Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Björn Valur Gíslason :
    Virðulegur forseti. Ég tel rétt að ítreka það sem kom hér fram hjá forseta áðan varðandi þessa utandagskrárumræðu sem ég óskaði eftir fyrir viku síðan, eins og sagt var frá, hálftíma umræðu í fullu samráði við forseta Sþ. og forseta þingdeilda. Síðan var það fyrir mjög mikinn og ítrekaðan þrýsting tveggja hv. þm. Sjálfstfl. sem kröfðust þess að þessi umræða yrði ótímabundin að það var fallist á það, það var ekki að minni ósk að slíkt var gert. Ég tel líka rétt að það komi hér fram varðandi þær umræður sem urðu í kvöld að þessi utandagskrárumræða mín var ekki byggð á einhverjum leyniplöggum úr ráðuneytinu. Grunnurinn fyrir þeirri umræðu er ekki þau plögg og mér var ekki kunnugt um þau plögg fyrr en nú í kvöld og hef þau ekki augum litið. En ég skal virða beiðni hæstv. forseta um það að reyna að stytta mál mitt og stikla aðeins á stóru um það sem rætt hefur verið hér í dag.
    Ég held að flestir sem hafa tekið til máls séu sammála um það og ég er sammála því líka að það er of lítið af fiski í sjónum handa þeim flota sem við eigum. Ég held að við hljótum að geta nokkurn veginn sameinast um það, hvar í flokki sem við stöndum, sem stuðningsmenn stjórnar eða stjórnarandstæðingar. Sjávarútvegsmálunum verður auðvitað að stjórna á einhvern hátt, ég held að við hljótum að geta verið sammála um það líka. En við getum hins vegar verið ósammála um það hvernig á að stjórna þeim, hvernig best er að stjórna þeim. Og við getum verið ósammála um það hvar á að minnka flotann og hvernig á að minnka flotann, hvort það verður best gert með kvótasölu eða eftir einhverjum öðrum leiðum.
    Ég ætla að stikla aðeins á stóru um þau atriði sem hafa komið fram í ræðum þingmanna í kvöld og vil byrja á að fjalla örlítið um ræðu hv. þm. Stefáns Guðmundssonar, 3. þm. Norðurl. v. Sú ræða var náttúrlega svo dæmalaust út úr kortinu að það nær nánast ekki nokkurri einustu átt. Ég get alveg upplýst þingmanninn um það að ég hef stundað sjó núna í sextán eða sautján ár, verið starfandi sjómaður. Og ég ætla rétt að vona það að einhvers staðar liggi ávísun upp á einhver kvótatonn handa mér ef ég skyldi nú fara í land og vinna þar. Kannski á ég einhverja tugi tonna uppi í ráðuneyti sem mér er ekki kunnugt um. Mér hefur aldrei verið úthlutaður kvóti. Ég geng ekkert í land frekar en aðrir sjómenn þegar þeir hætta á þeim skipum sem hafa verið að kaupa sér kvóta og fengið úthlutað kvóta í mörg ár. Ég geng ekki í land með minn hluta úr þeim, ég á ekkert í þessum kvóta. Ég fæ engan fisk til að ráðstafa, ég hef engan ráðstöfunarrétt á þeim kvóta sem það skip sem ég stunda mitt starf á fær að veiða. Það er alger misskilningur hjá hv. þm. ( Gripið fram í: En ef þú ættir hann?) Ef ég ætti hann? Ef ég ætti bátinn væri auðvitað verið að úthluta mér mjög óréttlátlega kvóta sem er sameign þjóðarinnar og ég á ekki að hafa neinn ráðstöfunarrétt á. Ef hv. þm., sem las hér upp úr lögum um stjórn fiskveiða, hefði bara byrjað á 1. gr. laganna,

þar sem segir að þessi kvóti sé sameign allrar þjóðarinnar, en síðan segir hann í næsta orði að þingmenn þessa flokks og þingmenn hins flokksins vildu bara taka þetta af eigendunum, af sjómönnunum, af útgerðarmönnunum. Þeir eru ekkert eigendur að þessu, langt í frá. Sé þetta misskilningur hjá mér þá hlakka ég nú til þeirrar jólagjafar sem ég fæ væntanlega frá ráðuneytinu upp á einhver tonn sem ég á þar vegna starfa minna sem sjómaður í mörg ár.
