Launamál
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Halldór Blöndal :
    Herra forseti. Ég ætla að syndga upp á náðina með því að skjóta því að að enginn þessara ráðherra treystir sér til þess að segja að lýsing hæstv. forsrh. væri rétt á því sem gerðist í ríkisstjórninni.
    Hæstv. fjmrh. sagði að ég hefði ekki gert mér grein fyrir því að þau 4,5% sem dæmd voru félögum í BHMR væru sektargreiðslur. Sýnir nú hversu erfitt er að ræða við hæstv. ráðherra þegar þeir eru ekki við þegar ræður eru fluttar. Ég gerði einmitt glögga grein fyrir því í minni fyrri ræðu að hér væri ekki um launahækkun að ræða heldur væri þetta févíti. Það er svo alveg sérstakt álitamál, sem ég hef ekki séð neitt lögfræðilegt álit um, hvort Bandalag háskólamenntaðra manna hefði átt rétt á því að fá slíka greiðslu öðru sinni. Segja svo að á hinum almenna launamarkaði hefðu orðið launahækkanir um 4,5%. Þá var það auðvitað sérstakt álitamál og athugunarefni hvort það hefði gefið tilefni til þess að endurtaka eða tvöfalda févítið, sektargreiðsluna. Mér er ekki kunnugt um að einn einasti lögfræðingur hafi skrifað greinargerð um það efni. En á það mun auðvitað reyna þegar hæstv. forsrh. kemur á fund fjh. - og viðskn. hvað þeir lögfræðingar sem leitað var til sögðu um það sérstaka álitamál. En ég man ekki eftir að því hafi verið gerð nein skil þannig að allar þessar vangaveltur um að dómurinn hafi spunnið upp einhvern píramída gagnkvæmra hækkana er auðvitað ekkert nema vangaveltur og eiga að mínu viti ekki við rök að styðjast.