Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Mér finnst nú óþarfa umstang að vera að hafa umræður um þingsköp um þetta mál. Það hefði mátt bíða umræðunnar sem væntanlega fer fram hér á eftir. Nú eru annasamir dagar og við reynum að skipuleggja vinnu okkar svo vel sem við megum.
Það er ákaflega gott samstarf í fjh. - og viðskn. Nd. og ég er mjög þakklátur hv. 1. þm. Reykv., svo og öðrum stjórnarandstæðingum og öðrum nefndarmönnum í fjh. - og viðskn., fyrir einstaka lipurð sem þeir sýna við meðferð mála í nefndinni.
    Það er alveg rétt frá greint hjá hv. 1. þm. Reykv. að það er búið að taka þetta mál tvisvar sinnum fyrir til umfjöllunar í fjh. - og viðskn. Nd. þó ekki sé búið að mæla fyrir því. Þetta hefur allt verið gert í góðu samstarfi við stjórnarandstöðuna í nefndinni. En það kom bara í ljós þegar við fengum þskj. að það var ekki í þeim búningi sem um var samið af þeim aðila sem þingflokkur Framsfl. hafði falið að fara með umboð í málinu. Þetta verður náttúrlega að laga. Annaðhvort verður það með nýju þskj. ellegar þá í nefndinni sem er afskaplega einfalt og langfljótlegasta aðferðin. Síðan getum við fjallað um þetta stjfrv., því að sjálfsögðu er þetta stjfrv. Þá vinnst vonandi tími til þess að afgreiða þetta mál fyrir jól því að þetta er ekki mjög flókið og við höfum þegar heyrt skoðanir ýmissa þeirra aðila sem við þurftum að kalla fyrir nefndina.
    Ég vil einnig fullyrða það að þetta frv. er ekki samið af prenturunum í Gutenberg. Ef svo hefði verið hefði það komið fyrr fram og Alþingi gefist meiri tími til þess að fjalla um það.