Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson) :
    Herra forseti. Ég hygg að hv. 1. þm. Suðurl. hafi átt við umhverfisfrv. þegar hann talaði um einhverjar deilur okkar á síðasta þingi sem gengið hefðu í öfuga átt. Ég vona satt að segja að við þurfum ekki að fara að munnhöggvast út af því máli nú og tel tímanum betur varið til annars. Ég vil þó láta það koma fram að ég tel það vera eitt allra besta mál sem ég hef flutt á hinu háa Alþingi. Ég held að það hafi löngu sýnt sig og sannað að það var tími til kominn að setja hér á fót umhverfisráðuneyti.
    Ég vil taka undir það með hv. þm. að vitanlega væri mjög æskilegt að þessi mál gætu fylgst að. Það starfar mjög fjölmenn nefnd að endurskoðun stjórnarráðsfrv. sem ég hafði einnig sýnt og eiga tveir hv. þm. Sjálfstfl. sæti í þeirri nefnd, m.a. hv. 1. þm. Suðurl. Ég hef ekki lagt neina áherslu á að þessu máli verði hraðað. Ég geri ráð fyrir að leggja hitt frv. strax og það er komið fram hér fyrir Nd., svo það fari til sömu deildar og þetta frv. Hins vegar þótti mér afar óviðeigandi að þessi bráðabirgðaráðstöfun forsrh. lægi ekki fyrir á Alþingi fljótlega. Þess vegna vildi ég leggja þetta frv. fram og raunar með öllum þeim rökstuðningi sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. Við skulum bara vona að hin nefndin skili fljótlega af sér og þá fer það til nefndarinnar og þá afgreiðist þetta eflaust sameiginlega á þessu þingi. En þetta getur ekki beðið annars þings.