Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 17. desember 1990


     Frsm. félmn. (Jóhann Einvarðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. félmn. um frv. til laga um breyting á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Það fjallar um að fella niður stimpilgjöld af framkvæmdalánum til byggingar félagslegra íbúða. Við felldum í vor niður stimpilgjöld af þessum íbúðalánum til einstaklinga en einhverra hluta vegna datt það upp fyrir að láta framkvæmdalánin fylgja þar með. En fram að þessu hefur það ekki verið venjan, þangað til breytingin varð í vor, að taka stimpilgjöld af framkvæmdalánum þar sem það eru í flestum tilfellum sveitarfélög sem hafa tekið að sér að annast byggingu félagslegra íbúða en núna hafa komið til aðrir aðilar og hefur húsnæðismálastjórn því krafist sérstakrar tryggingar og þá um leið verið tekið stimpilgjald af framkvæmdalánunum.
    Um þetta mál varð samkomulag í félmn. og öll nefndin stendur einhuga að því að mæla með samþykkt þessa litla frv. Undir nál. skrifa allir nefndarmenn, Margrét Frímannsdóttir, Guðmundur H. Garðarsson, Karl Steinar Guðnason, Jón Helgason, Salome Þorkelsdóttir, Jóhann Einvarðsson og Danfríður Skarphéðinsdóttir.