Stjórnarráð Íslands
Þriðjudaginn 18. desember 1990


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir hans svör við þeim spurningum sem ég lagði hér fyrir hann. Mér finnst eigi að síður gæta ósamræmis í því að það sé knýjandi að lögfesta þá ráðstöfun sem þetta frv. gengur út á og var ákveðin með bréfi frá forsrh. en um sambærilega ráðstöfun með sambærilegu bréfi um að fela stjórn iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis sama manni gegni eitthvað öðru máli. Með öðrum orðum, forsrh. taldi að óhjákvæmilegt væri að staðfesta strax þann gjörning sem ákveðinn var með bréfi á grundvelli 10. gr. laganna, en hann telur ekki að það sé með sama hætti nauðsynlegt að lögfesta hitt bréfið varðandi það að sama manni var falið að gegna starfi ráðuneytisstjóra í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum báðum. Ég tek fram að ég er ekki að gagnrýna þá ráðstöfum, þvert á móti. En mér hefði fundist vera meira samræmi í því að taka þá breytingu með í þetta frv. úr því að á annað borð var farið af stað með sérstakt frv. sem þó hefði sennilega verið skynsamlegt að bíða með þangað til að heildarendurskoðun stjórnarráðslaganna er lokið.