Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég hef ekki miklu við það að bæta sem hæstv. fjmrh. sagði en þó vil ég staðfesta það sem kom fram í fyrirspurn hv. þm., að hæstv. sjútvrh. lýsti því yfir að miðað við það að ekki hefur náðst samkomulag um að afnema aðstöðugjaldið sé frv. í öðrum búningi en hann hefði gert ráð fyrir. Hins vegar var alla tíð unnið að þessu máli á þann máta sem hæstv. fjmrh. hefur lýst hér.
    Það er náttúrlega hægt að fara þær leiðir sem hæstv. fjmrh. benti á. Það má reyndar bæta við einni enn sem ég tel rétt að koma á framfæri hér því það er sú sem hæstv. sjútvrh. hefur talið líklega, að í stað þess sem segir í 2. gr. frv. nú komi inn ákvæði til bráðabirgða sem lýsi álagningunni á næsta ári. Málið verði síðan tekið upp þegar samstaða hefur náðst um aðstöðugjaldið.
    Ég vil lýsa þeirri skoðun Framsfl., sem er mjög eindregin, að það eigi að hverfa frá aðstöðugjaldinu, hljóti að verða gert og við viljum vitanlega leggja áherslu á að ná því með samkomulagi. Ef það tekst ekki þá verður löggjafinn að taka þetta mál í sínar hendur. Ég hef heyrt skilning á því að aðstöðugjald gengur ekki upp í þeirri samræmingu sem nú er unnið að á skattlagningu hér og erlendis. Mér sýnist því þetta mál ekki vera það flókið að ekki megi, miðað við þær aðstæður sem nú hafa orðið, lagfæra það í nefndinni og afgreiða það fyrir áramótin.