    Ég get auðvitað nefnt mörg dæmi um þetta. Ég get nefnt dæmi um mann sem var að hætta á togara núna norður í landi eftir 36 ára sjómennsku, búinn að vera á sjó í 36 ár og engin hlé þar á. Hann ætlaði að róa á sinni eigin trillu sem hann var búinn að vera að koma sér upp til margra ára. Þetta var aflaskip sem hann hafði verið á, skip sem hefur fiskað og verið í röð hæstu aflaskipa landsins í mörg, mörg ár. Sá sjómaður labbaði ekkert með neinar birgðir af fiski í land. Hann fékk örfá hundruð kílóa úthlutað á sína trillu og mun auðvitað aldrei fara að róa út á það, hún verður ekki einu sinni sjósett. Það er náttúrlega alger rökleysa og úr lausu lofti gripið að sjómenn hafi eitthvað með þetta að gera, það er tóm della.
    Sömuleiðis það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var að minnast á hér áðan með þátttöku sjómanna í uppbyggingu frystitogaraflotans og reyna að smyrja ábyrgðinni utan á þá líka af þessari frystitogarauppbyggingu.
Sjómenn hafa auðvitað ekki nein tök á því sem sjómenn eða hásetar á skipum að taka þátt í þessari uppbyggingu. Þeir eru bara launþegar um borð. ( GHG: Þeir eru ráðgjafar og taka þátt ef þeir vilja vera á skipunum.) Þeir vilja auðvitað vera á skipinu en þeir eru ekki ábyrgir fyrir því að verið sé að fjölga frystiskipum, það er langt í frá. ( GHG: Þeir taka þátt í því.) Þeir taka þátt í því sem launþegar. ( GHG: Já. Gerum við það ekki öll?) Auðvitað gerum við það öll en eru það einhver rök fyrir því að menn séu að byggja upp frystiskipaflota þó að þeir vinni á skipunum? ( GHG: Þeir vilja vera á skipunum og eru þar.) Auðvitað vilja þeir vera þar og menn velja sér vinnu eftir þeirri getu sem þeir hafa og kunna til en að þeir séu eitthvað ábyrgir fyrir fiskveiðistefnu eða uppbyggingu flotans ( GHG: Ég sagði ekki ábyrgir fyrir því.) eða hafi tekið þátt í uppbyggingunni, það er náttúrlega út í hött.
    Varðandi það sem hefur komið hér fram áðan hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, um ummæli sem annar hv. þm. lét falla í kvöld um hlut LÍÚ í þessum málum, þá hefur það auðvitað ekki farið neitt leynt og við hljótum að geta rætt það hér þó að stjórn eða forsvarsmenn LÍÚ sé ekki hérna, hver stefna þess félagsskapar hefði verið í þessu kvótamáli. Öll ummæli aðalforsvarsmanna Landssambands ísl. útvegsmanna hafa hnigið í þessa átt. Þetta er aðalstuðningsaðili kvótakerfisins. Og ég get ekki ráðið annað í mörg ummæli aðalforsvarsmanns þess félagsskapar en það að hann sé helst bara óánægður með tilvist smærri báta, að þeir séu hreinlega til. Það var haft eftir honum í sjónvarpi sem ég

sjálfur sá ekki fyrir löngu síðan. Hann sagðist vonast til þess að menn væru ekki svo vitlausir að fara að gera út 20 tonna bát sem var þá í umræðu. Það væri svo vonlaust, fara bara í stærra, helst togara. Menn fara ekki að veiða kvóta á svona óhagkvæma báta, vildu bara ekki sjá þá. Þetta hefur auðvitað ekki farið leynt.
