Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég hygg að fæstir hafi neitt við þetta frv. efnislega að athuga. Ég tek undir það sem hæstv. fjmrh. sagði um nauðsyn þess að sameina hið almenna fjmrn. og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Hins vegar vekur það athygli í þessu sambandi varðandi bréf það sem forsrh. gat um að hann hefði ritað á grundvelli 10. gr. laga um Stjórnarráðið, þar sem hagsýslustjóra var falið að gegna störfum ráðuneytisstjóra fjmrn., að eigi er vikið að sambærilegri skipan sem búið er að koma á varðandi embætti ráðuneytisstjóra í viðsk.- og iðnrn. Mig langar að spyrja að því hvort það hafi verið gert með sams konar bréfi og á grundvelli sömu greinar. Og ef það er rétt, því er þess þá ekki freistað að lögfesta þá skipan í sessi samtímis þessari breytingu? Hvers vegna getur sú breyting beðið almennrar endurskoðunar stjórnarráðslaganna en ekki þessi? Spurningin er sem sagt sú: Hefði ekki verið ráð, fyrst út í það er farið að freista þess að fá lögfestingu sameiningar fjmrn. og Hagsýslustofnunar, að freista þess í leiðinni að sameina þau tvö ráðuneyti, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti sem þegar lúta sömu stjórn á grundvelli sömu greinar og væntanlega með sams konar bréfi frá forsrh. og rætt hefur verið í þessari umræðu?