Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson) :
    Virðulegi forseti. Vegna þeirra ummæla sem hér voru viðhöfð tel ég óhjákvæmilegt að segja það alveg skýrt að þetta frv. er lagt fram í þeim búningi sem um það var fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar og í þingflokkum ríkisstjórnarinnar allan tímann. Búningi frv. var á engan hátt breytt frá þeirri umfjöllun eða þeim gögnum sem fulltrúar flokkanna og þingflokkarnir höfðu undir höndum. Það er nauðsynlegt að það komi alveg skýrt fram.
    Hér er hins vegar ekki um flókið mál að ræða. Hér er einfaldlega pólitísk spurning um það hvort menn vilja fara þá leið að lögfesta frv. í þeim búningi sem það er lagt fram í trausti þess að niðurstaðan náist á næsta ári varðandi endurskoðun aðstöðugjaldsins og þá breyta löggjöfinni ef það næst ekki, eða hvort menn vilja, sem hefur verið skoðun sumra, lögfesta áfanga í málinu og bíða með aðra áfanga þar til lögfestar hafa verið breytingar með aðstöðugjaldinu. Þetta er í sjálfu sér ekkert atriði sem í felst pólitískur ágreiningur. Þetta er mat á vinnubrögðum varðandi framgang þessara mála í heild sinni, snertir á engan hátt efnisatriði frv. sjálfs eða þá pólitísku stefnu sem þar er boðuð. Þess vegna er fullkomlega eðlilegt að mæla fyrir frv. hér og nú og halda áfram efnislegri vinnu við það meðan ekki bara ríkisstjórnin heldur líka stjórnarandstöðuflokkarnir meta þetta atriði. Ég hefði talið að innan þingsins í heild sinni væri víðtækur stuðningur við að halda áfram á braut endurskipulagningar skattkerfisins á Íslandi út frá sjónarmiðum og hagsmunum atvinnulífsins og þeirrar aðlögunar að alþjóðlegri samkeppni sem við þurfum að búa okkur undir.