    Þar sem var rætt í kvöld um verðlag á bátum, verðmyndun hjá sjávarútveginum, þá hafa þau hlutföll náttúrlega raskast gífurlega á undanförnum árum. Nú fer verð skipa ekkert eftir gæðum skipanna eða stærð. Það hefur ekkert lengur með þau mál að gera. Nú ræðst verð skipanna af þeim kvóta sem þeim hefur verið úthlutaður og ekki eftir neinu öðru. Við getum þannig verið með gömul og ný skip hlið við hlið og þau eru verðlögð á sama pening og jafnvel í öfugu hlutfalli við gæðin. Sama á við um fiskvinnslustöðvar. Við vorum að ræða hér um daginn um hugsanlega sölu á Þormóði ramma á Siglufirði. Auðvitað ræðst verðið á því fyrirtæki af þeim kvóta sem það hefur. Tækjabúnaður og gæði skipa og fiskvinnslustöðva hafa ekkert með það að gera lengur. Fiskvinnslustöð í landi sem ekki hefur aðgang að fiskimiðum hefur auðvitað engan rekstrargrundvöll af því að hún kemst ekki inn í það núna. Vita hv. þm. á hvaða verði kvótakíló gengur í dag? 160 kr. kílóið. Aðili sem var að kaupa sér kvóta var að sýna mér það um daginn. Það eru engir samkeppnisfærir um þetta. Og varðandi þann fyrirvara sem er í lögunum um forkaupsrétt sveitarfélaga á kvóta, ef hann er seldur úr byggðarlögum, get ég nefnt að sjálfur er ég starfandi í sveitarstjórn og hef verið í mörg ár og ég hef ekki heyrt einn einasta sveitarstjórnarmann, alla vega í mínu kjördæmi og þar um slóðir, sem hefur nokkurn áhuga á að láta neyða upp á sveitarfélögin einhvern forkaupsrétt, gera þau ábyrg fyrir því ef kvóti verður seldur úr byggðarlaginu. (Gripið fram í.) Eiga þau að vera ábyrg fyrir því ef kvóti er seldur úr byggðarlaginu? Ábyrgðin hlýtur að liggja hér, hjá ykkur sem ráðið. Það hlýtur að vera. Heldur hv. þm. að sveitarfélög eins og Grímsey eða Ólafsfjörður hafi einhver tök á því að fjárfesta í hundraða eða þúsunda tonna kvóta? Hvar eiga þau að fá peninga í það? Þetta er bara rökleysa sem ekki er hægt að byggja neitt á, þetta er enginn fyrirvari sem hægt er að treysta á.
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja mál mitt mjög úr því sem komið er til að tefja ekki fundinn. Ég er alveg sammála því sem hefur komið fram í ræðum margra þingmanna hér í dag, ég leyfi mér að efast stórlega um það að stór hópur þingmanna hafi nokkra minnstu hugmynd um það hvað þeir voru að samþykkja þegar þeir réttu upp hendina og staðfestu þessa fiskveiðistefnu. Ég tel það bara sönnun þess hve fáir eru hér til að taka þátt í umræðu um þessi mikilvægu mál hér í kvöld eins og lætin voru þó í dag. Ég tel það sönnun þess. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég er viðstaddur umræðu um fiskveiðimál á Alþingi og hef þó alltaf áður verið uppi á áheyrendapöllum. Ég man ekki eftir því að það væru fleiri hér inni þegar þessi mál fara að dragast á heldur en þessir örfáu aðilar, og alltaf sömu þingmennirnir. Það væri kannski ástæða til þess að setja á fót ráðstefnu eða kynningarnámskeið handa hv. þm. til að koma þeim inn í þetta mikilvæga mál. Þetta er þó aðalhagsmunamál okkar þjóðar sem við erum að byggja á. Og mér finnst margir hv. þm. ekki hafa næga þekkingu til að fjalla um þetta mál, hvað þá að greiða því atkvæði á einhvern veg.
    Það er alveg ljóst, eins og ég sagði í dag, að afleiðingar af þessari fiskveiðistefnu og fiskveiðistjórnun sem var samþykkt á Alþingi fyrir ekkert löngu síðan verða skelfilegar ef þetta heldur svona áfram. Það er alveg ljóst. Áhrifin af þessari lagasetningu eru fyrst að koma í ljós núna af fullum krafti og það verður ekkert aftur snúið ef ekki verður gripið í taumana strax.
