Héraðsskógar
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Egill Jónsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til hæstv. landbrh. með að hér hefur verið lagt fram frv. til laga um Héraðsskóga á Fljótsdalshéraði. Mér þykir hins vegar vert að taka það fram að mér hefur ekki gefist kostur á að fara nákvæmlega yfir þetta frv. og þaðan af síður bera það saman við umsagnir sem væntanlega eru fyrir hendi frá því að þetta mál var lagt fram á síðasta þingi og sent þá til umsagnar. Hins vegar sé ég ekki neina ástæðu til að málinu verði frestað mín vegna þó að hér sé knappur tími vegna þess að ég á þess kost að fjalla um málið í landbn. Ed. Þar gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess að skoða það frá ýmsum hliðum.
    Ég tel hins vegar ástæðu til að benda á það hér að mér finnst frv. ekki sérstaklega markvisst. Þetta er frv. um gerð áætlunar til 40 ára og það út af fyrir sig er ekki mikið vandamál, að gera áætlun í ræktunarmálum til 40 ára, því auðvitað skeður margt á skemmri tíma en 40 árum og það meira að segja miklu skemmri tíma. Enginn vafi er á því að erfiðasti þátturinn í þessum efnum er að fá fjármagn til þessa verkefnis og þarf ekki lengra að fara en til samþykktar ríkisstjórnarinnar, Þingvallasamþykktar ríkisstjórnarinnar frá því í fyrrasumar, þar sem það fjármagn sem þar var um fjallað komst engan veginn til skila í síðustu fjárlögum. Enda er tekið fram í 2. gr. frv. að kostnaður við starfsemi Héraðsskóga greiðist úr ríkissjóði með sérstakri fjárveitingu sem færð er undir landbrn. Þetta er nú það sem segir um kostnaðarhlið þessa verkefnis. Og svo í 3. gr. að gerð skuli áætlun, Héraðsskógaáætlun, um nýtingu þess lands á Fljótsdalshéraði sem er vel fallið til skógræktar og, eins og ég hef áður sagt, að þeirri áætlun skuli skipt í fjögur tíu ára tímabil. Ég mun að sjálfsögðu leita eftir því við afgreiðslu málsins og kanna sem nákvæmast hvað felst í rauninni í þessu.
    Ég endurtek það að lokum, virðulegur forseti, sem ég sagði áðan, að það er fjármagnið sem skiptir máli í þessum efnum. Við þá fjárlagagerð sem nú fer fram og eins við þá fjárlagagerð sem fór fram fyrir einu ári voru uppi miklir erfiðleikar með að fá fjármagn til þessa verkefnis. Meira að segja svo miklir að þar var ekki mætt óskum ríkisstjórnarinnar sjálfrar og í hennar eigin tillögum, þ.e. í fjárlagafrv., var ekki að finna það fjármagn sem þurfti til þessa verkefnis. Í þessum efnum duga því að sjálfsögðu ekki orðin ein. Ég fæ ekki séð hvernig hægt er að gera samninga eins og kveðið er á um í 3. gr. við svo og svo marga skógarbændur, sem kveða væntanlega á um ákveðin fjárútlát af hendi hins opinbera, án þess að frá því sé gengið með skýrari hætti en hér liggur fyrir. En þetta er að sjálfsögðu eitt, virðulegi forseti, af því sem verður fjallað um í landbn. og sé ég ekki neina ástæðu til þess að fara ítarlega yfir það hér. Eins og ég hef áður sagt hef ég ekki haft tök á að fjalla um málið með þeim hætti að ég hafi fengið þar sannfærandi niðurstöðu. Þess vegna vænti ég að málið fái greiða leið í gegnum þessa hv. deild svo landbn. geti

tekið til starfa á sínum vettvangi.