Héraðsskógar
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Herra forseti. Ég þakka þær umræður sem hafa orðið hér og vil svara spurningu hv. síðasta ræðumanns, 18. þm. Reykv.
    Það er gert ráð fyrir því og hefur reyndar verið bæði á síðasta ári og hinu næsta þar á undan að fjárveitingar haldi áfram samhliða þessu verkefni til bænda og skógræktaraðila annars staðar í landinu. Reyndar var það svo að með tilkomu héraðsskógaverkefnisins á síðasta ári, þar sem fjárveitingar færðust um þann farveg til allra þeirra bænda sem skógrækt stunduðu á Fljótsdalshéraði en áður höfðu fengið stuðning af hinum almenna lið Skógræktar ríkisins sem færður er þar undir nytjaskóga, varð meira til ráðstöfunar og skiptanna handa bændum annars staðar í landinu. Áður höfðu bændur á Fljótsdalshéraði verið með stærsta einstaka hlutann af þessum fjárveitingum sem, ef ég man rétt, voru um 15 millj. kr. á síðasta ári. En af þessu átaki leiddi að meira var til ráðstöfunar til bænda annars staðar. Þar er um nokkuð stór verkefni að ræða, bæði í Eyjafirði, Borgarfirði, á Suðurlandsundirlendinu og víðar. Það er að sjálfsögðu ætlun okkar og von að um áframhaldandi stuðning við skógrækt einstakra bænda verði að ræða og þá í formi fjárveitinga sem færðar eru undir Skógrækt ríkisins og þann lið þar sem nefndur er nytjaskógar. Hér er að sjálfsögðu á ferðinni verkefni af allt annarri stærðargráðu og nokkuð öðruvísi hugsað þar sem gert er ráð fyrir að þeir sem þátttakendur eru geti að einhverju leyti eða jafnvel verulegu leyti unnið sjálfir við verkefnið og haft af því tekjur en stuðningur við skógrækt annars staðar hefur enn sem komið er fyrst og fremst verið í formi plantna sem lagðar hafa verið til.
    Ég hef hins vegar séð þetta þannig fyrir mér að þetta átak og þetta mál geti gjarnan orðið hið fyrsta af fleirum sem ráðist verði í. Að sjálfsögðu mun það fara eftir þeim áhuga og þeim fjármunum sem hið opinbera verður tilbúið til að leggja til þessara mála á næstu árum og áratugum. Ég vona svo sannarlega að ekki þurfi að bíða þess í 40 ár að næsta stóra verkefni hefjist á þessu sviði. Hitt kann að vera skynsamlegt að koma þessu vel á veg og meta síðan reynsluna af því að nokkrum árum liðnum og taka hana inn í myndina þegar hafist verður handa í jafnstórum stíl annars staðar. Að sjálfsögðu eru svo ýmiss konar verkefni í gangi bæði á vegum Skógræktar ríkisins, skógræktarfélaga, félagasamtaka, einstaklinga víða um land og í heildina tekið hefur verið mikill vöxtur og mikil gróska á þessu sviði eins og best sést á hraðvaxandi eftirspurn eftir plöntum. Í raun og veru er það þannig að nokkur sl. ár má segja að flöskuhálsinn í skógræktarmálum hafi verið ónógt framboð af plöntum.
    Ég vona að þetta hafi að einhverju leyti svarað spurningum hv. þm. og þakka svo þær undirtektir sem þetta mál hefur fengið.