Launamál
Mánudaginn 17. desember 1990


     Birgir Ísl. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar sem hér er verið að staðfesta eru eitt alvarlegasta dæmi síðustu ára um siðferðisbrest stjórnmálamanna. Í aðdraganda þeirrar lagasetningar hefur allt gerst í senn: Samningar eru ekki virtir, orð og loforð ráðherranna standa ekki, niðurstaða dómstóls er sniðgengin og bráðabirgðalögum er beitt með vafasömum hætti. Einörð afstaða þingflokks sjálfstæðismanna í þessu máli hefur vakið upp umræðu um siðleysið í íslenskum stjórnmálum og um þjóðfélagið fer nú sterk bylgja þar sem krafist er bætts siðferðis stjórnmálamanna. Þetta lagafrv. er varanlegt tákn um þann siðferðisbrest sem einkennt hefur störf þessarar ríkisstjórnar. Ég segi nei.