Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Mér er nær að halda að það hörmulega mál sem upp kom við setningu bráðabirgðalaganna eigi sér mjög langar og djúpar rætur, langt, langt aftur í aldir, til þess tíma þegar vestrænu þjóðfélagi var skipt í nokkrar starfsstéttir og efst trónaði aðallinn, síðan komu embættismenn sem margir hverjir voru fátækir, höfðu frekar léleg kjör en örugg, þeir voru meðal þeirra fáu sem höfðu örugg kjör í tilverunni þó þau væru léleg. Auðvitað voru kjör þessara manna afskaplega mismunandi. Það fór eftir eðli og dýrð embættanna, en allt voru þetta menn sem ekki gátu farið í verkfall. Þeir gátu ekki mótmælt kjörum sínum. Það eina sem þeir gátu gert var að þiggja þau og gera sér sem mest úr þeim.
    Það voru einnig aðrar starfsstéttir sem gátu nokkru ráðið um kjör sín, þ.e. iðnaðarmenn og bændur og síðan kom hinn almenni verkalýður. Iðnaðarmenn og bændur gátu að nokkru ráðið kjörum sínum með því að verðleggja og selja vöru sína, þ.e. annars vegar starf sitt og hins vegar afurðirnar, en verkalýðurinn sjálfur var mjög illa settur, þ.e. fjárhagslega séð og ákvarðanalega séð. Svo liðu árin og verkalýðurinn fór að gera uppreisn og það var eins og við manninn mælt, við hlið verkamanna stóðu yfirleitt alltaf stúdentarnir. Og hvers vegna stóðu stúdentar við hliðina á verkalýðnum þegar hann var að gera uppreisn vegna sinna löku kjara? Jú, það var af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi vegna þess að þeir álitu að þetta væri réttlætismál. Í öðru lagi af því að þeir fundu til samkenndar með þessu fólki sem var launafólk alveg eins og þeir vissu að þeir sjálfir mundu síðar verða.
    Það leið óralangur tími frá því að verkalýðurinn byrjaði að berjast fyrir bættum kjörum og berjast fyrir því að hafa verkfallsrétt þangað til hann fékk hann. Og enn þá lengri tími leið þangað til opinberir starfsmenn fengu þennan sama rétt. Allan þann tíma höfðu þeir starfsöryggið nokkuð gott, þeir höfðu lífeyrissjóði jafnvel, gátu átt von á smáeftirlaunum. Við þekkjum þetta t.d. úr sögu Snorra á Húsafelli sem gat fengið eftirlaun en þau afskaplega léleg. Hæstv. forsrh. taldi einmitt lífeyrissjóðinn til hlunninda opinberra starfsmanna sem mætti meta frá allt að 3% og upp í 15%. Ég held nú að sá lífeyrissjóður, sem eins illa er búið að fara með og hann og stendur frammi fyrir því að verða meira en galtómur um næstu aldamót, veiti ekki margra prósenta kjarabót. Ég held því að hann sé ekki mikið til að hampa.
    Auk þess ræddi hæstv. forsrh. um það að ómæld yfirvinna ríkisstarfsmanna væri líka nokkurra prósenta virði. Mér er ekki kunnugt um þá opinberu starfsmenn sem fá ómælda yfirvinnu greidda án þess að vinna miklu meiri yfirvinnu heldur en þeir fá greitt fyrir. Mér er ekki kunnugt um það. Þeir fyrirfinnast kannski og hæstv. forsrh. getur kannski upplýst hvaða persónur það eiginlega eru eða starfsstéttir sem svoleiðis er ástatt um.
    Þannig er arfurinn frá fornum tíma enn þá við lýði. Opinberir starfsmenn eiga ekki að geta farið í verkfall. Þeir eiga að vera ánægðir með hlutskipti sitt vegna þess starfsöryggis og lífeyrisöryggis sem þeir eiga að hafa. Hvort tveggja er nú samt sem áður á undanhaldi því að starfsöryggið er takmarkað orðið og eins og ég sagði lífeyrissjóðurinn heldur í rýrara lagi og verður sífellt rýrari.
    En það var hæstv. umhvrh. sem ræddi um það einmitt áðan að ríkisstarfsmenn ættu sér enga hliðstæðu á almennum vinnumarkaði nema einstaka, eins og læknar og tannlæknar og nokkrir aðrir. Það getur vel verið að þetta sé hárrétt, að þeir eigi ekki hliðstæðu í störfum en þeir eiga þó alla vega hliðstæðu í þeirri menntun sem þeir hafa aflað sér og hlýtur að vera hægt að taka eitthvert tillit til þess.
