Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín spurningu sem mér er ljúft að reyna að svara. Það er til máltæki enskra lögfræðinga sem segir eitthvað á þessa leið: Erfið mál kalla á erfið lög. Þið takið eftir röðinni. Það er svo um þetta mál að það er erfitt. Þess vegna hefur það valdið ágreiningi víða og kannski er skoðanamunur innan Sjálfstfl. óljúgfróðasta vitnið um það. Það var ekki létt spor að stíga að þurfa að taka til þessara ráða. Þó varð ekki undan því vikist því málið er erfitt. Ég get ekki státað af því að vera jafngagnkunnugur því sem skrifað er í Morgunblaðið eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann er mjög fróður um það ritverk allt. Ég segi það eitt að ég get staðfest að forsrh. hefur jafnan lagt áherslu á að ítarlegar tilraunir væru til þess gerðar að ná samningum við BHMR. Því miður tókst ekki að ná slíkum samningum. Ég get hins vegar ekki staðfest, enda veit ég ekki til þess, að tillaga um að taka upp sérstakar samningaviðræður við BHMR í kjölfar þjóðarsáttarsamninganna hafi verið gerð með formlegum hætti innan ríkisstjórnarinnar. Það var ekki gert svo ég viti. Ég er forsrh. alveg sammála um að það mátti ekki láta neitt ógert til þess að ná réttri framkvæmd og skilningi á þessum erfiðu samningum frá vorinu 1989. Það fór sem fór. Þess vegna stöndum við hér í þessu erfiða máli. Þetta er ekki sagt af minni hálfu með neinni áreitni heldur í djúpri alvöru. Við urðum að taka á málinu. Og eins og ég sagði, hversu erfitt það er kemur glöggt fram í því hve erfitt hefur verið að ná samkomulagi í þeim stóra flokki, Sjálfstfl.