Veiðiheimildir smábáta
Mánudaginn 17. desember 1990


     Skúli Alexandersson :
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir það að mega gera hér örstutta athugasemd vegna þeirrar fullyrðingar hv. 14. þm. Reykv. að Ísland væri jaðarsvæði í sambandi við sjávarútveg. Ég vil mótmæla þessari fullyrðingu. (Gripið fram í.) Ekki sem þjóð heldur í sambandi við þetta mál sem við erum að fjalla um hér. Ég vil koma því að. Ég vil mótmæla því að Ísland sé í einu eða neinu jaðarsvæði í sambandi við útgerð eða sjávarútveg. Það er alveg þveröfugt. Það getur verið kjarni á þeim vettvangi. Það var aðeins þetta sem ég vildi að kæmi fram. Um þetta er hægt að ræða og hafa mörg orð en ég vildi aðeins undirstrika það að ég lít þannig á að til þess að lifa hér á Íslandi og lifa hér góðu lífi, þá þurfum við einmitt að gera okkur grein fyrir þessari stöðu. Við eigum aldrei að viðurkenna það að hér á Íslandi sé jaðarsvæði í sambandi við sjávarútveg eða sjávarvinnslu.