    Það verður að tryggja það á einhvern hátt, og það er það sem ég er að vekja athygli á í þessari umræðu, að fólk sé ekki sett á vonarvöl, settir afarkostir, búi við þá óvissu sem fylgir kvótasölunni í dag. Það verður að reyna að koma því svo fyrir að kvótinn verði tryggður einhvern veginn í byggðunum og fólkinu sem byggir landið en ekki einhverjum kaupsýslumönnum og fjársterkum aðilum sem geta svo ráðstafað kvótanum að eigin vild. Það er það sem verið er að tryggja. Ég átti auðvitað ekki von á neinni kollsteypu hjá hæstv. sjútvrh. þó að þetta kæmi til umræðu í dag og geri mér engar vonir um slíkar steypur. ( Gripið fram í: Eru ekki um 80% í eigu vinnslunnar?) Mér er ekki kunnugt um hve stór sá hluti er, en ég veit að það fer ört hækkandi það sem vinnslan hefur yfir að ráða og það vita allir sem vilja vita.
    Ráðherrann sagði að hér yrði auðvitað um að ræða einhverja sameiginlega lausn á þessu máli. Ég er alveg sammála því, það verður að vera einhver sameiginleg lausn sem allir geta sæst á. En mér finnst það ekki vera nein sameiginleg lausn þegar fólk stendur upp allt í kringum landið og mótmælir þessu harðlega og krefst þess að hlutur þess sé réttur en það er ekkert litið á það. Mér finnst það ekki sameiginleg lausn. Það er ekki verið að leita neinna sátta.
    Smábátum fjölgaði auðvitað á sínum tíma og það var ekkert ómeðvitað. Það gerðist ekki bara allt í einu. Þeim fjölgaði auðvitað af því að annaðhvort var það stefnan eða ekkert gert í því að koma í veg fyrir það. Þeim fjölgaði ekkert ósjálfrátt. Það er auðvitað hluti af fiskveiðistefnunni að stýra stærð flotans og umfangi hans. Það er hluti af fiskveiðistefnunni, eins og kom fram hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að það þarf að hafa blandaðan flota, við þurfum auðvitað á því að halda. Við þurfum á að halda öllum tegundum helst af fiskveiðiskipum og helst sem fjölbreyttastri fiskvinnslu. Það er hluti af stefnunni líka. En við erum bara ekki sammála um leiðir. Ég er ósammála þeirri leið í stórum dráttum að það eigi að stýra fækkun í flotanum með kvótakerfinu, með sölukerfinu, því að sú leið felur það í sér að sá sem er sterkur fyrir hefur mesta möguleika á að stækka og styrkjast á kostnað hinna sem minni eru. Við erum að tala um einn pakka af fiski og ef einhver kaupir eitthvað, þá tekur hann það annars staðar frá, það er alveg ljóst. Þetta kerfi byggir á því á stórum dráttum að sá stóri verður ofan á, sá sterki verður ofan á. Og ég er ekki sammála því að bátum verði fækkað á þann hátt. Það eru engin rök, það er engin tenging þar á milli að það sé verið að fækka óhagkvæmum skipum. Við vitum það alveg hreint að útgerðaraðili á smábát sem hefur yfir að ráða kannski 50 -- 100 tonna kvóta kaupir ekki kvótann í stórum stíl á 160 kr. kílóið. Það gerir enginn nema sá sem hefur yfir umtalsverðu peningamagni að ráða og góðum aðgangi að peningastofnunum. Það verður auðvitað að finna einhverja aðra leið en þessa hreinu markaðsleið til að fækka í flotanum. Við erum sammála um það, held ég, öll að flotinn sé of stór og fiskstofnarnir ekki nægilega sterkir.