    Það eru ekki nema nokkur ár síðan opinberir starfsmenn fengu rétt til að fara í verkföll. Allan þann tíma sem þeir hafa getað farið í verkföll hefur það hvimleiða átt sér stað að sumir ráðherrar í þeim ríkisstjórnum sem setið hafa hafa gert sér mat úr því að reyna að æsa stéttirnar hverja á móti annarri, almennan verkalýð og BHMR. Þetta hefur þráfaldlega skeð þrátt fyrir það að embættismannasynirnir og stúdentarnir hér áður fyrr fundu til samkenndar með verkalýðnum og
börðust með þeim í verkföllum og uppreisnum. Þrátt fyrir að þeir finni til þessarar sömu kenndar enn þann dag í dag hefur tekist, því miður, að egna þessar stéttir saman, jafnvel á hinn ósmekklegasta hátt. Þetta er eitt af því sem mér finnst ljótast í samningamálum BHMR - manna og ríkisvaldsins hvernig þetta hefur skeð æ ofan í æ.
    Árið 1989 voru svo samningar gerðir eins og allir vita. Hæstv. forsrh. sagði að þá hefði verið fallist á að reyna að jafna kjör háskólamenntaðra manna innan ríkisgeirans við kjör háskólamenntaðra manna á almennum vinnumarkaði. Hann vildi bara ekki gera það strax. Þetta átti að teygjast og treinast í þrjú ár og jafnvel lengur. Það voru því ekki BHMR - menn sem vildu gjarnan fá kauphækkun hinn 1. júlí 1990, heldur var það ríkisstjórnin sem hafði reynt að teygja lopann nógu lengi til þess að bæði 1. júlí og seinna meir kæmu loksins hækkanirnar. Það er ekki hægt að kenna háskólamenntuðum um það, finnst mér.
    Það er dálítið sérkennilegt að VSÍ, sem hlýtur að vera fulltrúi þeirra sem bæði greiða háskólamenntuðum mönnum kaup á almennum vinnumarkaði og líka verkalýðnum, skuli ekki geta hugsað sér að háskólamenntaðir menn innan ríkisgeirans fái viðlíka tekjur og háskólamenntaðir menn innan hins almenna geira. Þetta eru þó fulltrúar hinna almennu vinnuveitenda og þetta er sérlega þröng hugsun. Ég get ómögulega skilið hvernig stendur á að þeir hugsa svona því að það virðast vera vinnuveitendur, eftir því sem Einar Oddur, formaður VSÍ, upplýsti, sem vildu gjarnan knýja á og virðast raunar hafa ásamt ASÍ neytt ríkisstjórnina til þess að setja margumtöluð bráðabirgðalög, neytt hana með því að vísa til samninga sem þeir sjálfir voru búnir að gera, samninga sem voru klúður. Málið er allt frá upphafi til enda afburða sorglegt.
    Ég er alveg hárviss um það að ráðherrar í ríkisstjórn okkar eru ekki nein varmenni. Þeir vilja ekki gera neitt sem brýtur í bága við stjórnarskrá og landslög en þeir voru komnir í slíka öng að þeim varð það á að gera þetta. Og þeim tókst ekki heldur að bæta fyrir það þegar þeir sáu í hvaða óefni þeir voru komnir. Auðvitað kom það upp fyrr en seinna um leið og dómar voru fallnir í málinu að þeir höfðu verið að gera rangt. Það er auðvitað afskaplega erfitt að snúa frá villu síns vegar og bæta fyrir það sem rangt var gert, en þeir hefðu átt að gera enn þá meira í þá veru en þeir gerðu. Þeir segjast hafa reynt að gera það en þeir hafa, held ég, ekki reynt nóg, ekki reynt til þrautar.
    Það getur ekki staðist, eins og margoft er búið að segja í kvöld, að hægt sé með lagasetningu að breyta dómi. Það er ekki hægt að koma með ný lög og kippa stoðum undan dómnum og segja: Allt í plati, eins og krakkar sem eru að leik úti á skólavelli. Slíkt er ekki hægt. Í samfélaginu gilda önnur lögmál en á skólavellinum. Við getum ekki sagt: Þetta er ómark, þetta á að vera í plati, við meintum eitthvað allt annað.
    Ég held að það fari ekki á milli mála að við urðum vitni að stjórnarskrárbroti við það að þessi lög voru sett. Og þar er ég komin að enn þá alvarlegra máli. Það er alvarlegt mál þegar stjórnvöld spila á það að reyna að æsa stétt mót stétt, deila og drottna. Þetta er ekki nýtt fyrirbrigði. Þetta er ævafornt. Þeir hafa kunnað það frá alda öðli að deila og drottna, stjórnmálamennirnir, allt frá Sesari og jafnvel miklu lengur aftur. En það er annað sem er enn þá alvarlegra og það er fordæmisgildi sem þessi lagasetning hefur. Það hefur komið í ljós í umræðunum hér í dag að í sögu þessa lýðveldis hafa verið sett a.m.k. 260 bráðabirgðalög, sem er geysilega mikið. Og mér er nær að halda að þeir sem hafa staðið hér að öllum þessum bráðabirgðalagasetningum hafi stundum gleymt sér í gleði valdsins, gleymt því að þeir hlutu vald sitt frá þjóðinni og frá þinginu hérna, ekki að ofan eins og sólkonungurinn gerði eða áleit sig gera. Valdið kemur frá þjóðinni og það er ekki hægt að klekkja stanslaust á þjóðinni með slíkum lagasetningum.
