefur verið virkur þátttakandi í þeirri uppbyggingu sem hefur orðið í íslenskum togaraflota og einnig og sérstaklega í frystiskipaflotanum. Þetta fannst mér rétt að kæmi hér fram vegna þess að mér finnst það ekki sanngjarnt að ráðast að þeim aðilum sem hafa staðið að þessu. Það eru ekki bara stóru aðilarnir sem hafa ráðið ferðinni. Þetta er allt meðvitað í þeim skilningi að þeir sem koma við sögu þarna hafa tekið þátt í þessari þróun og þessari uppbyggingu. Ekki endilega af tómri græðgi heldur vegna þess að þetta hefur skilað bestri niðurstöðu fyrir þá aðila sem hér koma við sögu.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að orðlengja þetta. Ég hefði gjarnan viljað að það hefði verið tækifæri til að ræða þetta mun betur. Væntanlega gefst það tækifæri eftir áramót þegar þing kemur aftur saman. Þá munum við ræða þetta í betra samhengi og einnig með sérstöku tilliti til þess hvað væri æskilegt að gera til að tryggja þau markmið okkar allra að halda byggð við í landinu með þeim hætti að þeir sem búa úti í strjálbýlinu, þeir sem eru á jaðarstöðum eins og Ísland er jaðarland gagnvart Evrópu, geti lifað í sátt og samlyndi og með þeim hætti sem æskilegt er.