    Annað er það sem núna síðustu dagana er að koma upp á yfirborðið og gerir þetta mál auðvitað enn erfiðara í umræðu og enn meira særandi fyrir þessa smábátaútgerðarmenn. Það er þessi aukaúthlutun á kvóta, á aflaheimildum, sem er að koma á hin og þessi skip þessa dagana sem er margfaldur sá kvóti sem margir trillukarlar eru að fá í dag. Ég get nefnt dæmi af bátum í landi sem hafa ekki komið nálægt sjó í fjögur ár, eru búnir að hanga uppi í slipp og eru orðnir ónýtir, það stóð jafnvel til að gera einn að safni, byggðasafni. Hann fékk úthlutun upp á 46 tonn í aukaúthlutun, 46 tonn, takk fyrir. Ég ætla að vona að ég eigi einhvers staðar kvóta ef þetta á að vera svona með sjómenn líka. Annar bátur norður í Ólafsfirði, svo að ég geti sagt frá því, sem er búinn að vera bundinn við bryggju í fjögur ár líka, hefur aldrei farið á sjó og hangir nánast í spottunum og ef hann yrði leystur, þá færi hann auðvitað beinustu leið niður, hann fékk 54 tonn. Samanlagt fengu þessi tvö flök 100 tonna kvóta sem er margfalt það sem margir trilluútgerðarmenn eru að fá. En kannski það sé í samræmi við það sem sömu menn hafa verið að fiska á sínar trillur. Þetta svíður mönnum auðvitað. Mönnum svíður undan svona æfingum. Mönnum svíður að þurfa að horfa upp á flök, ónýt skip sem ekki hafa komið nálægt sjó, eru bara á landi til margra ára, vera að fá kvóta. Vitið þið hvers virði þessi kvóti er í dag, 40 -- 50 tonn? Þið getið bara margfaldað hann með þeim tölum sem ég var að nefna þarna, þá sjáið þið hvað verið er að færa mönnum upp í hendurnar. Og það eru engir sjómenn á þessum skipum, það eru engir sjómenn sem hafa yfirráðarétt yfir þessum kvóta. Það eru auðvitað eigendur að skipunum. Ekki verður hringt í þá sjómenn sem reru á þessum skipum, kannski til margra ára, og sagt: Það er kominn kvóti, nú er best að skipta þessu. Það eru auðvitað eigendur skipanna sem fá þennan glaðning núna í jólamánuðinum.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt meira en komið er en það væri þarft að ræða þetta ítarlegar og drepa á fleiri mál þessu tengd, eins og t.d. útflutningi á óunnum fiski sem er auðvitað kominn úr böndunum og er alltaf að komast upp um eitthvert svindl í þeim málum. Það væri ástæða til að ræða þessar vigtunarreglur á smábátum og eftirlitskerfið, leyniþjónustuna úr ráðuneytinu sem húkir við horn og fylgist með hvort allir vigti fisk og kærir síðan. Við erum að fá slíkar kærur inn á borð í sveitarstjórnum um allt land, nærri vikulega um tíma, þó að það hafi ekki komið núna í haust. Í sumar fengum við inn til okkar dag eftir dag kærur eða ábendingar um að hinir og þessir hefðu ekki vigtað aflann og eftirlitsmaðurinn húkir við horn, skrifar hjá sér. Það er búið að gera okkur í sveitarstjórnum ábyrg fyrir að það sé gert. Við erum orðin ábyrg fyrir því. Við eigum að sjá um að þessu sé framfylgt.
    Það væri ástæða til að ræða þessi ár líka sem alltaf er verið að miða úthlutun kvóta við og var gert á sínum tíma þegar kvótinn var settur á fyrir sex eða sjö árum. Þau viðmiðunarár geta auðvitað komið mörgum byggðarlögum alveg hræðilega illa. Ég nefni ástand sjávar fyrir Norðurlandi síðustu ár sem hefur valdið algerum aflabresti og aldrei verið önnur eins vertíð fyrir Norðurlandi eins og í vetur þar sem varla fékkst bein úr sjó. Þetta er ekki gott til viðmiðunar. Sama var hjá okkur þessi viðmiðunarár þegar kvótinn var settur á á sínum tíma. Þá var aflabrestur, það var engin veiði og við búum við það enn í dag af því að við fengum lítinn kvóta úthlutaðan.
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú að ljúka máli mínu og láta hér við sitja að sinni.