    Einhver ógeðfelldasta lagasetning af þessu tagi sem ég man eftir var gerð 19. júní fyrir nokkrum árum þegar hæstv. samgrh., Matthías Bjarnason, knúði fram að setja lög á kvennastétt einmitt á hátíðisdegi kvenna. Manni fannst þá að þetta væri af illgirni gert að klekkja nú pínulítið á konum. Ekki vil ég segja að það sé rétt. Kannski var það allt saman tilviljun að þetta gerðist þennan dag og í rauninni hafa kynni mín af Matthíasi Bjarnasyni ekki gefið það til kynna að hann sé neitt illgjarnari en aðrir menn. Kannski var þetta klaufaskapur hjá honum alveg eins og það hefur kannski líka verið klaufaskapur að setja þessi bráðabirgðalög núna. Eru þeir þá alltaf að setja einhver klaufalög, þeir sem stjórna þessu landi?
    En það er meira í húfi en bara ein lög. Það sem fyrst og fremst er í húfi er fordæmið. Eftir höfðinu dansa limirnir, er sagt. Ef þeir sem stjórna landinu eru berir að því að þurfa ekki að standa við orð sín, ef

þeir geta sagt eitt í dag og annað á morgun og gleymt því bara hreinlega hvað þeir sögðu fyrir nokkrum dögum og gert svo eitthvað allt annað en þeir sögðust ætla að gera þá eru þeir að gefa hinum sem horfa upp á ríkisstjórnina ansi slæmt fordæmi. Ég held að fordæmisgildið í setningu þessara laga og ýmissa annarra bráðabirgðalaga sé það versta. Og kannski eru þessi bráðabirgðalög sem voru sett núna einmitt afkvæmi allra þessara 260 bráðabirgðalaga sem búið er að setja. Fleiri og fleiri bráðabirgðalög, allt í lagi, valdhafinn getur sett lög og hugsað: Það gengur, þingið samþykkir þetta bara þegjandi og hljóðalaust á eftir. Þau 260 lög sem búið er að setja til bráðabirgða hafa áreiðanlega átt sinn þátt í því að þessi lög voru sett. Við erum á óheillabraut með bráðabirgðalögum og við verðum að víkja af henni. Sennilega er hið eina rétta að afnema bráðabirgðalagamöguleikann.
    Hv. 7. þm. Reykn. og umhvrh., Júlíus Sólnes, sagði að kjarabæturnar sem við fengum og værum að fá hefðu átt að koma BHMR - mönnum til þess að vera samvinnuliprari, afsala sér 4,5% hækkuninni á sínum tíma og bíða bara þangað til einhvern tíma seinna eftir að fá hana. Það er auðvitað hægt að segja svona, að þeir geti bara beðið, þeir séu að fá eitthvað. Þeir voru ekki að fá neitt meira en allir aðrir. Þó það væri rétt sem hæstv. ráðherra segir að kjarabæturnar hefðu orðið svona miklar, þá væru þeir ekki að fá neitt meira og enga leiðréttingu á sínum málum þó að sameiginlegur grundvöllur batni. Ég get ekki séð að svo sé.
    Það er mikið óþurftarverk að blanda sífellt saman BHMR - samningunum og þjóðarsáttinni. Þjóðarsátt er eitt og BHMR - samningar er annað. Ef VSÍ og ASÍ hefði verið svo umhugað um að halda þjóðarsáttinni, láta allar þær góðu kjarabætur, sem hæstv. umhvrh. segir að við séum að fá, koma til framkvæmda og við að njóta þeirra, hefðu þeir síst af öllu átt að reyna að þvinga forsrh. og stjórnina til að setja þessi lög. Þeir hefðu átt að reyna að skilja það að framkvæmd laganna mundi færa okkur út í þá ófæru sem við erum núna í, því að núna erum við einmitt í keldunni. Við erum á kafi í keldunni af því að við stigum rangt skref sl. sumar.
    Ráðherrar í ríkisstjórnum eru auðvitað mannlegar verur eins og allir aðrir. Þeim getur brugðist bogalistin, þeim getur missést og það er ekkert yfir því að sakast. En þeir þurfa líka að vera menn til þess að leiðrétta það sem þeir gerðu rangt. Ég treysti því að þessi ríkisstjórn, og ef ekki þessi ríkisstjórn þá alla vega sú næsta sem er sjálfsagt ekki svo óskaplega margir mánuðir í, muni leiðrétta það ranglæti sem BHMR - menn hafa orðið fyrir. En umfram allt verðum við að muna það að ef við höldum áfram á þessari geysilega hæpnu bráðabirgðalagabraut þá getur það endað með því að þjóðinni verði bara stjórnað með tilskipunum, tilskipunum fólks sem hefur gleymt hvaðan það fékk völdin og gleymt hverjum það á að þjóna. --- [Fundarhlé.]