Stjfrv. um tryggingagjald
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Friðrik Sophusson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherrum fyrir þær skýringar sem þeir hafa reynt að gefa á þessari uppákomu allri. Ég vil fyrst segja það að þetta mál snýst ekkert um aðstöðugjöldin að öðru leyti en því að gert var í upphafi ráð fyrir að frv. yrðu samferða hér í gegnum þingið en úr því hefur ekki orðið vegna þess að hæstv. ríkisstjórn hefur kosið að setja það mál í nefnd. Mér er að vísu fullkunnugt um að það væri miklu heppilegra að láta þessi mál verða samferða en því er ekki til að dreifa, einfaldlega vegna þess að það verður ekki fyrr en í tíð næstu ríkisstjórnar sem frv. verður til um aðstöðugjaldið sem hugsanlega verður lagt fram hér á hinu háa Alþingi.
    Það sem skiptir máli, virðulegi forseti, er þetta: Það stangast gersamlega á yfirlýsingar annars vegar hæstv. fjmrh. og hins vegar hv. 1. þm. Norðurl. v. Hæstv. fjmrh. segir: Málið er í þeim búningi sem það var ávallt sýnt og þetta er stjfrv. eins og það átti að leggja fram. Hv. 1. þm. Norðurl. v. segir: Málið er ekki í þeim búningi sem um var samið og það verður annaðhvort að koma fram nýtt þskj. eða málið að breytast í nefndinni.
    Til þess, virðulegi forseti, að skýra við hvað er átt, þá er það hvorki meira né minna en það að í 2. gr. þessa frv., sem er aðalgrein frv., segir nú: ,,Tryggingagjald skal nema 4,25% af gjaldstofni``, en það sem hv. framsóknarmenn eru að halda fram, þar á meðal hv. 1. þm. Norðurl. v., er að 2. gr. orðist: Tryggingagjald skal nema 2,5% og 6%, og síðan eigi að þurrkast út tveir liðir til bráðabirgða. Á þessu er grundvallarmunur. Það er vegna þess að ef horfið er að því ráði sem hv. framsóknarmenn vilja að gert sé, þá er verið að gefa það í skyn að Alþingi ætli ekki að samþykkja neitt nema það að hafa tvo gjaldflokka eins og þeir eiga að vera á næsta ári. Síðan sé það síðari tíma ákvörðun hvort áfram verði haldið og gjaldstofnarnir jafnaðir. En eins og frv. er núna, eins og gengið var frá því í nefndinni sem samdi frv. í upphafi og eins og hæstv. fjmrh. hefur bent á, þá skiptir það mestu máli, og það er stóra stefnubreytingin, að það eigi að samræma þessi gjöld og hafa þau í framtíðinni einn gjaldflokk, þ.e. 4,25%.
    Ég ætla að vekja athygli á því að stuðningur eða andstaða við frv. af hálfu þeirra sem þurfa að búa við frv., þeirra sem koma til með að greiða skattinn, viðhorf þetta mun mótast fyrst og fremst af því hvernig þetta mál á að líta út til framtíðar en ekki hvernig það á að gerast á næsta ári. Ef það á að fara að því ráði sem framsóknarmenn leggja til, þá er í raun og veru aðeins verið að gera smávægilega breytingu til þess að ná í 500 millj. kr. í ríkissjóð. Ef hins vegar á að taka breytinguna út, eins og hæstv. fjmrh. vill gera, og halda síðan áfram eins og nefndin sem samdi frv. gerði ráð fyrir, þá er verið að tala um kerfisbreytingu í skattamálum. Og ég segi, virðulegi forseti, ef þetta er ekki ágreiningur sem menn þurfa að jafna áður en mál er lagt fram og byrjað að ræða það hér á hinu háa Alþingi, hvenær er þá ástæða til þess

að birta svokölluð stjfrv.? Skiptir þá nokkru máli, hvort ríkisstjórnin er sammála eða ekki? Er þá ekki eins gott að hver hæstv. ráðherra fyrir sig komi bara og fleygi málum hér inn í þingið og segi síðan: Það er ágætt ef hv. nefnd vildi kanna það hvort hægt sé að breyta frv.? Um þetta snýst málið. Og þetta gerist á þriðjudegi í síðustu viku fyrir jól og svo er ætlast til þess að hv. Alþingi kyngi því að renna þessu í gegnum þingið á 2 -- 3 dögum, sex umræðum, þegar svona stendur á. Ég verð að segja, virðulegi forseti, og það er kannski meginástæðan fyrir því að þessi þingskapaumræða fer fram, það er ekki hægt að ætlast til þess að Alþingi klári þetta mál á meðan hæstv. ríkisstjórn hefur ekki unnið heimavinnuna sína betur en raun ber vitni.